Annars hefði hann dáið

Á kvöldin sit ég við glugga piparkökuhússins og horfi á tunglið yfir fjallinu. Stundum er það hvítt og kringlótt, hangir kyrrt í dimmbláu húminu og skín á litla hvíta steina sem börn hafa skilið eftir á skógarstígnum. Stundum veður það í grásvörtum draugaskýjum. Oftast er það sigð. Sigðin sem sker gluggatjöldin frá himnaríki.

Á slíkum kvöldum má búast við að börn villist í skóginum og leiti uppi piparkökuhús til að narta í. Það gerist þó æ sjaldnar. Hin síðari ár hef ég aðallega nærst á vondu Bónuspasta og sykruðu morgunkorni því krakkar nú til dags vilja frekar hanga yfir ofbeldismyndunum í vídíóinu og kláminu á internetinu en að hlusta á söng næturgalans og horfa á mánasigð skera skýjaslæður himnaríkis. Á hinn bóginn eru þau fáu krakkaóbermi sem þvælast hingað á annað borð venjulega stríðalin, tilbúin til átu og mýkri undir tönn en krógar voru í gamla daga. Auk þess er nauðsynlegt að vera á varðbergi gagnvart þeim, því þau eru átsjúk upp til hópa og oft búin að graðga í sig karamellunni af hálfri gluggasyllu áður en ég verð þeirra vör. Þess vegna sit ég við gluggann, ekki bara út af tunglinu skilurðu.

Eitt septemberkvöld þegar ég sat og horfði á tunglsigðina skera slæðurnar, kom grænklæddur drengur fljúgandi yfir skóginn. Hann hafði blik í auga, drengurinn sá og koma hans var einkar viðeigandi því svo vildi til Ellen Kristjáns var einmitt á þessu augnabliki að syngja “ven æ þínk of eindsjels” á Bylgjunni. Hann lenti í lakkrísrunna í garðinum og spilaði nokkrar trillur á litla flautu. Svo stökk hann niður úr runnanum og rétti mér krukku, fulla af eplamauki. Ég hugsaði með mér að sennilega áliti hann að ég væri gömul og tannlaus og ætti erfitt með að bíta í epli.
“Það er eingöngu til útvortis nota” sagði drengurinn en það þótti mér leitt því það var sætur ilmur af innihaldinu og mig langaði að sleikja það upp úr krukkunni með munúðarfullum þokka.

Ég hef ævilanga reynslu af eplum og veit að þau eiga það til að vera eitruð, einkum ef sá sem færir manni þau er ljósengli líkur. Samt deyf ég fingri í krukkuna og smurði dropa á handarbak mitt.
“Ég skal gera þetta fyrir þig” sagði drengurinn. Hann klifraði upp á gluggasylluna og við það molnaði ofurlítið brot úr henni.
“Að éta eða vera étinn, það er lögmálið og ég á ekki von á að þú hafir lyst á gamalli kerlingu eins og mér” sagði ég og beit stykki úr upphandlegg hans.

Þá tók hann krukkuna og smurði maukinu yfir andlitið á mér. Hann hneppti treyjunni frá barmi mínum og smurði maukinu yfir visin brjóst mín, fletti pilsinu frá mér og smurði líf mitt og lendar, læri og fótleggi allt niður á tær. Ég fann breytinguna. Fann hana í öllum kroppnum. Aukinn styrk, aukinn þrótt, ég fann hrukkurnar hverfa og ég fann að ég varð falleg.
“Nú ét ég afganginn af þér” sagði ég, því eðli manns verður ekki umflúið þótt maður eigi einhverjum góðs að gjalda.

Þá settist hann í fangið á mér og sleikti maukið af mér. Ekki af munúð heldur rólega, líkt og læða sem þvær afkvæmi sínu. Sleikti á mér andlitið og hálsinn, kraup mér að fótum, sleikti brjóst mitt og skaut, niður hnén og allt niður á tær. Svo flaug hann burt og ég hef aldrei séð hann aftur.

Stundum þegar ég sit við gluggann á síðkvöldum, hugsa ég til hans. Ég veit ekki hvaðan hann kom. Kannski frá tunglinu. Ég er ennþá falleg og það er ennþá skarð í gluggakistunni þar sem hann sat. Skarðið sést samt ekki því ég breiddi yfir það græna klæðisbútinn sem fylgdi með þegar ég beit stykkið úr handlegg hans.

Ég held að maukið hafi ekki verið eitrað og hann hlýtur að hafa logið því að það sé eingöngu ætlað til útvortis nota. Annars hefði hann nefnilega dáið en ég sá sjálf að hann dó ekki. Hann flaug burt með fullan maga af eplamauki og handlegginn blóðugan en hann dó ekki.

Share to Facebook