Saga handa prinsessunni sem er með hinn fullkoma kjól á heilanum

Einu sinni var prinsessa. Hún var galin. Hún var með kjóla á heilanum og stór hluti dagsins fór í að skoða kjóla, máta kjóla, afskrifa kjóla sem henni líkuðu ekki, reyna að þröngva kjólum sem hún var hrifin af en pössuðu henni ekki upp á systur sínar og reyna að fá saumakonu hirðarinnar til að breyta kjólum þannig að þeir féllu henni betur í geð. Og það var ekki nóg með að hún væri með kjóla á heilanum, hún hafði líka svo hörmulegan smekk og hún gerði sér m.a.s. grein fyrir því sjálf og klæddist þessvegna sjaldan því sem hún helst hefði viljað þótt hún gæti auðveldlega fengið allt sem hún benti á.

Dagsdaglega klæddist prinsessan helst kjólum sem henni þóttu þægilegir. Hún átti það til að hirða gamla kjóla sem systur hennar eða jafnvel hirðmeyjarnar voru búnar að henda í ruslið, annaðhvort af því að þeir voru gamlir og slitnir, eða af því að þeir voru bara alls ekkert fallegir þótt hún með sinn vonda smekk sæi eitthvað við þá sem enginn annar gat komið auga á. Gallinn var bara sá að trosnaðar spjarir af vinnukonunum voru yfirleitt ekki gjaldgengar á mannamótum og þótt hún gæti kannski leyft sér að druslast um í þæfðum bómullarkjól í sinni eigin dyngju, hefði henni ekki liðið vel í honum við hádegisverðarborðið. Auk þess varð kóngurinn æfur þegar hann sá hana í slíkri múnderingu. Bómullardulur hriðmeyjanna urðu því að frekar ómerkilegu leyndarmáli enda þótt hún skammaðist sín ekkert fyrir þær sjálf.

Þótt prinsessan hefði bæði slæman smekk og væri líka frekar galin, var hún ekki nógu heimsk til að velja sér ópraktíska kjóla. Hún var glysgjörn og þótti ægilega gaman að skoða kjóla sem hefðu kannski verið viðeigandi í afmælisveislu yngstu systurinnar. Hún var t.d. mjög hrifin af krúttlegum kjólum, svona bleikum pífukjólum með hvítum slaufum eða ljósbláum tjullkjólum með pallíettum og blúndum. Hún gat gónt á þá tímunum saman. Hún safnaði brúðum sem voru klæddar í þessháttar kjóla. En sætu blúndukjólarnir voru svo óþægilegir að henni hefði aldrei komið til hugar að láta sauma einn af því tagi á sjálfa sig. Hún gat kannski átt það til að máta slíkan kjól einu sinni en henni varð strax kalt, fannst hún ekki geta hreyft sig og auk þess hefði hún ekki getað mætt á ríkisráðsfund klædd eins og smjörkremsterta. Það hefði ekki nokkur maður tekið mark á henni í svo óvirðulegum klæðnaði og hún hafði hreint ekki hugsað sér að vera sykurrófa hirðarinnar að eilífu, hún ætlaði sér að verða drottning þótt hún væri reyndar ekki elst í systrahópnum.

Saumakona hirðarinnar var öll af vilja gerð að þóknast duttlungum prinsessunnar. Hún saumaði og saumaði en þótt prinsessan yrði himinlifandi yfir hverjum nýjum kjól, liðu sjaldan meira en 3-4 klst. þar til hún var búin að finna eitthvað að honum og komin í einhvern bómullargarminn aftur. Ef henni var boðinn dásamlegur silkikjóll með opnu baki, sagði hún að sér yrði kalt í honum. Ef hún fékk síðerma ullarkjól sagðist hún vera eins og uppþornuð piparkerling. Víðir kjólar huldu vöxtinn, þröngir kjólar sýndu bumbuna sem myndaðist ef hún kýldi sig út af fasanakjöti og vanillurjóma. Ef saumakonan bauð henni glæsilegan svartan satínkjól sem hentaði við öll tækifæri, sagði hún að það vantaði bara alla gleði í þennan annars ágæta kjól, hvort mætti ekki setja mynd af Svampi Sveinssyni á brjóststykkið til að lífga aðeins upp á hann.

Prinsessan skoðaði allar hugmyndir sem tískuhönnuðir heimsins lögðu fram. Hún eyddi heilu vikunum í búðum, hún leitaði og leitaði en í hvert sinn sem hún fann kjól sem nálgaðist það að vera fullkominn, þurfti það endilega að vera kjóll sem einhver önnur prinsessa átti. Hún var að vísu rík og hefði auðveldlega getað fengið þá kjóla keypta en henni fannst að hún gæti aldrei í alvörunni átt kjól sem önnur kona hefði látið af hendi hálfvegis gegn vilja sínum.

Að lokum var kjóladella prinsessunnar ekki lengur áhugamál heldur þráhyggja. Eiginlega vandamál. Hún stóð í sífelldum kjólaskiptum daginn út og daginn inn, nöldraði stöðugt í saumakonunni, það vantaði rennilás hér eða vasa þar, eða liturinn var ekki réttur eða sniðið aðeins of þröngt yfir rassinn… Hún var vansæl og var hreinlega að gera saumakonuna geðveika.

Þar kom að að saumakonan fékk nóg af þessum duttlunugum. Hún gekk á fund kóngsins og sagði honum að hún gæti ekki staðið í þessari vitleysu lengur, prinsessan væri með hinn fullkomna kjól gjörsamlega á sálinni og vildi helst flík sem hún gæti notað sem náttkjól, samkvæmisklæðnað og brúðarkjól allt í senn. Kröfurnar væru fullkomlega óraunhæfar og að það yrði bara að fá einhvern til að koma vitinu fyrir stelpuna. Kóngurinn var sjálfur að verða býsna þreyttur á geðbólgu dóttur sinnar og skildi saumakonuna vel. Hann sendi því eftir besta geðlækni ríkisins og bað hann að grípa til hverra þeirra aðgerða sem hann teldi árangursríkastar til að lækna prinsessuna af þessari þráhyggju og fyrir alla muni að sætta hana við ríkjandi hugmyndir um það hverskonar kjólar hæfðu stétt hennar og stöðu.

Geðlæknir ríkisins var vitur maður. Hann var ekki lengi að finna út að ástæðan fyrir þessum erfiðleikum prinsessunnar var hreinlega sú að þegar hún horfði í spegil, sá hún í raun ekki sjálfa sig, heldur bara kjólinn sem hún klæddist. Þegar hún klæddist litríkum samkvæmiskjól fann hún fyrir svo mikilli gleði í smástund en þegar hún leit í spegilinn sá hún konu sem gat ekki tekið neinu alvarlega og varð miður sín af því að henni fannst hún ábyrgðarlaus. Þegar hún var í síðum vetrarkjól var henni hlýtt en samtímis leið henni eins og hún ætti aldrei aftur eftir að hlaupa á engi eða snúast í hringi á dansgólfi. Þar sem hún var margbrotinn karakter en ófær um að gera greinarmun á sjálfri sér og kjólnum sem hún klæddist, var ekki von að hún væri sátt við nokkurn þeirra.

Geðlæknirinn sagði kónginum að líklega hefði dóttir hans bara fleiri valkosti en hún réði við og að besta leiðin til að lækna prinsessuna af kjólasýkinni, væri fólgin í því að finna hentugustu tengslin milli kjóls og karakters. Hann ráðlagði kónginum að senda dóttur sína með alla kjóla sem hefðu verið saumaðir á hana í gegnum tíðina í vist til galdranornarinnar Fata Morgana sem bjó á flæðiskeri langt langt frá ríki konungsins. Fata gamla myndi sjálfsagt finna rétta kjólinn handa prinsessunni. Kóngurinn þakkaði gott ráð og sendi prinsessuna á flæðiskerið saumakonulausa en með 12 koffort full af sætum, hlýjum, hentugum og glæsilegum kjólum, þótt enginn þeirra væri þetta allt í senn.

Fata Morgana tók vel á móti prinsessunni en strax á fyrsta degi brenndi hún koffortin 12 með öllum fínu kjólunum sem henni var ætlað að skoða og velja úr. Þess í stað settist hún sjálf við sauma á meðan prinsessan væflaðist um í upplitaðri bómullardruslu og fyllti dagbókina sína af hamraklámi.

Nýju fötin prinsessunnar voru ekki í neinu samræmi við það sem hún átti að venjast. Víðar gallabuxur, þröngur bómullarbolur, jakki og derhúfa. Prinsessan hristi höfuðið.

-Þetta er ekki alveg ég. Mér finnst þetta ekki einu sinni fallegt, sagði hún.

En Fata Morgana sat við sinn keip.

-Þú veist ekkert hvað þú vilt og þ.a.l. veistu heldur ekki hvað þú vilt ekki. Það eru ekki fötin sem skapa manninn, heldur maðurinn sem skapar fötin. Nú skalt þú gjöra svo vel að ganga í þessu þar til þú ert orðin sátt við sjálfa þig og þá fyrst getum við fundið kjól sem hentar þér, sagði Fata Morgana. Prinsessan sagði ekki eitt einasta orð. Líklega var hún of miður sín til að mótmæla. Samt grét hún ekki og það þótti gömlu norninni dálítið undarlegt.

Dagar liðu, vikur liðu og smámsaman fór Fata Morgana að draga fram tískublöð og kjólateikningar, marglit kjólaefni, borða og knipplinga. Prinsessan sýndi þessu þó engan áhuga. Þvert á móti var engu líkara en að hún væri bara hæstánægð með þennan óprinsessulega klæðnað sinn. Að lokum spurði Fata Morgana hana hvort gæti verið að hún vildi alls engan kjól. Hvort henni liði kannski bara prýðilega í gallabuxum og bómullarbol.

Þá leit prinsessan á hana og svaraði:

-Já, veistu það, ég held að þetta sé bara alveg ég, hreinlega. Nema það er bara þetta eina. Það er húfan. Ég meina buxurnar skítverka, bolurinn líka og jakkinn er fínn. Og derið veistu, það er núbara alveg DerIÐ mitt með stórum staf og greini. En húfan… veistu, mér finnst einhvernveginn eins og húfan bara hæfi ekki derinu.

Og prinsessan sem var ekki lengur með fullkominn kjól á heilanum smíðaði sér fleka. Hún sigldi flekanum sínum burt af flæðiskerinu og veifaði Fötu Morgana í kveðjuskyni. Svo fór hún heim í höllina sína og kallaði á alla klæðskera ríkisins og alla frægustu tískuhönnuði í heimi. Hún flutti dyngju sína í speglasalinn og fyllti hana af húfum. Stórum húfum og litlum húfum í öllum regnbogans litum. Og enn í dag situr prinsessan í speglasalnum, staðráðin í að ná eina markmiði sínu í lífinu; að finna réttu húfuna. Þessa einu húfu sem hæfir derinu.

Share to Facebook