Maður þarf ekki að vera vel að sér í næringarfræði til þess að giska á að það sé vond hugmynd að ala börn (eða fullorðna ef því er að skipta) eingöngu á orkuríku og/eða mjög einhæfu fæði. Og nei, ég vil ekki að skólamötuneyti bjóði upp á franskar og pizzu daglega. En hvað í fjandanum á þetta að þýða?

Ég tek fram að ég hef ekki séð þáttinn, bara þessa umfjöllun og hugsanlega er þátturinn öllu vandaðri en það er eitthvað verulega athugavert við þessa frétt á visi.is. Þarna er „óhollusta“ ekki mæld í viðbættum sykri, gerviefnum eða neinu því sem mannslíkaminn hefur ekkert við að gera, heldur í hitaeiningum. Sem merkir þá líka að ein appelsína er 100% óhollari en hálf appelsína. Eru menn alveg að tapa sér? Hvernig dettur einhverjum í hug að snitsel í raspi eða pizza með kjötáleggi séu í eðli sínu „óhollar“ máltíðir? Ég get tekið undir að það er einkennileg krafa að kjötinnihald í snitseli sé 60% en er átt við sneiðina sjálfa eða er átt við að snitselmáltíð eigi að vera að 60% kjöt? Ef það er hugmyndin þá er þetta bara í góðu lagi. Ef er aðeins átt við sneiðina þá felst villan í því að kalla hana snitsel en ekki í því að telja 60% kjötinnihald nægilegt. Börn hafa enga sérstaka þörf fyrir mikið kjöt.

Ég hef að vísu takmarkaða trú á annarri næringarráðgjöf en „hvað sem er er gott í hófi“ en  samkvæmt ráðleggingum manneldisráðs gilda eftirfarandi reglur um samsetningu orkunnar:

  1. Hæfilegt er að prótein veiti 10-20% heildarorku. Ráðleggingar fyrir hópa fólks miðast við 15% orkunnar úr próteinum.
  2. Hæfilegt er að fá 25-35% orkunnar úr fitu, þar af komi ekki meira en 10% orkunnar úr harðri fitu. (Með harðri fitu er átt við bæði mettaðar fitusýrur og trans-ómettaðar fitusýrur). Ráðleggingar fyrir hópa fólks miðast við 30% orkunnar úr fitu.
  3. Hæfilegt er að úr kolvetnum fáist 50-60% af orkunni, þar af ekki meira en 10% úr viðbættum sykri. Ráðleggingar fyrir hópa fólks miðast við 55% orkunnar úr kolvetnum. (Meira hér.)

Samkvæmt þessu ætti snitsel ásamt kartöflum og salati með ávaxtabita í eftirrétt að vera prýðilega samsett máltíð. Kjötpizza getur líka verið hluti af ágætum matseðli. Grænmetissúpu á undan eða gott salat úr grænmeti eða ávöxtum eða þá að hafa hina aðalmáltíð dagsins í orkurýrari kantinum. Auðvitað verða alltaf til börn sem borða of mikið snitsel eða of margar pizzusneiðar en lausnin er varla sú að úthýsa hitaeiningum úr skólamáltíðum.

Í öllu þessu offramboði af orkuríkum mat er alveg ástæða til að vera vakandi en mikið ofboðslega líst mér illa á að taka á offituvandamálum barna með því að tala um hitaeiningar eins þær séu eitur.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago