Elskan litla (þykjustusaga um alvöruleiki)

Þú segir ást þína beislaða, stillta.
Segist elska mig sem góðan vin.

Annað segja vorbjört augu þín.
Sem þú lokar
þegar hjarta þitt tekur að titra.


***

Situr kyrr í bílnum litla stund

Lítill bær. Í útjaðri hans hvítt rishús með bláu þaki og umhverfis það garður með trjám. Í bænum miðjum barnaskóli og í stofu á jarðhæð, myndmenntakennari að útskýra strauma og stefnur fyrir lítt áhugasömum 9. bekk. Fremst í stofunni, úti við glugga, hún.

Opnar bíldyrnar, stígur út, lokar.

Einn óveðursdag býður hann henni far heim úr skólanum. Upp frá því, oft. Hann býður henni vináttu sína, þiggur hennar vináttu í staðinn og hún vekur honum eitthvað skylt gleði, sem hann kann þó ekki að nefna.

Gengur rauðan malarstíginn heim að húsinu.

Hún gefur mikið og þiggur mikið, ein þeirra sjaldgæfu mannvera sem þrátt fyrir allt gera starf kennarans þess virði að sinna því af alúð. Örlyndi hennar og ástríðufullur áhugi á myndlist heilla hann og barnsleg einlægni hennar hrífur. Á árshátíð barnaskólans hleypur einhver vitleysa í hann og hann tekur rós úr vasa og réttir henni; „rós handa rós“. Og skilur að augnaráðið sem hún sendir honum merkir að hún skilur.

Nálgast húsið, sér henni bregða fyrir bak við gullregn í blóma.

Löngu síðar birtist hún á vinnustofunni hans. „Langaði bara að skoða.“ Með ljóst hárið flaksandi. Hann bindur það í tagl til að forða því frá olíulitnum.

***

Sumar. Og gullregnið farið að blómstra. Ég stend við gluggann og bíð – lengi. En ég gefst ekki upp. Ég veit þú kemur.

Gullregn og lykt af sumri og ég stend við gluggann og sé þig koma. Sé þig koma! Sumar, og heyri höggin í dyrahamrinum og hleyp til dyranna og opna. „Hæ!“ og langar að henda mér í fangið á þér. Þú kemur inn og ég laga kaffi. Eys kaffinu í pappírspokann á meðan þú horfir á sumarið út um gluggann.

Stendur við gluggann, horfir á tré. Ilmur af kaffi í loftinu. Veltir erindi sínu fyrir sér, reynir að hugsa upp eitthvað til að segja.

***

Horfir á hana handleika pensilinn. Segist verða ein heima. Og taglið hoppar, dansar. Finnur óstjórnlega löngun til að renna fingurgómunum upp fíngerðan hnakkann og óskar þess að hafa kynnst henni 10 árum fyrr.

***

Við setjumst við eldhússborðið. Drekkum kaffi. Þegjum. Verð að rjúfa þögnina.
„Ég vissi að þú kæmir“ segi ég, með svip sem ég held að lýsi sjálfsöryggi.
„Jæja?“ Hálfvandræðalegur og bætir kaffi í bollann sem þó er næstum fullur. „Hvernig vissirðu það?“
En þú þarft ekki að spyrja. Vissir að ég yrði ein. Svo ég svara aðeins með svipbrigðum; heimskonan og sæta stelpan í einni ringulreið.

„Ég ætlaði að bjóða þér í bíltúr. Bara keyra eitthvað um. Ef þig langar?“ Ha,ha,ha! Segi ekkert en læt augu mín um að tala. Hálfvandræðasvipurinn verður alger. Ákveð að svara skýrar.
„Veistu … ég held að þig langi ekkert út að keyra. Ég held að það sé allt annað sem þú vilt.“ (Daðrandi.)
„Nú? Eins og hvað?“ Endurheimt öryggi og þú snýrð vörn í sókn. Ókey, þá sný ég bara aftur, eins oft og ég þarf.
„Kannski að koma í skjaldbökuleik?“
„Hvað áttu við?“
„Svona leikur bara. Við skríðum undir þvottabala og þykjumst vera skjaldbökur.“
„Til hvers?“ (Spenntur.)
„Bara. Svamla innan um vatnaliljur og eitthvað svoleiðis. Ég meina – til hvers að fara út að keyra? Ætli tilgangurinn yrði ekki alltaf sá sami.“ Set upp heimskonu-frekju-gáfusvipinn.

Þú hellir í bollann, hrærir lengi og horfir ofan í svart kaffið. „Jæja þá,“ (Blandið leiða og kvíða og hamingju og sektarkennd.) „ég býst við að mig hafi langað til að sjá þig.“
Og ég finn eitthvað hlýtt inni í mér og það byrjar að renna og flæða og streyma um mig alla; hendur mínar verða heitar.

Geng út að glugganum. Þú stendur upp og kemur til mín. Stendur bak við mig og við horfum út.
„Gullregn“ segir þú og snertir hárið á mér, bundið í tagl. Fingurgómarnir nema við hálsinn aftanverðan og hjartað í mér ólmast, hamast, baðar út vængjunum eins og fugl sem leitar útgönguleiðar úr allt of litlu rými.
„Eigum við að klifra upp í það og kyssast?“ segi ég.
„Ert´ eitthvað verri!“ segir þú hneykslaður.
„Já!“ Og ég hleyp út og klifra upp í í gullregnið. Veit ég má það eiginlega ekki. Mamma segir að það sé eitrað en mér er nokk sama. Þú kemur út og sest á veröndina.
„Komdu!“
En þú kemur ekki og ég klifra aftur niður úr trénu og sest hjá þér.
„Viltu ekki kyssa mig?“ (Hissastúrin.)
„Ert´ ekki í lagi. Það gæti einhver séð okkur.“
„Komdu þá inn.“
„Nei. Það gengur ekki. Allt skemmist. Má ekki.“
„Hí á ðig! Þorir ekki. Heldur að ég breytist í frosk. Stóran og grænan og slímugan og segi ribbid.“ (Gáskasár. Kannski barnskona eða konubarn, veit ekki hvort.)
„Ertu fúl?“ (Næstum hvíslandi.)
“Nei!” Og geri mig sæta.
„Allt yrði sárara. Leiktu frekar við vatnaliljur.“

„Til hvers komstu þá?“
„Ég hætti við. Maður má hætta við,“ segir þú og gerir þig gáfulegan.
„Akkúrat. Allt í lagi að daðra við krakkafífl eða hvað? Allt í lagi að leika sér, bara ekki sleppa lausu? Ekki taka áhættu vegna svona unglingsræfils, stíga bara á mann?“ Ofsareið og hef alveg misst stjórnina. Öll vel æfðu svipbrigðin týnd og sársaukinn nakinn.

„Ekki vera vond við mig.“ (Biðjandi og réttir höndina. Sé hún er hlý.)
Og þú tekur um hendur mínar báðar og ég verð aftur heit inni í mér. Og þú ert skrýtinn á svipinn og það er sumar og það er gullregn og litlir dropar detta úr loftinu og tylla sér á hár mitt og hendur.
„Við skulum ekki fara inn“ segir þú.
„Förum frekar í gönguferð,“ segi ég. „Mér er sama þótt það sjáist.“

Við göngum saman eftir rauðum malarstígnum og vot mölin brakar undir fótum okkar. Þú ert í græna regnfrakkanum hans pabba míns og stígvélunum hans líka. Ég tek í hönd þína og við leiðumst. Leiðumst í rigningunni, niður malarstíginn og út á þjóðveginn. Göngum eftir gangstéttinni og gætum þess að stíga ekki á strik. Alveg þar til gangstéttin endar.

Og við förum út af veginum og vöðum í grunnum skurðum og horfum á regndropana renna sér eftir grænum stráum, hægt og hægt og hverfa ofan í jörðina. Ég segi þér frá hundinum mínum sem dó og þú segir mér frá besta vini þínum sem flutti til útlanda og skrifar aldrei. Ég skrifa með brotinni trágrein í leðjuna; F + Þ og dreg hjarta utan um. Þú hlærð og rótar yfir aftur.

Og svo kyssumst við. Stöndum í drullupolli og kyssumst í rigningu og ég er með blautt hár og þú kreistir dropa úr hárinu á mér svo þeir renna niður hnakkann, niður í hálsmálið og kitla. Og á heimleiðinni brakar mölin og skrjáfar, vot og rauð undir fótum í stígvélum.

***

Herbergið mitt. Lítill uppáhaldsstaður uppi í risinu. Varla manngengt, með skotum og kvistum. Við sitjum á rúminu mínu og þú hrærir þegjandi í kaffibolla.

„Eigum við að koma að þykjast að við séum sardínur?“ (Sæt)
„Hvernig er það?“ (Ekki hissa og heldur ekki hneykslaður.)
„Við fyllum baðkerið af olíu og höfum það fyrir sardínudós.“
„Og verðum sardínur í olíu?“
„Aha!“
„Áttu svo mikla olíu?“
„Nei, en við gætum drýgt hana með vatni.“
„Bullustertur!“

Þú stendur upp og skoðar herbergið betur. Vatnslitamyndirnar á veggnum. Spyrð hvort ég hafi gert þær. Ég játa. Spyrð hvort ég vilji mála mynd handa þér. Kinka kolli og segist skulu „mála þig“. Sæki litina.

Ligg á hnjánum á rúminu og hneppi skyrtunni frá þér. Mála brjóst þitt og herðar og háls. Mála fugla og fiðrildi og gullregn í blóma. Þú flissar þegar pensillinn kitlar.
„Nú þú“ segi ég og rétti þér pensilinn. Þú tekur við honum og heldur honum milli tannanna meðan þú togar af mér peysuna, klaufalega án erótískra tilþrifa. Dýfir penslinum í vatnið og berð rauðan lit á geirvörtuna og gult í kringum. Barnsleg mynd af brosandi blómi. Það hefur sítt hár og rætur sem minna á tær og standa langt upp úr moldinni. Útskýrir.

„Mynd af þér. Ævintýrarós“. Hlærð og strýkur tveimur fingrum yfir aftanverðan hálsinn. Byrjar á bakinu og málar stóra fleti með svörtum lit og bláum.
„Hvað ertu að mála?“
„Olíuborpall.“

Litirnir eru fljótir að þorna. Við liggjum á hnjánum og þú faðmar mig. Og við erum eldspýtur í eldspýtnastokki og það er góð lykt af þér og mér er hlýtt. Og það kviknar í mér. Hendur mínar leitandi eins og þær búi yfir sjálfstæðum vilja. En þú tekur þær og heldur fast utan um þær báðar.
„Nei. Það má ekki gerast.“ Stendur svo upp og klæðir þig.

Ég fylgi þér til dyra og horfi á þig fara í skóna þína.
„Kannski skil ég við hana,“ segirðu og leggur hönd á öxl mína.
„Nei-hei, það gerirðu sko áreiðanlega ekki,“ segi ég og reyni að láta röddina hljóma kæruleysislega en það mistekst gersamlega.
„Nei. Ég býst ekki við því.“
„Má ég samt koma til þín á vinnustofuna aftur? Bara til að sjá?“ (Segðu já, þú verður að segja já.)
„Ég held það sé ekki góð hugmynd.“

Þögn.

„Nei, ég held í alvöru að það væri ekki góð hugmynd en ef ég ætti að vera blóm þá vildi ég vera vatnalilja.“

Ég segi ekki orð. Þú horfir á mig. Augu þín tóm. Hendur þínar á öxlum mínum. Kyssir hár mitt. „Elskan litla …“ og það er sorg í röddinni.

Heyri bílinn fara í gang og aka burtu. Sé þig fyrir mér þar sem þú situr í bílnum og spænir upp malbikið á 150 km. hraða, heim. Heim til konunnar þinnar.

***

Sumar. Og bleik morgunský á bláum himni. Og dögg í grasinu og gullregn í blóma. Og ég – ég er aftur ein. Stend fyrir framan stóra spegilinn á baðinu og prófa bit rakblaðsins á nögl.

Það er ævintýrablóm á brjóstinu á mér. Geirvartan rauð eins og lítið nef. Tek fram aukaspegil til að sjá bakið. Olíuborpallurinn er stór og ljót klessa. Svört með bláu í kring. Og fyrir neðan – lítið rautt hjarta með svörtum stöfum F + Þ. Brosi með sjálfri mér og skrúfa frá sturtunni. Renni blaðinu móti rótinni og raka hárin úr handarkrikanum.

Vatnið er hlýtt. Á morgun kemur nýr dagur – og enginn veit. Enginn veit að við höfum farið í gönguferð í rigningu og kysst í drullupolli. Vatnið er hlýtt. Og enginn veit að þú hefur málað á mig hjarta.

Vatnið er hlýtt. Það er mjúkt og það er hreint og það faðmar mig og streymir um mig alla. Og málverkin sem þú skreyttir mig með leysast upp og hverfa. Renna í mjóum taumum niður líkama minn og hverfa ofan í niðurfallið.
Svört.
Og gul.
Og rauð.

Share to Facebook