Ég hef aldrei verið heilsufrík og ekki fylgst sérstaklega með umræðu um líkamsrækt, næringu og megrun. Þó hef ég ekki komist hjá því að verða hennar vör og stundum heyrt fremur ótrúverðugar staðhæfingar.

Áhugi minn á þessu sviði hefur hingað til verið það takmarkaður að ég hef ekki lagst í leit til að kynna mér sannleiksgildi þeirra fullyrðinga en þegar ég fór að pæla í þessu líkamsvirðingardæmi og skoða næringar- og megrunarumræðuna betur, vaknaði áhugi minn. Ekki beinlíns áhugi á næringarfræði, heldur öllum þeim ótrúverðugu kenningum sem eru uppi um heilsusamlegt líferni.

Nú er það að eitthvað hljómi ótrúlega engin sönnun þess að það sé ekki rétt. Mörg ótrúleg fyrirbæri eiga sér sannarlega stoð í raunveruleikanum. Bæði flugvélar og framsóknarmenn eru t.d. nokkuð algeng fyrirbæri, hverra tilvist ég neyðist til að viðurkenna þótt mér finnist hvorttveggja ótrúverðugt. Ég kann hvorki nógu mikið í eðlisfræði til að geta hrakið það sem virðist nokkuð góð sönnun fyrir tilvist flugvéla, né kann ég nógu mikið í sálarfræði til að geta afskrifað raunverulega framsóknarmennsku. Ég kann heldur ekki nógu mikið í náttúrufræði til að geta afsannað sumt af því sem haldið er fram um næringu og holdafar. Munurinn er samt sem áður sá að ég hef ekki skynsamlega ástæðu til að efast um tilvist flugvéla og framsóknarmanna. Ég hef reynslu af hvorutveggja (þótt ég efist reyndar stundum um reynslu mína). Þegar ég spyr þá sem kunna eðlisfræði hvernig flugvélar virki þá geta þeir útskýrt það, ég hef bara ekki nægan áhuga til að nema það allt. Að vísu hefur enginn getað svarað því með sannfærandi rökum hvernig fólk tileinkar sér framsóknarmennsku en þegar fjallað er um framsóknarmenn fylgja myndir, nöfn og dæmi um það sem þeir gera og segja. Þeir virðast því vera til. Ég hef hinsvegar ekki séð neinar sannanir fyrir ýmsu af því sem sagt er um næringu og megrun, það er því ástæða til að spyrja hvaðan upplýsingarnar séu fengnar og hvernig þær standist rök sem virðast mæla gegn þeim.

Fyrstu spurningarnar sem mig langar að fá svör við varða þessa staðhæfingu:

Þú þarft fitu til að brenna fitu

Þetta hljómar vissulega vel og andartak dettur manni í hug að dagar kalvinismans séu liðnir. En nei ónei, þetta merkir ekki að þar með megirðu fá þér smjör á brauðið eða borða rjómasósu með kvöldmatnum. Þú mátt nefnilega alls ekki borða hvaða fitu sem er, heldur bara fituna sem okkars ætlum að selja þér.

Omega? Jamm, og ég trúi ekki á tilviljanir fremur en flugvélar.

Ég kann lítið í næringarfræði og ætla ekki að þvertaka fyrir það að eitthvað geti verið hæft í þessu en það þarf meira en fullyrðingu til að sannfæra mig. Ég er viss um að fita er líkamanum nauðsynleg og að þeir sem eru bæði við fulla heilsu og í kjörþyngd hafa ekkert illt af fitu, ekki heldur dýrafitu. Ég hef hinsvegar ekki minnstu áhyggjur af því að fá ekki næga fitu. Það er fita í nánast öllum dýraafurðum, baunum, korni og fræjum. Til að fá hættulega litla fitu þyrfti maður sennilega að lifa á sellríi og vodka.

En gott og vel, gerum bara ráð fyrir því að ég sé nógu biluð til að fara á vodkakúrinn, ég myndi þá samkvæmt þessu losna við vatn og vöðva en ekki spik af því að ég þarf fitu til að brenna fitu. Mér finnst það ótrúlegt og nú bara auglýsi ég eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

Ef það er rétt að fitu þurfi til að brenna fitu, af hverju horast þá grasbítar sem fá ekki nóg fóður? Það er allavega ekki af því að þeir hafi loksins fengið meiri fitu.

Af hverju halda þá anorexíusjúklingar áfram að grennast eftir að vera búnir að taka allt nema sellerí og tómata út af matseðlinum?

Af hverju grennist þá fólk þegar það býr við hungursneyð?

Og síðast en ekki síst; hvar finn ég marktækar rannsóknir sem sýna fram á að fita brenni fitu?

Og nei það er ekki nóg fyrir mig að fá svör við þessum spurningum, ég sé fram á að vafasöm næringarfræði endist mér í maaaaarga pistla, þetta var bara upphitun.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago