Ögmundur læri af umhverfisráðherra

Hvítabirnir eru hættuleg dýr. Þeir éta fólk. Þessvegna þarf að skjóta þá hvar sem til þeirra næst. Reyndar eru þeir friðaðir og að sjálfsögðu ætlumst við til þess að bann við ísbjarnadrápum sé virt á Grænlandi og Svalbarða en það þýðir ekki að okkars megum ekki nýta þetta gullna tækifæri til að fara í byssuleik.

Hversu algengar eru hvítabjarnaárásir?

Sannleikurinn er sá að hvítabirnir ráðast sjaldan á fólk og í langflestum tilvikum hefur dýrunum verið ögrað eða þau eru vannærð. Í fljótu bragði finn ég ekki upplýsingar um mannfall í heiminum af völdum hvítabjarna en ég fann eitt dæmi frá Svalbarða á síðari árum, þar sem unglingur lést og fjögur ungmenni til viðbótar slösuðust. Wikipedía gefur upp tölur fyrir Norður Ameríku frá 1968. Grænland er ekki nefnt þar, væntanlega af því að það tilheyrir Danmörku stjórnarfarslega, fremur en að þar séu ísbjarnaárásir óþekktar. Ég fann ekki tölur frá Grænlandi, þigg tengil ef einhver lesenda hefur upplýsingar.

Samkvæmt Wikipedíu hafa hvítabirnir drepið sjö manneskjur í Kanada og Alaska, svo vitað sé á síðustu 44 árum. Þar af þrjár sem lögðu á sig töluvert vesen til að klifra inn fyrir girðingar utan um ísbjarnagryfjur í dýragörðum. Birnirnir voru auðvitað drepnir í hefndarskyni. Semsagt fjórar manneskjur utan dýragarða í N-Ameríku, einn á Svalbarða, sennilega eru tilvikin fleiri, en „algengt“ er nú tæplega rétta orðið.

Auðvitað eru hvítabirnir hættulegir og þótt manndráp af völdum þeirra séu sjaldgæf á Grænlandi, reikna ég með að það skýrist að hluta til af því Grænlendingar séu jafnan fyrri til ef bangsi leitar niður í byggð. Reyndar fann ég ekki tölur um ísbjarnaárásir á  Grænlandi en þar falla 9 manns árlega fyrir hendi manneskju. Grænlendingar virðast því líklegri til að verða fyrir líkamstjóni eða dauða af völdum þeirra sem bera byssurnar sem eiga að vernda þá gegn þessum vágestum en af völdum dýranna sjálfra.

Þrjár ástæður til að drepa þá

Rök þeirra sem vilja drepa hvítabirni eru þau að bangsi sé hættulegur. Gott og vel, það er ekkert umdeilt, en hvaða ástæður geta verið til þess að drepa hættulegt dýr af tegund sem er í útrýmingarhættu frekar en að svæfa það og fanga?

Skársta réttlætingin sem ég hef heyrt er sú að dýr sem villtist alla þessa leið sé sennilega vanhæft hvort sem er og því bjarnargreiði að bjarga því. Í fyrstu fannst mér sú skýring koma til greina en hún stemmir ekki við  það sem Ævar Pedersen segir, að það sé þessum stóru dýrum ekkert óeðlilegt að ferðast alla þessa leið. Ástæðan fyrir þessum drápum er því varla sú að það sé talið það mannúðlegasta í stöðunni.

Algengasta skýringin er sú að það sé svo miklu ódýrara að drepa dýrið. Og já, það er áreiðanlega mjög dýrt að svæfa svona stóra skepnu, setja hana í búr og fóðra hana þar til hún hefur náð nógu góðri heilsu og holdum til að hægt sé að sleppa henni í sínum náttúrulegu heimkynnum. (Eða bara út í sjó eins og Ævar telur að gæti jafnvel gengið.) Þetta eru samt vond rök. Þjóð sem hefur efni á því að halda uppi fjölmennri stétt manna sem gera lítið eða ekkert að gagni en þiggja ofurlaun fyrir að hygla sjálfum sér; sú þjóð hefur líka efni á því að virða samkomulag um friðun dýra í útrýmingarhættu.

Þriðja ástæðan sem ég heyri nefnda er sú að björgunarbúnaður sé ekki til. Það finnst mér afskaplega sennilega skýring í landi fúsks og frestunar. Jájá, það er áreiðanlega heilmikið vesen að koma sér upp svæfingabúnaði og búri en það vill svo til að við rekum Umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun og umhverfisþetta og umhverfishitt, einmitt til þess að standa í því árans veseni sem það kostar þjóð að virða umhverfissjónarmið. Að  jafnaði gengur einn hvítabjörn á land árlega. Það á því ekki að koma neitt á óvart þótt einn slíkur hafi álpast hingað nú og ef skortur á búnaði er ástæðan fyrir því að nú á að drepa þetta dýr, þá er sú ástæða skammarleg.

Beitum sömu rökum á flóttamenn

Íslendingar drepa að meðaltali einn hvítabjörn árlega. Friðað dýr sem allavega í einhverjum tilvikum er hægt er að bjarga. Réttlætingin er sú að dýrin séu hættuleg og það kosti peninga og vesen að virða náttúruverndarsjónarmið. Með sömu rökum ættum við auðvitað að hætta að púkka upp á flóttamenn. Sumir þeirra eru nefnilega svo hættulegir eins og Innanríkisráðherra nefnir jafnan þegar hann er spurður skýringa á því hversvegna Íslendingar séu svona tregir til að taka við flóttamönnum. Það kostar heilmikla peninga og vesen að halda þeim uppi og senda þá svo heim í eymdina; sennilega eyða Íslendingar töluvert meiru í hvern flóttamann en hvern hvítabjörn sem gengur á land. Munurinn er sá að hvítabjörninn yrði sennilega bara feginn að komast heim en í tilfelli flóttamannsins er verið að eyða peningum í óþökk hans. Það er því spurning hvort við höfum bara hreinlega efni á lúxus eins og mannréttindum einhverra útlendinga.

Íslendingar hafa hingað til ekki látið mannréttindasjónarmið þvælast mikið fyrir sér þegar flóttamenn eru annars vegar, ekki frekar en náttúruverndarsjónarmið gagnvart hvítabirninum. Það væri því alveg tilvalið að Innanríkisráðuneytið tæki Umhverfisráðuneytið sér til fyrirmyndar, í því að spara fé og sleppa eins miklu veseni og mögulegt er. T.d. með því að skjóta þá bara. Þegar allt kemur til alls kostar það heilmikið vesen að taka við þjáðu fólki og fátæku og það væri hægt að afsaka slátrun með því að einhverjir þeirra séu hættulegir.

Share to Facebook

4 thoughts on “Ögmundur læri af umhverfisráðherra

  1. Ástæða þess að árásir hvítabjarna eru svona sjaldgæfar er mjög einföld. Hvítabirnir lifa á svæði þar sem mjög lítið er um fólk.

    Á meðan árásir eru sjaldgæfar af þessum sökum. Þá eru hvítabirnir mjög hættulegir fólki. Enda geta þeir einfaldlega hlaupið fólk uppi ef því er að skipta. Það ber að taka þessa hættu mjög alvarlega. Jafnvel þó svo að þetta sé sjaldgæft.

    Hérna er umfjöllun Discovery um árásir hvítabjarna.

    http://news.discovery.com/animals/polar-bear-attacks-surprisingly-rare-110805.html

  2. Eg held ad afstada flestra Islendinga til isbjarnardrapa radist af thvi hvort their hafi sed Nonna og Manna (4. thatt) eda ekki.

  3. Af hverju ætli menn beiti yfirleitt ekki sömu rökum þegar fjallað er um dýr og þegar fjallað er um menn????

Lokað er á athugasemdir.