Hvernig kemst ég inn í kerfið? – Gestapistill eftir Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir skrifar um Íslendinga í útlöndum og útlendinga á Íslandi

 

Ég hef verið að velta fyrir mér málefnum flóttamanna á Íslandi undanfarið, sérstaklega í ljósi nýjustu frétta um ungt par sem á að vísa úr landi og það í sitthvort landið.

Það er alveg ljóst í mínum huga að við erum ekki að standa okkur í þessum málum á nokkurn hátt. Það er ekki boðlegt hvað biðtíminn er langur og hvernig komið er fram við þetta fólk yfir höfuð. Við erum jú öll manneskjur og viljum láta koma almennilega fram við okkur, en af einhverri ástæðu þá virðast margir Íslendingar líta svo á að flóttamenn séu bara pakk sem má koma fram við af vanvirðingu og skeytingarleysi.

Útfrá þessu fór ég að hugsa um hvernig Íslendingar sjá sjálfa sig, almennt finnst okkur það vera hverju landi til sóma að hafa amk nokkra Íslendinga búsetta þar, við erum jú svo klár og dugleg og sérstök, hreinlega alveg einstaklega vel gert fólk. En er þetta svona einfalt? Mér finnst margir Íslendingar sem flytja erlendis, vera á kafi í að finna út, ekki hvað þeir geti lagt til viðkomandi samfélags heldur hvaða bætur og sporslur þeir geti fengið í viðkomandi landi. Það eru heilu umræðurnar tengdar þessum málum, barnabætur, húsaleigubætur, leikskólapláss og fleira og fleira. Er þetta ekki tvískinnungur, við viljum að allt sé gert fyrir okkur í öðrum löndum, sífrum yfir hvað kerfi þar gangi seint og illa fyrir sig og hrósum okkar af því að fá þessar og hinar bæturnar og hvað það sé nú gott að lifa á þessum og hinum staðnum fjárhagslega.

Mig myndi langa að sjá eina svona týpíska “ég er að flytja til Noregs og hvernig kemst ég inni í kerfið” umræðu og snúa henni upp á flóttaflólk, ég er viss um að flestum Íslendingum myndi blöskra og jafnvel jesúsa sig í bak og fyrir, yfir þessu pakki sem heldur að það geti bara komið og fengið allskonar og það ætti bara að halda sig heima hjá sér. Það er stundum þreytandi að tilheyra þessari örþjóð sem heldur að hún sé mest og best og klárust af öllum og getur ekki einu sinni sýnt samúð með fólki sem hefur þurft að yfirgefa allt sitt vegna ótta um líf sitt eða eftir langvarandi pyntingar.

Þessar skoðanir eru alfarið mínar og byggja ekki á neinum gögnum heldur bara minni tilfinningu eftir að lesa óteljandi umræður um þessi mál og já, ég þekki EES samninginn. Hér er gömul frétt sem staðfestir að fleiri hafa þá tilfinningu að Íslendingar séu alveg til í að nýta sér velferðarkerfi annarra þjóða, ekkert síður en flóttamenn og innflytjendur á Íslandi.

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir

Share to Facebook