Sko, þú verður að sanna að þú þekkir mömmu þína

Þann 20 júlí sl. birti Rás 2 viðtal við Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, um mál filippseyskrar stúlku sem hefur barist fyrir því árum saman að fá náðarsamlegast leyfi til þess að búa hjá fjölskyldu sinni á Íslandi. (Umfjöllunin hefst þegar 9 mín og 28 sek eru liðnar af þættinum.) Þetta viðtal vekur margar spurningar og áhugavert hefði verið að sjá snöfurmannlegan blaðamann leita svara við þeim helstu.

Í sama þætti,  þ.e. Síðdegisútvarpinu, daginn áður, kom fram að faðir stúlkunnar hefði látist árið 2009 en að þrátt fyrir að dánarvottorð hefði verið lagt fram, hefði umsókn stúlkunnar um dvalarleyfi verið synjað. Var rangt farið með það eða hversvegna í ósköpunum var Kristín ekki spurð hversvegna stofnunin hefði hafnað dvalarleyfisumsókn fyrir ungling, þegar fyrir lá að faðir hennar var látinn?

Kristín talar um að forsjárgögnum hafi ekki verið skilað, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir ÚTL. Nú þekki ég ekki til skriffinnskunnar á Filippseyjum en í þættinum frá deginum áður kemur fram að þurft hafi aðstoð konsúls Íslands á Filippseyjum til að leggja fram dánarvottorð. Einnig hefur hefur komið fram í fjölmiðlum að til sé stöðluð staðfesting yfirvalda á því að algengt sé að Filippseyingar stafsetji nafn sitt á annan hátt en það er stafsett í opinberum gögnum og bara þetta litla atriði vekur grun um að ýmislegt sé með öðrum hætti þar en á Norðurlöndunum. Ennfremur segir á fb síðu stuðningshóps fjölskyldunnar að erfitt sé að nálgast forsjárgögn. Af hverju var forstjóri UTL ekkert spurð hvort einhversstaðar kæmi fram að erfitt hefði verið að afla forsjárgagna og hvort fordæmi væru fyrir því að fólk frá Filippseyjum ætti í vandræðum með að afla slíkra gagna?

Kristín talar svo um að nú, þegar stúlkan er fullorðin og stofnunin þarf ekki lengur að velta forræðinu fyrir sér, þurfi hún að sanna tengsl sín við móður sína, með því að leggja fram forsjárgögn, fyrst hún hafi valið að sækja um á forsendum sérstakra tengsla. Kristín er ekkert spurð út í það hversvegna fólk þurfi að sanna tengsl við foreldra sína. Undarlegt hlýtur að teljast að umsækjendur um dvalarleyfi þurfi sérstaklega að sanna að þeir hafi tengsl við þá sem þeir ætla að búa hjá, hvað þá þegar um nánustu ættingja er að ræða. Þetta er ennþá hlálegra í ljósi þess að hingað til hefur krafan hljóðað upp á það að sú kenning að stúlkan geti bara verið hjá föður sínum verði afsönnuð. Þannig virðist vera gengið út frá tengslum erlends foreldris og barns þegar ÚTL getur notað það sem átyllu til að hafna umsókn en hinsvegar er gengið út frá tengslaleysi foreldra og barna þegar sótt er um á forsendu fjölskyldutengsla. Af hverju er Kristín ekkert spurð út í þetta misræmi?

Kristín talar svo um að „eðlilegast“ sé að stúlkan sæki um dvalarleyfi á forsendum náms eða vinnu. Hún er ekkert spurð hversvegna það sé „eðlilegra“ að flytja milli landa á þessum forsendum en af löngun til að vera hjá fjölskyldu sinni eða hver hafi ákveðið hvað sé eðlilegt í þeim efnum.

Það hefði líka verið áhugavert að fá svör forstjóra Útlendingastofnunar um það hvort stofnuninni sé kunnugt um atvinnumöguleikra ungra, einstæðra, heimilislausra kvenna í Manila og hvort stofnuninni þyki við hæfi að ríki sem fordæmir klám og kynlífsþjónustu að því marki að það hefur gert kaup á slíkri þjónustu refsiverð, telji við hæfi að senda fólk í aðstæður sem gera það að mjög auðveldum fórnarlömbum kynlífsánauðar.

Vinnubrögð Rásar 2 í þessu máli eru ósköp dæmigerð fyrir íslenska fjölmiðla. Metnaðarlaus kranablaðamennska. Þau eru hinsvegar blessunarlega laus við þá sóðalegu æsifréttamennsku sem einkennir þessa ómerkilega umfjöllun DV en ég mun fjalla um hana síðar.

Share to Facebook