Veisla

Hún kunni illa við kirkjugarða. Hún óttaðist ekki anda hinna framliðnu og því síður taldi hún líkur á að hún raskaði grafarró þeirra. Ekki angraði hugmyndin um návist guðdómsins hana heldur enda taldi hún víst að sá hégómaspengill héldi sig fremur meðal þeirra sem ennþá væru í aðstöðu til að tilbiðja hann.

Það var miklu fremur útlit garðsins sem vakti óhug hennar. Henni fannst leiðin minna óhugnanlega mikið á brauðtertur og það var eitthvað svo ósmekklegt.

Reyndar komu greftrunarveislur illa við hana líka. Hún sá ekki ástæðu til að leggjast í þunglyndi þótt gamalmenni hrykki upp af en henni fannst samt óþarfi að fagna því. Þegar amma hennar dó, átu ættingjarnir kynstrin öll af brauðtertum í minningu hennar, þótt engum þeirra hefði nokkurntíma á þessum 82 árum sem hún lifði, dottið í hug að halda henni veislu. Sjálfsagt höfðu einhverjir erfingjanna hjálpað til við undirbúning sjötugsafmælis hennar en þar með voru upptaldar þær veislur sem höfðu verið haldnar henni til heiðurs í lifanda lífi. Og hér lágu nú bein hennar grafin undir risastórri brauðtertu, skreyttri með blómum sem gátu allt eins verið listilega sneiddir ávextir og tilklipptir steinseljusprotar.

Svo kom að því að maðurinn hennar dó og hún þurfti sjálf að undirbúa jarðarför – og veislu. Hún reiknaði með að eiga erindi í kirkjugarðinn oftar en áður og notaði tækifærið til að venja sjálfa sig af óbeit sinni á kirkjugörðum og greftunarkaffi. Hún hugsaði með sér að erfiveislur væru hluti af lífinu og það væru kirkjugarðar líka og að veislan væri táknræn athöfn. Ættingjarnir væru í raun að éta táknmyndir af leiðunum. Þeir væru ekki að éta mæjones og ávaxtaskreytingar í minningu hins látna, heldur væru þeir að éta minninguna sjálfa ofan í sig svo hún hætti að svíða.

Hún skreytti terturnar sjálf. Bætti tilskorinni brauðbollu við skreytinguna á hverri köku, svo hún líktist legsteini, límdi íspinnastangir saman í kross og setti litla saltskál með sprittkerti á hverja tertu.

Viðbrögð ættingjanna voru ekki í samræmi við glæsileik veislunnar. Allir vottuðu henni samúð sína en föðmuðu hana bara örsnöggt og það var eitthvað skrýtið við svipinn. Þeir sem á annað borð settust niðu drukku kannski einn kaffibolla en snertu ekki á kræsingunum og horfðu ekki einu sinni i átt að hlaðborðinu. Flestir stoppuðu stutt.

Um kvöldið raðaði hún öllum brauðtertunum í skutbílinn sinn, fór með þær í kirkjugarðinn og raðaði þeim í kringum gröfina. Kona sem átti erindi í garðinn staldraði við, horfði á hana athafna sig og spurði svo hikandi hvort hún væri ekkert hrædd um að laða meindýr að gröfinni. „Ég ætlaði þær meindýrum hvort sem er“ sagði hún.Svo fjarllægði hún öll sprittkertin því meindýr forðast eldinn.

Share to Facebook