Ráð gegn ruslpósti

Ég kann ráð gegn ruslpósti. Almenningur sameinist um að safna öllum ruslpósti sem berst inn á heimilin í einn mánuð og sturta honum fyrir framan dyrnar hjá því fyrirtæki sem hefur sent mest af rusli. Næsta mánuð er svo annað fyrirtæki valið.

Æ, nei, þetta er víst ekki hægt. Við búum í ríki hins vel alda svíns. Samtakamáttur er einfaldlega ekki til.

Hér er aðgerð sem ég garantera að ber árangur:

  1. Skrifaðu orðsendingu þar sem fjölpóstur er afþakkaður.
  2. Vaknaðu kl 5:20, klæddu þig til útivistar og stattu bréfberann að verki.
  3. Rífðu hurðina upp um leið og ruslið kemur í lúguna og bjóddu góðan dag. Opnaðu augun dálítið meira en venjulega og brostu mjög breitt, þannig að tennurnar sjáist vel.
  4. Spurðu bréfberann hvort hann kunni að lesa og biddu hann að lesa tilkynninguna upphátt. Haltu brosinu.
  5. Segðu lágt, með sykursætum rómi (Því ekki viljum við nú hræða hann); ég veit hvar þú átt heima gæskur og ef þú setur meira rusl í lúguna mína, þá mun ég safna öllum ruslpósti í þessu hverfi og bera hann heim til þín.
  6. Farðu svo í gönguferð og veldu sömu leið og bréfberinn gengur. Taktu þér stutta hvíld við stór hús þar sem bréfberanum kann að dveljast. Ekki ljúka gönguferðinni fyrr en bréfberinn hefur lokið starfi sínu.

Þetta virkar. Það virkar ekki að senda skriflega tilkynningu um það sama til forstjóra fyrirtækja sem senda út ruslpóst, ég hef reynt það. En að kalla bréfberann til ábyrgðar, það virkar. Ömurlegt að þurfa að fara þá leið en það er mun vænlegra til árangurs en að reyna að fá nágrannana í lið með þér.

P.S. Ef maður nennir ekki í morgungöngu væri reynandi að safna svosem eins og 50 aukakílóum og taka á móti bréfberanum á nærbuxunum einum fata. Eða án þeirra.

 

Share to Facebook

One thought on “Ráð gegn ruslpósti

  1. ————————–

    Það er náttúrulega út í hött að hunsa heimagerðra miða og fara bara að beiðni gulra miða sem ekki fást lengur! Þetta hljómar meira eins og Spaugstofan en raunveruleiki. En getur ekki einhver tekið að sér að framleiða eins miða? Það væri í raun nóg að skanna hann og leggja á netið. Fólk getur síðan prentað hann út og límt á póstkassann.

    Hér í Noregi er hægt að fá miða (ókeypis) til að afþakka ruslpóst. Ég er blessunarlega laus við hann.

    Posted by: Þorkell | 15.01.2008 | 12:14:32

    —   —   —

    Ég er löngu búin að finna leið sem virkar: Tæma póstkassann 2x í mánuði en taka aldrei nema bréfin fyrst, passa að hafa hann fullann af og rétt pláss fyrir umslög.

    Þetta er erfiðara þar sem bréfalúgur eru á hurðum og ég veit ekki alveg hvernig hægt er að leysa það – nema með því að kítta uppí lúguna og fá sér póstkassa við hliðiná hurðinni – sem er krónískt fullur af rusli. 🙂

    Posted by: anna | 15.01.2008 | 14:15:51

    —   —   —

    Ég hef tekið annan pól í hæðina. Ég tek ruslpóstinn, set hann í umslag og skrifa utan á það nafn fyrirtækisins sem sendi hann, eða þá að ég stíla það persónulega á forstjórann, helst heima hjá honum. Og ég skrifa „Burðargjald greiðist af viðtakanda“. Ef svona þúsund manns gerðu þetta, yrðu fyrirtækin fljót að skipta um aðferð.
    Annars er ég með svona gulan „bona fide“ límmiða á bréfalúgunni, og fæ samt stundum ruslpóst.

    Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 16.01.2008 | 2:00:55

    —   —   —

    Ég er til í að gefa 2.000 krónur í prentun á fullkomnum eftirlíkingum af þessum gulu miðum.

    Posted by: Kristín | 16.01.2008 | 7:56:53

Lokað er á athugasemdir.