Leyfið börnunum að ulla á Snorra

Snorri í Betel er fordómafullur asni. Hann hefur verið fordómafullur asni í marga áratugi og því þarf ekki að koma neinum á óvart þótt hann hafi haldið áfram að vera fordómafullur asni eftir að hann fékk kennarastöðu á Akureyri.

Það má vissulega deila um það hvort eigi yfirhöfuð að ráða fordómafulla asna í kennarastöður en nú sitja skólayfirvöld í Brekkuskóla uppi með hann. Og það vill svo til að á Íslandi ríkir trúfrelsi (allavega að nafninu til) og tjáningarfrelsi, sem að sjálfsögðu takmarkast við hatursboðskap og meiðyrði. Skólayfirvöld eiga ekkert með að fara að leika einhverja löggu þótt maðurinn sé fáviti.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að það flokkist ekki sem hömlur á tjáningarfrelsi að hindra menn í að dreifa niðrandi áróðri um samkynhneigða í skólum og er það vel. Þetta mál er dálítið öðruvísi þar sem boðskapnum var ekki dreift í skóla og ekki settur fram á sama hátt. Auðvitað má þó vel spyrja hvort Snorri hafi farið yfir mörk tjáningarfrelsisins með því að segja, sem satt er, að samkvæmt því sem evangeliska kirkjan boðar, séu mök samkynhneigðra dauðasynd. Meintur hatursáróður felst þá væntanlega í því að taka undir sjónarmið trúarstefnu sem Þjóðkirkjan viðurkennir. Byggir reyndar tilveru sína á, þótt hún hafi loksins aflagt kerfisbundna mismunun, eftir marga ára baráttu samkynhneigðra, stuðningsmanna þeirra og presta sem átta sig á því að þróun mannréttinda stoppaði ekki fyrir 2000 árum.

Telji menn í alvöru að Snorri hafi brotið lög, á að sjálfsögðu að kæra hann. Verði niðurstaðan sú að ummæli hans séu saknæm, á hann vitanlega ekki að kenna en þá er væntanlega rökrétt að banna boðskap evangelísku kirkjunnar.  Einnig vaknar þá sú spurning hvort ýmsir prestar, sem og séra Karl Sigurbjörnsson, hafi þá ekki löngum gerst sekir um að dreifa hatursáróðri gegn trúleysingjum og hvort slíkir menn megi kenna í grunnskólum – ja eða bara taka að sér fermingarfræðslu. Þetta er svolítið snúið og ég verð að játa á púkinn á fjósbitanum skemmtir sér prýðilega.

Séu orð Snorra um dauðleika homma og lesbía ekki ólögleg, er út í hött að skólayfirvöld séu að skipta sér af þessu. Maðurinn býr við trúfrelsi og svo fremi sem hann brýtur ekki lög er honum heimilt að tjá trúarafstöðu sína á opinberum vettvangi.

Eiga foreldarar barna í Brekkuskóla þá bara að sætta sig við að forpokaður hommahatari kenni börnunum þeirra? Ég sé enga ástæðu til þess. Það er nefnilega vel hægt að fara aðra leið til að losna við kennara en þá að reyna að fá skólastjóra til að valta yfir tjáningarfrelsi þeirra.

Það er alltof algengt að fólk telji sig vera ofurselt lagabókstafnum. Að það fyrsta sem því dettur í hug ef einhver hegðar sér eins og asni, sé að klaga í yfirvaldið. Yfirvöld eiga ekki að reyna að hefta tjáningarfrelsi fólks nema það brjóti beinlínis gegn lögum. En það er ekki þar með sagt að almenningur þurfi að láta bjóða sér upp á eitthvert rugl. Foreldar geta vel tekið upp símtól eða sent tölvupóst og lýst áliti sínu á fordómum hans. Þeir geta líka sagt börnunum sínum sem satt er, að Snorri sé fordómafullur asni, og óþarft sé að bera neina virðingu fyrir skoðunum hans á samkynhneigðum. Þau neyðist að vísu til að sýna honum lágmarks kurteisi í skólanum en því verði tekið af fyllsta skilningi  heima fyrir ef þau langi að ulla á hann utan skólalóðar.

Eiga foreldar ekki að kenna börnum sínum kurteisi? Jújú, vissulega en allt hefur sín takmörk. Uppeldi barna er á ábyrgð foreldra og það er sjálfsagt mál að kenna börnum að tjáningarfrelsi megi nýta til að lýsa fyrirlitningu á mannvonsku og menningarhroka. Það er þessvegna allt í lagi að leyfa börnunum að ulla á fordómafulla asna sem ráðast gegn mannréttindum minnihlutahópa. En í nafni skoðanafrelsis, lýðræðis og beinna aðgerða, kennið þeim ekki að klaga í yfirvaldið í hvert sinn sem einhver gerir sig sekan um fávitahátt.

 

Share to Facebook

18 thoughts on “Leyfið börnunum að ulla á Snorra

 1. „…hvort Snorri hafi farið yfir mörk tjáningarfrelsisins með því að segja, sem satt er, að samkvæmt því sem evangeliska kirkjan boðar, séu mök samkynhneigðra dauðasynd.“

  Hann sagði þetta vissulega. En síðan hélt hann áfram og líkti samkynhneigðum við bankaræningja…

  Maðurinn er óþverri. Það er mín skoðun.

 2. Ég á dóttur í þessum skóla og þar af leiðandi blöskraði mér skiljanlega þegar ég frétti af þessum aðila þar og fannst það með öllu óhæft að hann myndi fá að kenna dóttur minni nokkurn skapaðan hlut.
  Þegar ég nefndi þetta á fésbók komu sögur út úr öllum hornum frá ungmennum sem að eru í samtökum hinsegin fólks, norðan og sunnan heiða, sem nefndi það að þessi boðskapur hafi ekki verið bara utan skólans, þ.e.a.s. að þessi kennari hafi komið með þennann boðskap inn í skólann til nemenda, bæði í kennslustund (þó ekki sem pistil, heldur bara sem svona „off hand remark“) sem og á göngum skólans en þó helst undir fjögur augu við barnið sjálft.
  Svo er jú þettað;
  „Þessi kynhegðun er óbiblíuleg og þetta er alveg í sama flokki og hver önnur synd. Vandamálið er að það er verið að gera þennan málaflokk eða þessa synd, það er verið að gera hana eðlilega og menn segja að þetta sé allt í lagi og það séu bara mannréttindi að fá að vera svona. Ef ég væri nú bankaræningi að eðlifari, þá væri búið að setja mig inn fyrir langa löngu,“ segir Snorri í Betel.

  En ertu þá í rauninni að líkja því saman að vera bankaræningi og samkynhneigður?
  „Að því leytinu til, að hvort tveggja kallað synd. Að stela er synd. Að ágirnast er synd. Og að vera samkynhneigður er synd,“ segir Snorri.

  Ef að nemandi þinn í skólanum kæmi til þín og segðist vera samkynhneigður, hver myndu þín viðbrögð vera?
  „Ég myndi sjálfsagt athuga hvort það væri hægt að spjalla við hann,“ segir Snorri.
  http://www.visir.is/grunnskolakennari-likir-samkynhneigdum-vid-bankaraeningja/article/2012120208896

 3. Þetta er náttúrulega lygilegt. Lúther hafði það sér til afsökunar að vera barn síns tíma. En hvað á að gera við nútímakennara sem er barn hans tíma, þ.e.a.s. Lúthers? Sýna skoðunum hans fullkomna fyrirlitningu, myndi ég segja.

 4. Snorri er ekki fordómafullur asni þó svo að skoðanir hans til kynferðismála séu ekkert sérstaklega nýmóðins eða í samræmi við pólitíska rétthugsun nútímans. Snorri er einfaldlega sannkristinn maður sem lítur á Biblíuna sem Guðs orð. Það þýðir að Snorri gerir þau tvö- til þrjúþúsund ára gömlu viðhorf til kynferðismála sem þar koma fram að sínum á grundvelli trúar sinnar og telur það skyldu sína að halda þeim fram.

  Að þessum orðum sögðum tel ég að það sé málefnalegra að gagnrýna skoðanir mannsins í stað þess að stimpla hann sem fordómafullan ansna.

 5. Takk fyrir innleggið Helgi Viðar. Þú þarft ekki að vera í mjög nánu sambandi við hann Gúggul vin minn til þess að finna málefnalega gagnrýni á þá skoðun að samkynhneigð sé ekki glæpur. Sjálfri finnst mér hún of heimskuleg til að vera svara verð og eru þó þolmörk mín gagnvart heimskulegum hugmyndum óvenjuhá.

 6. Ég las pistilinn þinn aftur og skrif Snorra og sýnist mér að þú sért eitthvað að misskilja manninn. Í umræddum pistli er hann að skýra sjónarmið evangelískra í deilumáli í Afríku. En skv. þeirra trú er samkynhneigð eða réttara sagt kynvilla (kynmök fólks af sama kyni) synd og segist hann deila þeirri trúarskoðun með þeim. Fyrir þetta á víst að reka manninn úr starfi.

  Synd er svo ekki það sama og glæpur heldur mínuspunktur í kladdan hjá Guði. Gjöri menn iðrun og láti af syndsamlegri hegðun sinni verða mínuspunktarnir þurkaðir út og plúspunktar settir í staðinn. Síðan þegar menn gefa upp öndina svífur hún til himins en þar stendur Lyklapétur við hlið himnaríkis fer yfir bókhaldið hjá Guði og hleypir þeim inn í dýrðina sem standa í plús. Hinir verða að híma úti fyrir eða að snúa sér eitthvert annað en þá kemur helvíti víst sterklega til greina en þar eru aðgangstakmarkanir að mér skilst mun minni. Þetta er svona einfölduð mynd af því sem kristnir menn trúa um Guð, syndina og eilífa lífið.

  Pólitísk rétttrúnaðarhugsun nútímans bannar síðan að því sé haldið fram að einhver fái mínuspunkta í kladdan hjá Guði fyrir að gera eitthvað sem telst vera ljótt samkvæmt bókinni, en einmitt á henni byggja svo allar þessar frábæru hugmyndir um Guð, syndina og eilífa lífið.

  Þetta er sem sagt allt hin heimskulegasta þræta um keisarans skegg þegar grant er skoðað og reyndar alvegt ótrúlegt að skólayfirvöld séu að skipta sér af þessu.

  Eiginlega sýnast mér þetta vera einhvers konar nornaveiðar öfgvasamkynhneigðra sem sætta sig ekki við neitt annað en að þeirra sjónarmið séu að fullu viðurkend af öllum allstaðar ellegar beita þeir þá sem þá ekki þíðast ofsóknum og í þessu tilviki með hjálp skólayfirvalda og ýmissa annarra meðreiðarsveina og meyja. Skemmtilegt annars að þú og Snorri hafið alveg skipt um hlutverk í þessu samhengi.

 7. Já, það er illa komið fyrir þjóðinni þegar ekki má lengur innræta börnum skömm yfir eigin eðli, allt frá vöggunni…

  Nei, ég held að við séum betur sett án þess að verstu köflunum úr þessu bévaða hatursriti sé sérstaklega hampað innan skólanna.

 8. Í samtali við Bylgjuna líkti Snorri samkynhneigð við glæp á borð við bankarán.

  Þú þarft greinilega að lesa pistilinn minn einu sinni enn því það er mjög gróf mistúlkun á honum að álíta að ég vilji að skólayfirvöld ofsæki Snorra.

 9. Sorry, ég hlusta ekki á Bylgjuna og veit ekki hvaða orð Snorri hefur látið falla þar. Í fréttum og pistli þínum er vísað til skrifa Snorra og því miða ég við þau.

  Í mínum huga snýst þetta mál allt um tíðarandann og skoðanakúgun meirihlutans á minnihlutanum á hverjum tíma. Einu sinni voru samkynhneigðir fyrirlitnir af almenningi og héldu sig því flestir inn í skápnum. Nú hefur þetta snúist við þar sem þeir samþykkja ekki lífsmáta samkynhneigðra eru úthrópaðir hommahatarar þó að þeir séu það ekki og eiga svo í þokkabót hættu á að missa vinnuna fyrir að telja kynlíf samkynhneigðra vera synd, en það hefur verið viðhorf trúaðra í aldaraðir.

  Ég skrifaði svo hvergi að ég álíti né álít ég að þú viljir að skólayfirvöld ofsæki Snorra. Þú tekur hins vegar þátt í að úthrópa hann með því að stimpla hann „fordómafullan ansa“ og „hommahatara“. Ljóst er hins vegar að einhver samkynhneigður eða aðstandandi hefur kvartað undan Snorra við skólayfirvöld vegna skrifa hans.

 10. Hahahahahaha, snorri kennir mér dönsku og er með bókasafns tíma sem minn árgangur fer í, það bara hlaut að koma að þessu! 😀

 11. Ég get ekki orðað þetta betur en Valgarður
  „Hvað veldur þessari sérstöðu trúarskoðana? Má bera hatursfullar skoðanir athugasemdalaust á torg á þeim forsendum einum að þær byggi á trúarbrögðum? Og er eitthvað athugavert við að gagnrýna skoðanir þó þær komi til vegna trúarbragða?“ http://blog.eyjan.is/valgardur/

  Það er alls ekki nóg að ulla bara á Snorra og hans líka. Maður sem elur á fordómum á ekki að kenna börnum.

  Hatursáróður: Við berum öll ábyrgð
  Navi Pillay Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna skrifar:
  http://www.unric.org/is/frettir/25524-hatursaroeur-vie-berum-oell-abyrg

 12. Margt hefur þú skrifað og sagt um dagana sem ég hef verið ósammála og jafnvel þótt ósmekklegt, stundum svívirðilegt. En mér finnst réttur þinn til að segja það og skrifa vera algjör og að það sé dómstóla að dæma ef of geist er farið. Að þessu sinni er ég fullkomlega sammála þér. Sá sem er sammála mér (og hefur þar af leiðandi góða, göfuga og rétta skoðun) á ekki að hafa meira tjáningarfrelsi en sá sem er ósammála mér (og hefur þar af leiðandi, ranga, lítilfjörlega og svívirðilega afstöðu)

  Ég á sjálfur barn í Brekkuskóla og átti tvö áður. Ég varð mjög hissa á að þessi tiltekni maður var ráðinn þangað því að hann var þá þegar orðinn landsþekktur fyrir þessar fyrirlitlegu skoðanir og notkun hans á trúarkenningum til að fela ofsóknatilhneigingu sína voru illræmdar. Enn verra fannst mér þó að ég hef vissu fyrir því að hann var að halda skoðunum sínum á samkynhneigð að unglingsdrengjum og stúlkum í skólanum, a.m.k. milli kennslustunda. Ég kvartaði undan þessu við skólayfirvöld en þau gripu ekki inn í. Nú er gripið inn í vegna þess að hann nýtir stjórnarskrárvarinn rétt sinn utan skólans til að hafa og tjá eigin skoðanir.

  Ég vil ekki þau skilaboð til barnanna minna að ef þau tjái skoðanir sínar opinberlega, og einhverjum eða meginþorra manna kann að finnast þær forkastanlegar, þá megi þau eiga von á brottrekstri úr starfi með þeirri lítilsvirðingu og fjárhagslega óöryggi og það kann að hafa í för með sér. Ég vil að börnin mín fái þau skilaboð að ALLIR hafi tjáningarfrelsi en að þeir geti þurft að standa við orð sín fyrir dómstólum ef þeir fara út fyrir þau mörk sem sett eru til að vernda minnihlutahópa. Það verður að vera farvegur fyrir hrópandann í eyðimörkinni, fyrir gagnrýnandann, fyrir mótmælandann því að ella verður ekkert lýðræði og ekkert réttlæti. Börnin mín og öll börn eru skynsöm og vel upp alin. Þau þekkja illsku og fordóma þegar slíkt verður á vegi þeirra og fá fræðslu heima fyrir um samkynhneigð. Þau hlæja bara að Snorra og svoleiðis bjánum. Ég hef meiri áhyggjur af því að bæði á heimilum, í skólum, í fjölmiðlum og í samfélaginu sé þeim skilaboðum komið gagnrýnilaust til barnanna okkar að fólk af öðrum kynþáttum eða útlendingar af sama kynþætti og við, séu glæpamenn eða sjálfkrafa einhverskonar lágstéttarskríll. Hin raunverulega meinsemd í íslensku samfélagi liggur í stöðugum og samþykktum mannréttindabrotum en ekki í því þótt eitthvað lítilmennið tjáir sig á bloggsíðu.

 13. Gleymum ekki – þótt fjölmiðlar virðist ekki vilja fjalla um það – að mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna var að senda frá sér skjal með tugum aðfinnslna um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Þar var ekki minnst á að svipta hefði átt Snorra í Betel skoðana- eða tjáningafrelsi. Þar var hins vegar af nógu að taka, svo sem mismunun trúarbragða og útlendingahatri.

 14. Nei, Páll. Þetta er klisja sem fundin er upp til að réttlæta fordómana sem þessir menn bera.

Lokað er á athugasemdir.