Spegill

Myndin er eftir Emily Balivet

Að lokum ertu orðinn leiður á því að liggja
svo þú stendur upp og klæðir þig.
Þegar þú lítur í spegilinn
til að hagræða bindinu,
sérðu svart hár á milli augnanna.
Svart hár sem bifast.
Þú tekur flísatöng til að slíta það burt
það er gróft svo þú býst við stórum fituhnúð á endanum.
Þú togar.
Og togar.
Þú heyrir hljóð eins og korktappi losni úr flöskustút
og hvítur mörköggull skellur á speglinum og springur.

Ekki mörköggull nei,
heldur vofuhús.
Það loðir límkennt við spegilinn
og örsmáar köngurlær
skríða í allar áttir.
Móðirin hangir spriklandi
með einn fótinn klemmdan
í flísatönginni.
Þú sleppir henni og horfir á
þegar hún dettur í handlaugina og
hverfur í sortann.

Milli augna þinna
er álkrónustórt gat.
Fyrir innan hyldýpi.

Þú þværð hendur þínar,
reimar skóna.
Fylgir svo í fótspor fíflsins
fram hjá húsi Töframannsins
fram hjá Urðarbrunni
fram hjá lundi Keisarynjunnar
hásætissalnum Keisarans
og hofi Öldungsins.

Um dagmálabil
sestu niður í grænni lág
og hvílist um stund
þar seytlar lækur og hrökkálar vaka í hyl
með gulldeplað hreistur
og grænleita rák yfir uggum.

Þá sérðu á botninum glitra
silfraðan sjóð.
Þú afklæðist undir árdegissólinni
og syndir með álum.
Frækn vill fé ráða
og þegar rafhöggið slær,
grípurðu fastar um gullið.

Rafmagni lostinn
en með álkrónur, stjörnum fleiri
í farteskinu
heldurðu för þinni áfram.
Þú stendur við krossgötur
þar sem áður stóð eldtré í blóma
þar er nú vegur, beinn og breiður
en ekkert tré.

Við hliðargötu vex eplatré
sem breiðir lim sitt yfir veginn.
Sumarið leið á meðan þú svafst
og það tré ber engan ávöxt lengur
en við rætur þess situr Vegfarandinn
sem leitar fjársjóðar föður síns.
Þann sjóð fól faðir hans
í jörð, í lofti eða vatni
og Vegfarandinn stendur upp og gengur til þín
hann segist vera að bíða eftir vagni.

Share to Facebook