Þversögnin í umræðunni um Silvíu Nótt

sylvíaÍslendingar lifa sig inn í Júróvissjón. Annað menningarlíf leggst nánast af á meðan á keppninni stendur og þjóðin liggur í þynnku daginn eftir.

Íslendingar senda fulltrúa sinn til keppni. Að þessu sinni kemur meirihlutinn sér saman um leikna persónu, holgervingu sýndarraunsæisstefnunnar sem gegnsýrir alþýðumenningu okkar þessa dagana.

Táknmynd þjóðarinnar er barnaleg, frumleg, kjaftfor, yfirborðskennd sýndarveruleikafígúra, útblásin af innistæðulausri sjálfsánægju. Eins og búast mátti við féll hún ekki í kramið hjá neinum nema sjálfri sér.

Íslendingar, sem völdu sér þessa sýndarveruleikaímynd, gráta ýmist eða fagna. Sumir skilja ekkert í því að höfundur fígúrunnar hafi ekki séð sóma sinn í því að breyta henni eftir að hún var valin. Aðrir segja það töff leik hjá stelpunni að brjóta blað í sögu keppninnar með því að gefa gjörsamlega skít í öll gildi sem hafa einkennt hana hingað til.

Mér finnst dálítið merkilegt að þjóðin skuli velja lag og fulltrúa sérstaklega til þess að lýsa frati á þessa hallærislegu húmbúkkskeppni, sem hún samt sem áður fylgist með af meiri ákefð en flestar aðrar þjóðir. Ennþá merkilegra að þegar greinilegt markmið með því að senda þessa tilbúnu fígúru sem fulltrúa okkar, er það að gera lítið úr keppninni, skuli sama fólk skæla yfir því að hún hafi ekki slegið í gegn.

Mér finnst þetta svona svipað því að skíta á tröppur nágrannans og verða svo spældur yfir því að vera ekki boðinn í afmælið hans.

Share to Facebook