Ljónatemjarinn

Myndin er eftir Emily Balivet

Eina nóttina á meðan ástmey hans sefur
tekur hann mal sinn og flautu;
kyssir sofandi stúlkuna á ennið
og heldur aftur af stað út í heim.
Sértu velkominn heim, út í heim
syngur í huga hans
en snældusting af rokknum tekur hann með sér
til minja.

Á leið sinni hittir hann ljónatemjara.
Rauðhærða konu
sem ríður ljóni eftir götunni.
Þegar dýrið sýnir tennurnar og reisir makkann
biður hún það kurteislega að hafa hægt um sig.
Ljónið öskar ógurlega en sest svo ólundarlega niður.

Af hverju ferðast þú með villidýri
þar sem nóg er um fótvissa asna
spyr fíflið.
Af því að ljónið þorir að eigra um Törfaskóg að næturþeli
en asninn ekki,
svarar konan.

Af hverju hlýðir þú konu,
og lætur hana sitja þig sem hvern annan asna
þegar þú gætir eins rifið hana á hol?
spyr fíflið ljónið.
Og ljónið opnar annað augað
og hvæsir út um vinstra munnvikið:
Af því að hún þekkir óætan satýr frá gómsætum unghafri
og forðar mér frá því að sóa tíma mínum í að tæta sundur fífl.

Svo halda þau áfram inn í rauðgullinn haustskóginn.

Share to Facebook