Hina níundu nótt ríður Sláttumaðurinn háloftin
hann lendir hvítum gandi sínum mjúklega utan vegar.
Holdlaust andlit hans lítur tómum tóttum
hornamikinn mannhafur
sem hangir í steinrunnu tré,
kjúkurnar kreppast um ljáinn.
Er ég þá dauður?
spyr fíflið.
Sláttumaðurinn sker á böndin.
Hann tekur fíflið á herðar sér og ber það út á veginn.
Svo ríður hann glottandi burt.
Satýrinn situr eftir í götunni.
Ægishjálm ber hann milli brúna sér
og köngurlóarmóðir
hefur skriðið upp úr Mímisbrunni
og ofið vetrarkvíða yfir veginn.
Hann horfir yfir þéttofið netið.
Hann hefur hann vald á rúnum
og heyrir á tal vargfugla
sem ráða honum að taka einn límkenndan þráð úr vetrarkvíðanum
og rekja sig áfram.