Gömlu húsin við Laugaveg

Eins og glöggir lesendur hafa væntanlega tekið eftir hefur mig ekki klæjað neitt sérstaklega í pólitíkina undanfarið. Ég hef þessa undarlegu tilhneigingu til að sofna yfir því sem öðrum finnst spennandi. T.d. löngum bardagasenum og bílaeltingaleikjum í bíó og borgarstjórnasirkusnum í pólitíkinni. Það eina sem ég nenni að hafa skoðun á varðandi borgarmálin þessa dagana eru skipulagsmálin. Ég var lengi að gera upp við mig hvað ætti að gera við Laugaveginn og húskofana þar. Ég er komin að niðurstöðu. Hendum þeim bara.

Þótt mér finnist lítil eftirsjá að húsunum við Laugaveg 4 og 6, var ég lengi í vafa. Hrædd um að rif þeirra yrði bara upphafið að gjöreyðingu miðbæjarins. Ég er þó komin á þá skoðun núna að í stað þess að reyna að halda í Laugaveginn, sem í dag er hinn hroðalegasti hrærigrautur af fallegu, ljótu, heilu og ónýtu, eigi að leggja pening og metnað í að varðveita Þingholtin og gera upp þau hús sem liggja undir skemmdum í því hverfi. Flest þeirra eru í góðu standi og ég vil frekar hafa eitt gamalt og fallegt hverfi og sinna því almennilega en að varðveita ljót hús og ónýt úti um allar koppagrundir, bara af því að þau eru gömul.

Mér lýst afskaplega vel á hugmyndir skipulagsstofnunar um Ingólfstorg og þar með er fundin lending í deilunni um Laugavegshúsin. Það eru þó fleiri hús við Laugaveginn sem má búast við að verði deilt um hvort eigi að rífa eða varðveita. Ég er helst á því í dag (en áskil mér rétt til að éta þá skoðun ofan í mig hvenær sem mér þóknast) að best væri að gera ráð fyrir þeim möguleika að yfirbyggja Laugaveginn. Byggja ný hús öll í sömu hæð og svipuðum stíl og láta þau gömlu víkja smámsaman. Horfast í augu við að meirihlutinn vill ekki fara í kraftgalla og á mannbroddum í verslunarferðir og eins og er getur Laugavegurinn ekki keppt við stórar verslunarmiðstöðvar nema tvo mánuði á ári. Það er að vísu þetta með bílastæðin. Fólk vill ekkert leggja bílnum einhversstaðar úti í sveit. Flestir vilja heldur ekki fara heim með innkaupapokana í strætó, ekki einu sinni þótt það sé ókeypis. Lausn óskast.

Svo skil ég ekki hvernig það samræmist umhverfisstefnu að flytja flugvöllinn úr Reykjavík. Hversu mikla mengun hefði það í för með sér ef allir sem nota Reykjavíkurflugvöll núna þyrftu að aka til Keflavíkur? (Og nei, þeir munu ekki allir taka rútuna, jafnvel þótt þeir þyrftu ekki að borga.) Eða er kannski einhver breyta þarna sem ég er ekki meðvituð um?

Nú er ég búin að leysa skipulagsmál miðborgarinnar. Það er miklu auðveldara en að koma reiðu á bókhaldið mitt.

Share to Facebook

1 thought on “Gömlu húsin við Laugaveg

 1. ——————————

  Þessu er ég búin að hvísla að ferðalöngum í mörg ár. Gera bara nýjan og fallegan Laugaveg með flottri yfirbyggingu. Í anda framsýnna framkvæmda Parísar á 19. öld (sem sumir lýsa vissulega sem niðurlægingu og krufningu).
  Það á alveg að vera hægt að grafa niður bílastæði þarna einhvers staðar. Fólk gengur kílómetrana í Kringlunni (og í París ef því er að skipta) svo það yrði ekkert mál.

  Posted by: Kristín | 14.02.2008 | 9:21:03

  —   —   —

  Ég skil bara ekkert í því að mínir menn séu að taka þátt í þessu. Mikið eru völdin allavega dýr. Tveir gjörónýtir timburhjallar fyrir 500 millur !!!.$%“#$%“#$

  Posted by: Guðjón Viðar | 14.02.2008 | 12:00:09

  —   —   —

  Það mætti gera eitthvað í líkingu við hugmyndir Hrafns Gunnlaugssonar, hrúga gömlu húsunum í Hljómskálagarðinn og fegra. Það virðist enginn nota hann hvort eð er, nema til að stytta sér leið yfir í Háskólann. 😛

  Posted by: Gillimann | 14.02.2008 | 12:36:03

Lokað er á athugasemdir.