DV mun lifa

060110 (1)Ég sé ekki alveg lógíkina í því að ásaka menn opinberlega um morð, sem ekkert bendir til að þeir hafi framið, þegar augljós sök þeirra er sú að brjóta mann niður andlega með því að ásaka hann opinberlega um glæp, sem hugsanlegt er að hann hafi framið.

Það var svosem viðbúið að við þyrftum sjálfsvíg til þess að vakna til meðvitundar um það hvað afleiðingar sorpblaðamennsku geta verið skelfilegar en að kalla ritstjórn og eigendur þessa sorasnepils morðingja er ekkert skárra en sú blaðamennska sem þeir hafa í frammi. Auðvitað er maðurinn sjálfur ábyrgur fyrir viðbrögðum sínum. Það gerir málstað DV hinsvegar ekki baun skárri og óháð því hvort umfjöllun um þetta tiltekna mál var sönn eða ekki sönn, má spyrja hvort sé ekki tímabært að skilgreina mannorðsmorð í lögum.

Ef út í það er farið hafa margar forsíður DV verið jafnógeðfelldar ef ekki verri og hefði verið ástæða til þess mun fyrr að skora á blaðið að endurskoða stefnu sína. Það er falskur tónn í málflutningi aðstandenda blaðsins þegar þeir segja tilganginn með þessari umfjöllun vera þann að upplýsa fólk og gæta hagsmuna fórnarlamba. Hverra hagsmuni eru t.d. þessir boðberar sannleikans að vernda með fyrirsögnum á borð við:

  •  Lævísa kattarkonan kaupir húsbíl
  • Bubbi fallinn
  • Ung móðir gaf sig á aðventunni -dó frá nýfæddum tvíburum,
  • Sá líkamspart í námunda við morðstaðinn

Allt að sjálfsögðu feitletrað með nöfnum og flennistórum myndum.

Ætli tilgangurinn sé ekki fremur sá að næra ógeðfelldustu hvatir mannsins með því að klæmast á persónulegum hamleikjum.

Málið er að það er einmitt það sem „fólkið“ vill. Þessi undarlega skepna almenningur kaupir blaðið vegna þess að einhverjir njóta þess að velta sér upp úr ógæfu annarra. Sennilega er þetta upphlaup núna ekki annað en stormur í vatnsglasi. Ég spái DV því löngu lífi og góðu með sömu ritstjórnarstefnu.

Share to Facebook