Hver á að greiða listamönnum laun?

Eiríkur Örn hefur áhyggjur af því að verð á rafbókum verði sprengt upp úr öllu valdi. Ég held ekki. Ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær rafbækur verða almennt ókeypis.

Pappírsbókin er úrelt. Hefur í för með sér óþarfa umhverfisspjöll því margar bækur eru prentaðar í fleiri eintökum en þær eru lesnar og það fer mikil orka í flutning á öllum þessum pappír. Einn af hinum frábæru kostum rafbókarinnar er sá að það er hægt að setja inn í hana tengla á greinar og myndir á netinu. Það er hægt að bera heilt bókasafn með sér á usb lykli. Ég er nýbúin að ljúka handriti að rafbók. Ég vildi hafa landakort í henni en þau eru höfundarréttarvarin og ég veit ekki einu sinni hvert ég ætti að snúa mér til að biðja um leyfi til að fá að nota þau. Rafbókin leysir það mál, bara smella inn tengli og málið er dautt. Ég er sjálf löngu hætt að kaupa pappírsútgáfuna ef rafútgáfan en fáanleg og ég hef enga trú á öðru en að útgáfa pappírsbóka dragist verulega saman á næstu árum. Ég hef hinsvegar ekki áhyggjur af því að verð á rafbókum hækki. Ég held að það lækki. Það verður auðvelt að stela bókum eins og öðru efni á netinu og er það vel því list á að vera ókeypis.

Vandamálið er ekki það að list sé of ódýr og auðvelt að stela henni, heldur sú hugmynd að neytandinn eigi að greiða laun listamannsins. Sem betur fer þurfa læknar ekki að velja á milli þess að borga rafmagsreikninginn og neita fátækum sjúklingum um þjónustu. Við lítum ekki á góða heilbrigðisþjónust sem lúxus heldur sjálfsagðan rétt hvers manns (nema tannheilsu en það er víst ennþá lúxus að geta tuggið mat og brosað skammlaust.) Af hverju lítum við á list sem lúxus? Á ríka fólkið meiri rétt á vitsmunalífi, áhugaverðri skynjun og leikjum en aðrir?

Ég er ekki sérlega hrifin af listamannalaunum. Hinsvegar eru forsendur mínar ekki þær sömu og þeirra sem vilja að ‘þetta fái sér bara almennilega vinnu’. Ástæðan fyrir því að ég hef efasemdir um ágæti listamannalauna er sú að það getur haft áhrif á það hvað fólk lætur frá sér, að eiga lifibrauð sitt undir velþóknun pólitískra afla og einstaklinga.

Þegar upp er staðið er það alltaf neytandinn sem borgar, hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu eða menningu. Eða öllu heldur, þeir neytendur sem eru nógu vel stæðir til að greiða skatta borga heilbrigðisþjónustuna en þeir sem njóta listarinnar greiða sjálfir fyrir hana, nema í þeim tilvikum sem einhverjar nefndir á vegum ríkisins hafa ákveðið að ríkikallinn eigi að niðurgreiða listina. Velferðarsamfélag byggist á þeirri hugmynd að hinir ríku sjái um að borga fyrir hina fátæku og það finnst mörgum ríkum ægilega ósanngjarnt. Þeir hugsa kannski ekki út í það að hinum fátæku finnst líka voðalega ósanngjarnt að þurfa að sjá hinum ríku fyrir nánast ókeypis þjónustu. Þeir átta sig kannski ekki á því að öryrkjum finnst ósanngjarnt að einmitt vegna þess fyrirkomulags að sumir séu metnir á tvær millur á mánuði á meðan aðrir eru metnir á 200 þúsundkall, er beinlínis óhagstætt fyrir öryrkja að finna sér starf sem hentar þeim enda þótt mjög fáir séu svo illa staddir að geta ekkert gert. Þeir sjá heldur ekki ósanngirnina í því að stórfyrirtækjastefnan gerir það óhagkvæmt og jafnvel vonlaust fyrir atvinnulausa að skapa sér sitt eigið starf. Allra síst sjá þeir ósanngirni í því að listamenn hætti að gagnrýna þetta frábæra fyrirkomulag sem gefur minnihlutanum nánast öll völd og alla ábyrgð, hætti að benda á þær hliðar á málunum sem ekki blasa við, hætti að næra og örva skynjun okkar og tilfinningalíf og ‘finni sér bara almennilega vinnu’, semsagt við það að mylja undir kapítalískt hagkerfi með illa launaðri þjónustu og framleiðslu.

Á einhverju verðum vér vesalingar að lifa og þ.a.l. þarf einhver að borga listamönnum laun. Ég vil ekki að fólk þurfi að punga út formúu (sem ég fæ hvort sem er bara lítið brot af) og bera pappír með sér milli staða til að geta lesið það sem ég skrifa. Ég vil heldur ekki þurfa að velta því fyrir mér hvort þeir sem ég móðga þekki einhvern sem hefur áhrif á úthlutun ritlauna. Ég er ekki einu sinni viss um að þeir sem stjórna því hverjir verðskulda það að lifa af listsköpun komist endilega að bestu niðurstöðunum.

Ég trúi því að þriðja leiðin sé til. Ég trúi því að allir geti haft og eigi að hafa greiðan aðgang að listum, rétt eins og fræðum, pólitískum greinum og öðrum upplýsingum sem hægt er að nálgast endurgjaldslaust á netinu. Ég trúi því að listamenn séu verðir launa sinna, ekkert síður en verkamenn. Ég held að væri réttast að láta ríkið (þ.e. þá sem teljast nógu merkilegir til að fá margfalda þá þóknun sem vesalingurinn fær fyrir vinnuframlag sitt) greiða laun listamanna, pólitískra penna og annarra samfélagsrýna og hætta algerlega að verðleggja verkin.

Vandamálið er hinsvegar eftir hvaða reglum eigi að greiða listamönnum laun. Mér finnst slembiúrtak úr þjóðskrá ekki aðlaðandi hugmynd en þó skárri en að setjia málið í nefnd. Það væri eflaust hægt að finna einhverja leið sem ekki gefur fámennum hópi völd til að ákveða hvaða listamenn fá tækifæri til að hafa áhrif með verkum sínum. Hvort er einhver vilji til þess, það er svo allt annað mál. Það þjónar valdakerfinu nefnilega svo afskaplega vel að láta fámennar klíkur og markaðslögmálin bara ráða þessu.

En það verður ekki þannig mikið lengur. Internetið er nefnilega miðill sem lýtur ekki valdi og bráðum, bráðum, bráðum verður öll list ókeypis. Listamenn eru ekki lengur eign kirkju og konungs, Björgólfs eða stjórnmálaflokka. Þeir geta gert það sem þeim sýnist og allir í heiminum geta notið þess. Eina vandamálið, það aleina er, hvernig eiga listamenn að framfleyta sér? Fæstir þeirra munu láta það vandamál stoppa sig, ekki fremur en pólitískir pistlahöfundar, flestir sinna listsköpun í hjáverkum og í versta falli munu fleiri listamenn gerast hreppsómagar. Ég vona að áður en öll list verður ókeypis finnist einhver geðfelldari lausn. Ég er nefnilega sannfærð um að hún er til.

Share to Facebook