Fjöldaflutningar

Ég er nú ekki svo viss um að það gangi vel að fá botn í þetta mál. Annaðhvort fluttu 700 kosningabærra manna til Hafnarfjarðar nokkrum vikum fyrir kosningarnar eða ekki og það ætti að vera lítið mál að komast að því. Ef ekki, nú þá er málið dautt.

Ef hinsvegar 700 manns hafa flutt til Hafnarfjarðar, án barnanna sinna (eða voru þessir 700 kannski ekki allir á kjörskrá) og án þess að kaupa íbúð eða gera leigusamning, hvernig í fjandanum ætla menn þá að fara að því að sanna að þeir hafi allir hafnað stækkun? Eru stóriðjusinnar eitthvað ólíklegri til að viðhafa bellibrögð en hugsandi fólk?

Auðvitað er alveg hægt að leiðrétta kosningu Hafnfirðinga um deiliskipulagið. T.d. væri hægt að:

  • skikka alla sem fluttu heim til bróður síns í Hafnarfirði síðustu 6 mánuði fyrir kosningar til að gera grein fyrir atkvæði sínu
  • beita pyndingum ef þeir ljúga því að þeir hafi kosið með tillögunni (að bandarískri fyrirmynd)
  • fá þá sem grunaðir eru um að hafa hafnað tillögunni dæmda fyrir hryðuverk (að sá ótta og glundroða meðal álversunnenda) á grundvelli leynilegra sannana (að bandarískri fyrirmynd)
  • setja afturvirk lög um að atkvæði þeirra sem hafa hlotið refsidóm fyrir hryðjuverk teljist ógild
  • hrekja alla nýflutta og annað umhverfisverndarpakk úr bænum og kjósa svo aftur
  • kjósa aftur og setja bara lög á þetta umhverfislið svo það fari ekki að ana á kjörstað og eyðileggja allt.
Share to Facebook