Æ losum okkur við Matthías

Tilfinningar og skynsemi fara því miður ekki alltaf saman. Hjá mér verða slíkir árekstar þar á milli í hvert sinn sem ég heyri eitthvað sem ég skilgreini sem málvillu eða vont málfar.

Tilfinningin segir mér að til sé „rétt íslenska“ og ég finn fyrir fasískri löngun til að þröngva skilningi mínum á því upp á aðra. Einkum er það stofnanamálfar sem fer í taugarnar á mér. Ef ég væri einvaldur yrðu orðskrípi og frasar á borð við „langtímabúsetuúrræði“ og „heildrænt stefnumörkunarferli“ bönnuð með öllu. Ég myndi skikka blaðamenn til að nota viðtengingarhátt amk einu sinni í hverri frétt og gera það refsivert að nota orðin „sjálfbærni“, „lífstíll“ og „lýðræðisþáttaka“ án þess að skilja merkingu þeirra. Punktar í skammstöfunum yrðu aflagðir enda eru þeir bæði tilgangslausir og ljótir.  Notkun hástafa yrði samræmd við þær reglur sem gilda í ensku sem og útlit gæsalappa en hinar forljótu íslensku gæsalappir eru gróf árás á fegurðarskyn mitt og ættu ekki að líðast. Yfsilon skyldi notað hvar sem því verður viðkomið.

Til allrar hamingju er ég ekki einvaldur og þar sem skynsemi mín segir mér að þessar hugmyndir mínar séu umdeilanlegar hef ég ekki varið miklum tíma til að sannfæra landann um ágæti þeirra. Ég er þó ekki frá því að það sé verðugt markmið (svona í tilefni dagsins) að knýja á um að hinn hræðilegi sálmur Matthíasar Jochumssonar sem kallaður er „þjóðsöngur“ Íslendinga, enda þótt fáir kunni nema fyrsta erindið og ennþá færri ráði við að syngja lagið, verði setur á Þjóðminjasafnið og annar betri tekinn upp í staðinn, ef er þá yfirhöfuð einhver ástæða til að hafa þjóðsöng.

Til er ágætt ættjarðarkvæði eftir Margréti Jónsdóttur. Kvæði sem mjög margir kunna utanbókar og er oft sungið á mannamótum við sönghæft og alþýðlegt lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Til eru meiri stórvirki bæði hvað varðar ljóð og lag en Ísland er land þitt er hinn raunverulegi þjóðsöngur Íslendinga og það er auðveldara að syngja hann en Land míns föður sem er nú sennilega besti ættjarðarsöngurinn.

Auk þess er Margrét eina íslenska skáldkonan, fyrr og síðar, sem hefur náð nægri hylli til þess að almenningur þekki (hvað þá kunni utan bókar) meira af bundnu máli eftir hana en sem nemur einni blaðsíðu. (Reyndar kunna nokkuð margir söngtextana hennar Ragnhildar Gísladóttur en hennar verður nú sennilega frekar minnst sem tónlistarkonu en skálds.) Ég myndi ekki mæla með því að taka upp annan þjóðsöng bara til þess að gefa konum meira vægi en Margrét orti það ættjarðarljóð sem hefur náð mestum vinsældum og væri þá ekki við hæfi að viðurkenna það formlega?

Kvæði Margrétar er ekki aðeins betur ort og á alþýðlegra máli en hinn uppskrúfaði sálmur Matthíasar heldur hefur það líka þann kost að vera ekki sálmur; það er rétt aðeins minnst á eilífan föður í lokin. Að mínu mati væri best að sleppa öllu trúarkvaki í þjóðsöng samfélags sem segir sig virða trúfrelsi en í flestum ættjarðarljóðum er eitthvað minnst á Gvuð og hans slekti. Ég man reyndar ekki eftir öðru Íslandsljóði sem bæði er laust við trú og gæti komið til greina sem þjóðsöngur en Land míns föður og ég efast um að næðist almenn sátt um þann söng.

Berið saman Lofsöng Matthíasar og kvæði Margrétar; Ísland er land þitt, og segið mér svo að þið séuð sammála mér. Annars skal ég stefna að því að verða ykkar „hertogi á þjóðlífsins braut“ og skipa svo fyrir að zetan verði tekin upp aftur.

 

Hinn opinberi þjóðsöngur

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

 

Hinn raunverulegi þjóðsöngur

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.

Share to Facebook