Pistlar um samfélagsmál

Til hvers að aðlagast menningunni?

Ég ólst upp á Íslandi, er kennd við föður minn og þekki Hallgrímskirkju og Geysi á myndum. Ég er ljós yfirlitum, hef prjónað lopapeysur og mér finnst saltkjöt gott. Tala íslensku betur en önnur mál. Það eru þessi atriði ásamt langfeðgatali og íslensku vegabréfi sem ég hef í huga þegar ég segist vera Íslendingur. Hvort ég hef nokkurntíma verið vel aðlögðuð íslensku samfélagi er hinsvegar umdeilanlegt og hvað merkir það í raun? Hvernig hegðar vel „aðlagaður“ Íslendingur sér? Hver er munurinn á þeim sem er almennt frekar  andfélagslegur og þeim sem er ekki Íslendingslegur í hátterni og hugsun?

Í Danmörku tölum við dönsku

Ég bjó í Danmörku í ríflega tvö ár. Við systurnar unnum á sama vinnustað um tíma. Okkur var bannað að tala íslensku okkar í milli. Við höfðum reyndar aldrei talað annað en dönsku inni á deild en einhverntíma varð okkur það á að skiptast á nokkrum orðum á íslensku í kaffitímanum (um garðskála ef ég man rétt) og það varð bara allt vitlaust. Rökin voru þau að ef við töluðum íslensku gætum við talað um samstarfsfólk okkar án þess að það áttaði sig á því. Ekki fékk ég neina skýringu á því hvað væri svo áhugavert við þessar kerlingar að hætta væri á að við gætum ekki stillt okkur um að ræða þær fyrr en við kæmum heim, enda hefðum við þá getað dregið hvor aðra útfyrir og farið á trúnó þar, ef eitthvert gagghænsið hefði verið með bólu á nefinu eða hvað það nú annars var sem taldist verðugt umræðuefni.

Reyndar er ég á því að þessi krafa hafi ekkert snúist um tungumálið heldur einfaldlega um útlendingahatur. Það er alltaf ágætt að geta gripið í frasann „þetta vill bara ekkert aðlagast menningunni“, ef maður finnur enga persónubresti til að setja út á, en þótt ég geti bjargað mér á dönsku aðlagaðist ég ekkert menningunni og gerði enga tilraun til þess.

Hvað káfar það upp á aðra?

Til hvers hefði ég átt að aðlagast danskri menningu? Mér leið prýðilega heima hjá mér með minni fjölskyldu og vinum. Ég átti ágæt samskipti við nágrannana en myndaði ekki djúp vinatengsl við þá og fann enga þörf fyrir það. Það hefði ekkert aukið mín lífsgæði að borða rúgbrauð með kartöflum daglega eða lesa alla auglýsingabæklinga sem bárust inn um lúguna hjá mér eins og flestir nágranna minna gerðu. Ég hélt áfram að fjarlægja hárin úr handarkrikunum á mér þótt samstarfskonur mínar hafi flaggað brúskunum, ég notaði reiðhjól í mesta hófi og það hefði aldrei komið til greina af minni hálfu að flagga Dannebrog á afmæli drottningarinnar. Ég varð mjög glöð þegar pabbi kom í heimsókn með saltkjöt og harðfisk og vikulega hittum við systur frænku okkar og nokkra aðra Íslendinga og prjónuðum með þeim, aðallega úr íslenskum lopa. Það hefur eflaust verið einhverjum innfæddum mjög þungbær reynsla að vita af okkur sjóðandi saltkjöt, prjónandi lopapeysur og baknagandi samtarfskonurnar á elliheimilinu á íslensku í stað dönsku en mér var eiginlega bara fokk sama.

Af hverju er aðlögun nauðsynleg?

Núna bý ég í Skotlandi. Mér finnst „Wild Mountain Thyme“ fallegt lag en ég flutti ekki hingað til að aðlagast skoskri menningu. Ég flutti hingað af því að ég vil vera hjá manninum mínum og hann flutti hingað af því að hér hefur hann vinnu sem gerir hann hamingjusaman, auk þess sem kjörin eru góð. Það hentar okkur að búa hér, við erum ekki hér af því að við þráum að verða Skotar og við lifum engu félagslífi með innfæddum, það eru aðallega aðrir útlendingar sem við eigum félagsleg samskipti við. Ég fylgist ekki einu sinni með fréttum sem varða borgina sem ég bý í, ég skoða hinsvegar íslensku netmiðlana daglega. Íslenskar fréttir vekja bara frekar áhuga minn því ég þekki söguna og umhverfið betur.

Þegar innflytjendamál eru rædd á Íslandi heyrir maður undantekningalaust möntruna „það er nauðsynlegt að fólk læri íslensku og aðlagist menningunni“. Þegar maður spyr hversvegna það sé nauðsynlegt ef innflytjandinn sjálfur telur sig komast vel af án þess, kemur venjulega eitthvert kjaftæði um virðingu fyrir landi og þjóð. Halló! hvernig er það virðingarleysi við Dani að borða saltkjöt og prjóna lopapeysur? Hvernig er það vanvirðing við Glasgowbúa að taka ekki upp þessa sérhljóðaafbökun sem einkennir mállýskuna?

Fyrir hvern er þessi krafa sett fram?

Það er þægilegt að búa í landi þar sem maður skilur tungumálið og þar sem kurteisisvenjur, skopskyn og fleiri menningaratriði eru nógu lík til þess að maður geti flesta daga forðast meiriháttar misskilning. Ég get alveg mælt með því að fólk læri það tungumál sem flestir í kringum það nota því það gerir lífið auðveldara að geta átt samskipti við sem flesta ef maður kýs það. Það er líka eðlilegt að sum fyrirtæki geri kröfu um tungumálakunnáttu svo atvinnumöguleikar eru augljóslega meiri fyrir þann sem talar málið. Það hvort innflytjandi talar málið eða ekki snertir samt fyrst og fremst hann sjálfan og það er gjörsamlega fáránlegt að Íslendingar telji sig eiga einhvern rétt á því að innflytjendur tali íslensku.

Þeir sem halda uppi þessu eilífa tuði um að útlendingar þurfi að „aðlagast“ hafa sjaldan hugsað mikið út í hvað það eiginlega merkir, hvað þá að þeir geti rökstutt það hversvegna það er svona nauðsynlegt og fyrir hvern. Innflytjendur eru alveg einfærir um að meta nauðsyn þess fyrir sjálfa sig og þurfa ekkert á því að halda að heimamenn segi þeim til. Oftar en ekki er þessi krafa um aðlögun heldur ekkert annað en bæði innistæðulaus og illa dulbúin þjóðremba.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago