Grillað á Grímsstöðum

Þegar skoðunarferð um Berserkjahraun lokinni var klukkan að halla í 6 og tímabært að halda heim til að grilla. Ég hafði reyndar haldið að við gætum ekið nesið allt á einum degi en það er ekki raunhæft ef maður fer í svona langa siglingu og stoppar lengi í Bjarnarhöfn. Skítt með það, þetta var búinn að vera frábær dagur og pabbi er hvort sem er búinn að sjá Dritvík, Vatnshelli, Hellna og annað áhugavert á þessari leið.

Á slóðum Æra Tobba
Á heimleiðinni er ekið fram hjá Hausthúsum og Löngufjörum. Æri Tobbi mun hafa dvalið á þessum slóðum en hann var fæddur um 1600. Tobbi þessi var járnsmiður og skáld. Bókmenntafræðingar nútímans myndu skilgreina skáldskap hans sem súrrealisma en það tók hann 400 ár að komast inn í bókmenntasöguna því á hans tíma þóttu vísur sem samanstóðu af agaragagara, umbrumbumb og álíka hljóðstrengjum hið argasta bull og vitleysa. Tobbi var því álitinn brjálaður, hvort nokkuð er til í því veit ég ekki.

Sagt er að Tobbi hafi misst vitið eftir að hann vísaði ferðamönnum til vegar austur Hausthúsafjörur með þessari vísu:

Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á,
undir Þórishamri.

Sagan segir að fólkið hafi þurft að fara yfir vað á þessari leið en þar hafi verið ófært og allir drukknað.

Önnur saga segir að Tobbi hafi verið í Löngufjörum, nokkru austar og ferðalangar hafi spurt hvort hann vissi hvar vætt væri yfir Haffjarðará. Tobbi mun hafa svarað:

Veit ég víst hvar vaðið er
vil þó ekki segja þér.
Fram af eyraroddanum
Undan svarta bakkanum.

Ekki reyndist neitt vað fram af eyraroddanum og drukknuðu ferðamennirnir í Haffjarðará.

Grímur Thomsen lagði síðar út af þessari vísu Æra Tobba og Vísnavinir fluttu það fyrir mörgum árum við nokkuð gott lag. Textinn heitir einfaldlega:

Vísan hans Æra-Tobba
Veit ég víst hvar vaðið er
vaðið yfir lífsins straum.
Á bakkanum sætast sofnast þér
svefni fyrir utan draum.

Veit ég víst hvar vaðið er
vil þó ekki segja þér
Enginn þetta þekkir vað
þó munu allir ríða það.

Fram af Eyraroddanum,
undan svarta bakkanum.
Feigðar út af oddanum,
undan grafarbakkanum.

Rauðamelur (upplýsingar héðan)
raudamelur.jpgRauðamelur ytri er kirkjustaður er stendur undir hárri hraunbrún skammt norðan Gerðubergs. Á Rauðamel var endurreist kirkjusetur árið 1570 og stendur nú á Rauðamel lítil timburkirkja. Stuttan spöl frá þjóðveginum er ein frægasta og vatnsmesta ölkelda landsins, Rauðamelsölkelda og er hún á náttúruminjaskrá.

Í hraungjótu rétt við bæinn á Rauðamel fundust árið 1959 fjórir eirkatlar. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þeim var komið þar fyrir, en lögun þeirra mun benda til að þeir hafi verið smíðaðir á 13. eða 14. öld. Slíkir eirkatlar þóttu mikil verðmæti áður fyrr og eru heimildir fyrir því í Búalögum, að einn slíkur hafi þá virtur til jafns við áttæring.

 

Grillað í sólinni
Þegar komið var í bústaðinn undir Grímsstaðamúla aftur, grilluðum við heilan kjúkling á bjórdós og sætar kartöflur. Þetta borðuðum við ásamt góðu salati og dásamlegri piparostasósu.

Snapchat-7600684564261902515Þar sem við vorum fyrr á ferðinni en kvöldið áður náðum við að borða kvöldmatinn í sólinni úti á palli og að sjálfsögðu var skálað.

13492999_10208663068069609_1213133181_nBjór og smápylsur í forrétt á meðan kjúklingurinn var að grillast. Ég er ekki með sígarettu á myndinni hér að neðan, heldur pylsu, því þótt ég sé frekar reykingaleg týpa hef ég aldrei reykt.

Snapchat-7741995451174974124

13510676_10208663068309615_748266602_nKjúklingur, sætar kartöflur, piparostsósa, melóna, salat og köld sósa úr kotasælu o.fl.

Hér má sjá stemninguna 

Deila

Share to Facebook