Páll Winkel skilur bara ekkert í þessu

pall-winkel-688x451
Það er mjög óskynsamlegt að flýja úr fangelsi og sérlega óskynsamlegt fyrir þá sem búa í 300.000 manna eyríki. Eins og Páll Winkel bendir á, þá bíður einangrunarvist og minni von um reynslulausn, þeirra sem strjúka. Auk þess eru þeir sviptir möguleikanum á dagsleyfi í tvö ár og geta átt á hættu að vera beittir ýmsum öðrum refsingum (sem formlega eru kölluð „agaviðurlög“) svo sem takmörkun heimsókna og símtala.

Við getum hins vegar ekki búist við því að allar mannanna gjörðir séu skynsamlegar, við erum tilfinningaverur og stjórnumst af fleiri hvötum en viljanum til þess að leggja á okkur þrautir og neita okkur um það sem við þráum í augnablikinu, af því að við vitum að sú ákvörðun muni koma okkur til góða síðar. Tilhneiging til að láta undan andartaks löngun, enda þótt það sé óskynsamlegt, er í daglegu tali kölluð agaleysi og það er einmitt töluverð fylgni milli afbrota og agaleysis.

Þegar fólk er svipt möguleikanum á því að fullnægja eðlilegum þörfum sínum þarf engum að koma á óvart að það missi sjónar á skynseminni. Flest okkar skilja vel að sveltandi maður, sem fær val um að seðja hungur sitt strax eða bíða í 3 daga til viðbótar og fá þá mat til tveggja daga í stað eins, taki umhugsunarlaust við þeim ruðum sem honum eru réttar. Þótt frelsi sé manninum ekki nauðsynlegt til að lifa af er það engu að síður mjög djúprætt, mannleg þörf að njóta frelsis og einmitt þessvegna eru fangar ekki dregnir fyrir dóm vegna stroks nema þeir hafi tekið sig saman um að strjúka. Hugmyndin á bak við þetta fyrirkomulag er sú að skipulagður flótti sé annars eðlis en þegar fangi sér möguleikann á flótta skyndilega opnast og sætir lagi vegna þess að frelsisþráin beri hann ofurliði.

Það er áhyggjuefni að æðsti yfirmaður fangelsismála í landinu skuli ekki hafa til að bera meiri skilning á mannlegu eðli en svo að eftir meira en 7 ár í embætti og langa reynslu innan lögreglunnar áður en hann tók við embætti, skuli hann ennþá klóra sér í hausnum í forundran þegar fangar strjúka og því miður er það ekkert einsdæmi að þeir sem hafa mikið vald yfir öðrum manneskjum hafi lítinn skilning á sálarlífi þeirra. Þessvegna legg ég til að það verði hluti af þjálfun starfmanna þeirra ríkisstofnana sem hafa einkarétt á ofbeldi, það er að segja fangavarða, lögreglumanna og  starfsmanna Útlendingastofnunar, að kynnast af eigin raun þeirri meðferð sem viðföng þeirra fá.

  • Enginn lögreglumaður ætti að fá leyfi til að beita piparúða, táragasi, kylfu eða rafbyssu nema hafa sjálfur fengið að kenna á þeim vopnum.
  • Enginn starfsmaður Fangelsismálastofnunar ætti að hafa leyfi til að dæma menn í einangrun  eða meina þeim samskipti við sína nánustu nema hafa sjálfur setið í einangrun í tiltekinn tíma og verið innilokaður með fólki sem hann valdi ekki sjálfur og synjað um heimsóknir og símtöl vikum saman.
  • Enginn ætti að fá að taka ákvarðanir um meðferð flóttamanna nema hafa sjálfur dvalið um óákveðinn tíma í flóttamannabúðum í landi þar sem fáir tala tungumál sem hann hefur gott vald á og án þess að vita hvort og hvenær hann fær áheyrn.

Að vísu myndi þjálfun af þessu tagi ekki tryggja það að allir starfsmenn ofbeldisstofnana ríkisvaldsins sýndu viðföngum sínum meiri miskunn, því sumir þeirra sem sækja í þessi störf njóta þess hreinlega að sýna vald sitt. Þjálfun af þessu tagi gæti þó gagnast þeim sem, líkt og Páll Winkel, skilja bara ekkert í því hversvegna fíklar, fólk með persónuleikaraskanir og geðræn vandamál, fólk sem ólst upp við óreglu, ofbeldi og félagslega útskúfun og fólk sem er á örvæntingarfullum flótta frá fátækt eða ofsóknum, tekur stundum óskynsamlegri ákvarðanir en þeir sem alltaf hafa lifað við öryggi og ástúð.

Share to Facebook