Niðursetningastefna Reykjanesbæjar

Undanfarið hafa borist fréttir af því að Reykjanesbær bregðist við húsnæðisvanda einstæðra mæðra með því að bjóðast til (eða hóta) að koma börnum þeirra í fóstur. Sjá hér  og hér.

Erfitt er að sjá að þetta geti með nokkru móti samræmst meginreglu barnaréttar um að þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn skuli gera það sem barninu er fyrir bestu. Það stríðir einnig gegn 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að leysa fjölskyldu upp að ástæðulausu. Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að þann rétt megi skerða „ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra“. Í 2. mgr. 8. gr. MSE er þetta orðað á þá leið að opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt manna til fjölskyldulífs nema vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

Einnig er áhugavert að skoða í þessu sambandi, 16. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem einnig hefur lagagildi á Íslandi, en greinin hljóðar svo:

1. Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.

2. Barn á rétt á vernd laganna fyrir slíkum afskiptum og árásum.

Að taka barn frá foreldrum vegna getuleysis sveitarfélagsins til þess að tryggja framboð af viðunandi húsnæði verður seint talið annað en gerræðisleg ákvörðun en í sáttmálanum er lögð mikil áhersla á rétt barna til eðlilegs sambands við foreldra sína.

Ekki verður heldur séð að þetta samræmist fjölskyldustefnu sveitarfélagsins en meðal þeirra markmiða sem Reykjanesbær segist vinna að eru eftirtalin:

  • Stuðla að mannúðlegu og fjölskylduvænu samfélagi þar sem áhersla er lögð á fjölskylduna sem hornstein samfélagsins.
  • Búa fjölskyldunni sem vænlegust skilyrði svo hún megi sem best styrkjast og eflast.
  • Að starfsmenn Reykjanesbæjar hafi fjölskyldustefnuna að leiðarljósi og sýni börnum jafnt sem fullorðnum, tilhlýðilega virðingu og kurteisi.

Er stefnan um fjölskylduna sem hornstein samfélagsins og markmið um að styrkja hana höfð að leiðarljósi þegar einstæðum mæðrum í húsnæðishraki er mætt með hótunum um að börnum þeirra verði komið í fóstur til vandalausra?

Barnavernd Reykjanesbæjar mun aukinheldur vinna eftir plaggi sem kallast Reglur um könnun og meðferð mála og framsal valds til starfsmanna barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar og byggir á barnaverndarlögum. Í þessum verklagsreglum segir í 3. mgr. 7. gr.

Starfsmenn skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til íþyngjandi úrræða. Jafnframt skal ávallt miða við að beitt sé vægustu úrræðum til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Aðeins skal gripið til íþyngjandi ráðstafana ef lögmætum markmiðum verður ekki náð með öðru eða vægara móti.

Hvaða bjánakeppur ætli hafi komist að þeirri niðurstöðu að það að leysa upp heimili teljist vægara úrræði en að útvega fjölskyldunum húsnæði?

Nú má vel vera að þær mæður sem hafa fengið þau skilaboð að börn þeirra verði sett niður, ef þær galdri ekki fram húsnæði, eigi engan rétt á niðurgreiddu húsnæði og/eða að það sé ódýrari lausn að gera börnin að niðursetningum en að semja við nágrannasveitir eða gistihús um tímabundna lausn. En jafnvel þótt við lítum fram hjá mannlega þættinum og hugsum þetta eingöngu út frá fjárhaglegum hagsmunum samfélagsins er óvíst að þessi „lausn“ geti talist hagkvæm.

Sveitarfélagið þarf að greiða fósturforeldrum fósturlaun sem nema margföldum barnalífeyri. Foreldrarnir verða áfram á vergangi og hafa takmarkaða umgengi við börn sín og slíkt öryggisleysi eykur líkurnar á að undirliggjandi geðrænir kvillar, svosem þunglyndi og kvíði taki sig upp. Sorgin og niðurlægingin vegna þess getur einnig valdið aðstæðubundnu þunglyndi hjá fullkomlega heilbrigðu fólki. Það skaðar einnig æru og sjálfsmynd fólks að þurfa að láta börn sín frá sér og sú aðstaða skerðir möguleika foreldranna á því að fá vinnu eða halda vinnu.

Hvað börnin varðar er mjög góð ástæða fyrir þeirri meginreglu barnaréttar að börn eigi rétt á að þekkja foreldra sína, sem í framkvæmd birtist þannig að það er talið algert neyðarúræði aðskilja barn og foreldri með valdi. Það að barn sé sent nauðugt í fóstur er ekki eins og fara í sumarbúðir eða dvelja hjá ömmu í nokkrar vikur, heldur þvingunarráðstöfun sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sálarlíf og félagslega stöðu barna.

Það að taka börn af foreldrum af þeirri ástæðu einni að fjölskyldan sé í húsnæðishraki er ekki aðeins ómannúðleg aðgerð heldur einnig lögleysa. Það er brot á meginreglum barnaréttar, það er stjórnarskrárbrot og brot á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Þegar upp er staðið eru auk þess líkur á að sundrun fjölskyldunnar hafi í för með sér töluverðan kostnað fyrir samfélagið vegna geðhjálpar fyrir hluta fjölskyldunnar, hugsanlega alla meðlimi hennar. Það er því erfitt að sjá nokkur rök fyrir því að þetta fyrirkomulag geti talist réttlætanlegt.

Share to Facebook