Skuggafugl

„Það eru svartfuglar í djúpinu þínu“
sagðir þú
og rýndir í yfirborðið.
Reyndir að veiða þá en þeir hurfu
þegar þú gáraðir fljótið.

Hefðirðu bara litið til himins
þá hefðirðu séð
að þeir voru aðeins endurvarp
á glersléttu vatni.
Skuggar hvítra máva
sem flugu þar yfir.

Hvað býr í djúpinu?
Eitthvað mun þar vera um hála steina,
sokkin sjóræningjaskip
og eflaust hugsa fiskarnir sitt
þótt fáir hafi heyrt þá syngja.

En ógárað yfirborð,
ljúfastur,
það er spegilmynd. Ekkert meira.