Afsökunarbeiðni til DV

Höfundarréttarmál hafa verið töluvert í umræðunni síðustu árin enda hefur umhverfi höfundarréttar breyst töluvert með almennri netnotkun. Samband höfundar og neytanda er ekki svo einfalt að höfundur framleiði og neytandi neyti, heldur á höfundur í sumum tilvikum líf sitt undir því að neytendur dreifi verkum hans, án þess að greiðsla komi fyrir, svo þversagnakennt sem það nú er. Þetta á ekki síst við um greinaskrif og tónlist.

Það sama á við um flesta fjölmiðla. Lesendur muna ef til eftir því þegar þáverandi ritstjóri Moggans gerði sig að fífli með því að láta setja afritunarvörn á mbl.is svo lesendur gætu síður deilt fréttum á samfélagsmiðlum. Sú tilraun stóð ekki lengi. Í dag þrífast fjölmiðlar ekki nema vegna þess að lesendur deila fréttum þeirra á samfélagsmiðlum og halda uppi umræðu um þær. Ofvirkir í athugasemdum eru reyndar svo mikilvægir í umræðunni að netmiðlar eins og dv.is hafa margsinnis fjallað sérstaklega um þann hóp. Íslenskir fjölmiðlar hafa auk þess á að skipa miklum fjölda blaðamanna og greinahöfunda sem vinna sjálfboðavinnu (sá hópur kallast bloggarar), auk þess sem þeir birta aðsendar greinar sem höfundar fá ekki krónu fyrir.

Þessi viðbót er ekki bara greiðasemi fjölmiðla við þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri, heldur fjölga pistlahöfundar flettingum. Það var áreiðanlega ekki bara af þjónkun við mig sem ritstjóri DV óskaði sérstaklega eftir því á sínum tíma að ég færði bloggið mitt til DV og ég held ekki að það sé bara af elskulegheitum gagnvart mér sem ég hef nokkrum sinnum fengið sérstaka ábendingu um að nóg pláss sé fyrir aðsendar greinar á DV.

Oft sér maður fjölmiðlaumfjöllun sem samanstendur af löngum beinum tilvitnunum í einn eða tvo bloggpistla, þar sem blaðamaður skýtur aðeins einni eða tveimur setningum milli tilvitnana og tengir svo á heimildirnar. Þetta þykir allt í lagi. Fjölmiðlar hafa t.d. birt langa kafla af blogginu mínu og jafnvel heilu pistlana án samráðs við mig, einkum DV, áður en ég fór að blogga á Eyjunni. Og mér finnst það bara fínt. Það er kannski ekki metnaðarfull blaðamennska en skaðar höfund ekkert nema orð hans séu tekin úr samhengi eða að öðru leyti óheiðarlega að verki staðið. Texti er ekki lengur einkaeign höfundar og um það sjónarmið ríkir þokkaleg sátt.

Öðru máli virðist þó gegna um myndefni. Þótt sjálfsagt þyki að dreifa texta annarra án sérstaks leyfis, virðist myndefni og höfundarréttur ljósmyndara og myndlistarmanna vera álitinn heilagari en texti og höfundarréttur þeirra sem skrifa. Ég hef iðulega skreytt pistla mína með myndefni sem ég hef tekið af internetinu. Lengi taldi ég að það gilti það sama um mynd og texta, að það væri nóg að setja tengil á myndina. Þegar lesandi smellir á myndina sér hann strax hvaðan hún er tekin. Þægilegt fyrirkomulag. En þetta er víst ólöglegt.

Í gær birti Kvennablaðið þetta lýsiskjal um lekamál innanríkisráðuneytisins sem ég tók saman, sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki fylgst náið með fréttum DV síðustu mánuði, og í von um að sá hópur fari að kynna sér umfjöllun DV um málið. Færslan hefur fengið góðar viðtökur. Eins og hver sem smellir á hlekkina í henni getur séð eru helstu heimildir mínar fréttir DV enda sýndi enginn annar miðill þessu máli áhuga fyrr en ríkissaksóknari vísaði því til lögreglurannsóknar.

Ég notaði ljósmyndir til að gera skjalið skemmtilegra útlits. Flestar þeirra eru frá DV. Ég bað ekki um leyfi til að nota þær. Ég setti hinsvegar tengla á alla punkta þar sem ég studdist við heimildir og þar með myndirnar. Í virðingarleysi mínu gagnvart höfundarrétti og heilagleika fjölmiðla, taldi ég það bara nóg.

En það er ekki nóg. Seint í gærkvöld og í nótt bárust mér ábendingar um að ritstjóri DV væri afar ósáttur við að ég hefði notað ljósmyndir í eigu DV í heimildarleysi. Hann ræddi það að vísu ekki við mig sjálfa, heldur kom skilaboðunum til mín í gegnum aðra.

Ég brást að sjálfsögðu við og fjarlægði myndirnar hið snarasta. Mér finnst skjalið mun meira aðlaðandi með myndum, svo ef einhver lesandi á myndir sem kæmi til greina að nota, þætti mér vænt um að viðkomandi hefði samband við mig.

Ég bið svo DV afsökunar á því að hafa notað myndirnar í leyfisleysi. Ef mér berast ábendingar um að ritstjórinn sé ósáttur við að ég hafi vísað á fréttir DV mun ég einnig fjarlægja þessa 15 tengla á DV sem eftir eru í skjalinu.

Uppfært: Ég er búin að endurvinna skjalið án mynda í eigu DV. Ég þakka þeim fjölmörgu lesendum sem hafa haft samband við mig og bent mér á myndefni sem ég get notað vandræðalaust.

Share to Facebook