Þessvegna ætti Hanna Birna að segja af sér

hbk

„Konur eru konum verstar“, verða sennilega fyrstu viðbrögð margra við þessum pistli en þessi klisja er alltaf dregin fram þegar kona gagnrýnir konu. Ég veit ekki hvaða vitringur setti þá reglu að konum beri að sýna öðrum konum systraþel óháð því hvernig þær hegða sér, en ég sé ekkert kvenfrelsi í því að helmingur mannkynsins eigi að vera hafinn yfir gagnrýni.

En það er auðvitað ákveðinn sannleikur í þessum frasa. Til dæmis tel ég að Hanna Birna Kristjánsdóttir vinni konum heilmikinn skaða með því að hanga á völdum sínum þrátt fyrir að vera margbúin að sýna fram á vanhæfni sína. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að ég tel að hún ætti að segja af sér hið snarasta.

1   Trúarlegir fordómar

Hanna Birna talar eins og lög gegn trúboði í skólum merki það sama og að gera kærleikann útlægan. Það er ekki boðlegt í samfélagi sem kennir sig við trúfrelsi að innanríkisráðherra ali á fordómum gagnvart þeim sem ekki játa kristindóm eða gefi til kynna að kristnir menn hafi einkarétt á kærleikanum, og það opinberlega.

2   Virðingarleysi við alþjóðlega mannréttindasáttmála

Hanna Birna telur sig ekki þurfa að taka til greina ábendingar frá talskonu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna um mannréttindabrot gegn flóttamönnum. Það er illa við hæfi æðstu ráðamanna ríkis sem gefur sig út fyrir að virða mannréttindi og á aðild að alþjóðasamningum þar að lútandi, að setja sig á háan hest gagnvart mannréttindasamtökum. Orð Hönnu Birnu vekja grun um að hún samþykki valdníðslu lögreglu og þau eru til þess fallin að ýta undir fordóma gegn flóttafólki. Nær hefði henni verið að láta rannsaka málið tafarlaust.

3   Virðingarleysi við milliríkjasamninga

Hanna Birna hundsaði milliríkjasamninga um afhendingu brottnuminna barna í máli Hjördísar Svan. Hún hundsaði einnig norræna handtökuskipun á hendur Hjördísi. Hvaða skoðun sem maður hefur á því máli er ekki forsvaranlegt að ráðherra vanvirði samninga og samstarf við önnur ríki.

4   Virðist ekki þekkja takmörk valdsviðs síns

Fram hafa komið vísbendingar um að Hanna Birna hafi gefið vilyrði fyrir því að fara út fyrir valdsvið sitt til þess að aðstoða Hjördísi við að brjóta gegn umgengnisrétti barnanna og föður þeirra. Hún reyndi að hafa áhrif á dönsk stjórnvöld og hún lýsti yfir hryggð yfir niðurstöðu dómsmálsins úr ræðustól Alþingis. Ráðherra getur haft áhrif með því að leggja ný lagafrumvörp fyrir þingið en það er ekki í lagi að hann reyni að grípa fram fyrir hendur dómstóla.

5  Skilur ekki alvarleika lögreglurannsóknar á ráðuneytinu

Hanna Birna neitar að stíga til hliðar þegar upp kemur mál þar sem allt bendir til þess að trúnaðargögnum hafi verið lekið úr ráðuneyti hennar og heldur fast við þá afstöðu enda þótt ríkissaksóknari fyrirskipi lögreglurannsókn.

6  Neitar að svara spurningum

Hanna Birna neitar að svara spurningum blaðamanna, þingmanna og almennra borgara um lekamálið. Ráðherra er ekki hafinn yfir þing og þjóð, honum ber að gefa fjölmiðlum upplýsingar og svara skriflegum fyrirspurnum, bæði samkvæmt upplýsingalögum og almennum siðareglum.

7   Fer ítrekað með ósannindi

Hanna Birna hefur sagt ósatt um hvert einasta atriði sem hún hefur tjáð sig um varðandi lekamálið, bæði í fjölmiðlum og úr ræðustól Alþingis, auk þess að reyna að bendla undirstofnanir, lögmenn og Rauða krossinn við lekann. (Hér má sjá samantekt um lekamálið.)

8  Lýsir yfir stefnu sem engin innistæða er fyrir

Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það, að þjóðin fær að ákveða það, hvort verður gengið lengra í þessu máli.

Eins og fleiri ráðherrar lofaði Hanna Birna því að hennar flokkur myndi setja ESB málið í þjóðaratkvæðagreiðslu þó svo að síðar hafi komið á daginn að það hafi ekki staðið til.

9   Og hvað er málið með þessa yfirmannsstöðu við Lögregluskólann?

Náfrænka Hönnu Birnu er tekinn fram fyrir hæfari umsækjendur þegar ráðið er í stöðu innan lögreglunnar, sem einmitt heyrir undir innanríkisráðuneytið. Er þetta augljós klíkuráðning eða mistök? Vissi Hanna Birna af þessu? Hún veit þetta að minnsta kosti núna en af hverju segir hún ekkert? Er boðlegt að innanríkisráðherra láti það viðgangast að nánir ættingjar hans séu teknir fram yfir hæfari umsækjendur?

Þar sem Hanna Birna er lifandi sönnun þess að konur sem sækjast eftir völdum geta verið alveg jafn vanhæfar og karlar, tel ég að hún myndi gera kynsystrum sínum stóran greiða með því að segja af sér. Jafnréttisbaráttan ætti nefnilega ekki að snúast um rétt kvenna til stærri sneiðar af spillingunni heldur um það að gera heiminn að betri samastað fyrir þær konur, jafnt sem karla, sem ekki búa við þann vafasama lúxus að hafa völd sem ráðamenn af báðum kynjum komast allt of oft upp með að misbeita.

Og það er 10. ástæðan fyrir því að Hanna Birna ætti að segja af sér: Við konur erum nefnilega ennþá „hitt kynið“, alltof oft dæmdar sem hópur fremur en einstaklingar. Það er óréttlátt en engu að síður veruleiki sem við getum ekki litið fram hjá. Einnig þessvegna ætti Hanna Birna að segja af sér, ef hún vill öðrum konum vel:

10  Hún varpar nefnilega rýrð á konur með þrásetu sinni í ráðherrastól.

Share to Facebook