Flottur pabbi! Svona á að gera þetta!

Í gær birti DV frétt (að sjálfsögðu án þess að geta heimilda) af manni í Texas sem barði barnaníðing til bana.

Og þá varð kátt í höllinni. Hvílíkur fögnuður yfir manndrápi. Svona á að gera þetta! það er tónninn hjá mörgum, sennilega flestum þeirra sem tjá sig um málið á umræðukerfi DV. Aukaatriði að barnið horfði upp á föður sinn bana manni og þótt fram komi að faðirinn líti hreint ekki á þetta sem glæsilega framgöngu, heldur sé miður sín yfir því að svona hafi farið, virðast margir telja að þarna hafi verið um að ræða yfirvegaða ákvörðun, byggða á „eðlilegri“ réttlætiskennd. Það stendur heldur ekki á fólki að fullyrða að það sjálft myndi bregðast eins við, enda þótt dæmin sanni, sem betur fer, að flestir foreldrar ná nú stjórn á bræði sinni áður en þeir verða manni að bana. Þetta er svona álíka kjánalegt og þegar ungar stúlkur sem aldrei hafa upplifað ógn, fullyrða að það sé ekki hægt að nauðga þeim „af því að ég yrði bara svo brjálæðislega reið að ég myndi klóra úr honum augun.“

Ég setti inn eftirfarandi ummæli:

Eins skiljanlegt og það er að fólk missi stjórn á sér þegar einhver gerir börnunum þess mein, þá er óhugnanlegt að sjá öll þessi ummæli um að það sé gott mál að berja mann til dauða. Það er kannski ekki við því að búast að mannréttindi nái fótfestu í þriðja heiminum á meðan almenningur í þingræðisríki vill helst halda uppi miðaldasiðferði.

Og það er eins og við manninn mælt; hverjum lesandanum á fætur öðrum tekst að túlka mín orð þannig að ég skilji ekki reiði föðurins, að ég reikni með því að fólk sem stendur barnaníðing að verki setjist niður og hugsi málið í rólegheitum, að ég sé að verja barnaníðing eða krefjast refsingar yfir föðurnum. Einn kýs jafnvel að ásaka mig um að líta á það sem mannréttindi að nauðga börnum. Þessar fráleitu túlkanir halda menn svo fast í þrátt fyrir að ég margítreki að ég sé ekki að ráðast á pabbann heldur að gagnrýna þá umræðu að það sé frábær lausn að drepa glæpamenn og það án dóms og laga.

Þetta gerist alltaf þegar mál barnaníðinga og annarra hættulegra manna eru rædd. Fólk sem allajafna er nokkurnveginn með báða fætur á jörðinni virðist missa bæði siðferði sitt og dómgreind, bara við það að heyra af svona málum, það þarf ekki einu sinni að standa frammi fyrir þeim sjálft. Það er einmitt vegna þessara stökkbreytinga á dómgreind og mannúð sem réttarkerfi er nauðsynlegt (og þá á ég ekki við að vestrænt réttarkerfi sé hafið yfir gagnrýni eða að það þarfnist ekki endurskoðunar.) Ég spyr allavega ekkert um afleiðingarnar ef fólk sem sýnir af sér svo einbeittan vilja til að mistúlka texta sem það hefur færi á að lesa yfir margsinnis, á meðan það situr í rólegheitum heima við tölvuna sína, ætti að skera úr um sekt eða sakleysi án þess að sjá nein rannsóknargögn og ákvarða mönnum refsingar í samræmi við sínar eigin tilfinningar. Mannssálin hefur nefnilega afskaplega lítið breyst síðan á miðöldum og sennilega myndu pyntingar og opinberar aftökur gleðja þessar illa hugsandi smásálir alveg jafn mikið og skrílinn á 16. öld.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago