Mikið hefur verið bloggað um þessa síðustu aðgerð ársins og fréttaflutningur af stórfelldum skemmdarverkum og líkamsárásum blásinn upp. Sé það rétt að einhver hafi kastað múrsteini í lögreglumann og kinnbeinsbrotið hann, þykir mér það skelfilegt. Ég styð ekki ofbeldi og þekki engan sem ég trúi að myndi réttlæta slíkt. Ég sá ekkert ofbeldi sjálf, nema auðvitað þá ótrúlegu aðgerð lögreglu að beita piparúða innan dyra. Slíkt er forkastanlegt og ég verð ekki hissa þótt þetta verði til þess að aðgerðum verði beint sérstaklega gegn lögreglunni næst.

Ástæðan fyrir því að farið var inn í anddyrið var einfaldlega sú að þannig var hægt að gera ráð fyrir að froðusnakkarnir heyrðu í okkur. Tilgangurinn var sá að trufla fundinn og helst útsendinguna líka (hvorttveggja tókst) og það var ekki hægt að gera með því að standa úti á Austurvelli.

Aðgerðinni var ekki beint gegn Hótel Borg eða Stöð 2 og engar ákvarðanir voru teknar um skemmdarverk (þótt öll fjárhagsleg áföll sem eigendur 365 verða fyrir gleðji mig persónulega). Reynt var að taka kapal úr sambandi og það getur ekki talist skemmdarverk. Hafi orðið skemmdir á tækjabúnaði, finnst mér líklegast að það hafi verið af slysni en hvort heldur er þá er það allavega komið til skila að ENGINN, hvorki fjölmiðlar, lögregla né aðrir, munu stöðva aðgerðasinna í því að trufla formenn stjórnmálaflokkanna í því að bera meira froðusnakk á borð fyrir okkur.

Hvað varðar þá starfsmenn Stöðvar 2 sem sagðir eru slasaðir, þá þykir mér leitt ef það er rétt. Hitt er svo annað mál að hvorki starfsmenn Stöðvar 2 né starfmenn hótel Borgar eru löggur. Löggan var hinsvegar á næsta leiti og með mikinn viðbúnað og hefðu verið eðlileg viðbrögð að kalla þá til, fremur en að staffið færi sjálft að reyna að kæfa mótmælin niður. Ef almennir borgarar taka að sér löggæslustörf upp á sitt eindæmi, geta þeir búist við að lenda í átökum. Ég trúi því allavega ekki að nokkur hafi ráðist á tökuliðið eða þjóna að fyrra bragði, enda aðgerðinni ekki beint gegn þeim á nokkurn hátt.

Eina ofbeldið sem ég varð vitni að var af hálfu lögreglunnar. Þetta er í annað sinn á 6 vikum sem lögregla beitir piparúða innan dyra. Í fyrra skiptið hélt ég að þar hefði bjáni verið við stjórn og að hann hefði nú lært sína lexíu sem og aðrir lögreglumenn. Nú þegar þetta gerist aftur svo stuttu síðar er erfitt að skilja það sem annað en stríðsyfirlýsingu.

Ég hef sjálf áhyggjur af því að brátt muni brjótast út óeirðir en ég get ekki látið þann ótta stöðva mig í því ætlunarverki að trufla hverja einustu stofnun og hvern einasta einstakling sem ber ábyrgð á efnahagsstefnu undanfarinna ára, í því að fremja fleiri afglöp gagnvart þjóð minni, sonum mínum og mér sjálfri. Ég hef engan áhuga á því sjálf að standa í einhverju stríði við lögregluna og ég hygg að flestir hafi þá afstöðu, enda hefur aðgerðum ekki verið beint gegn henni hingað til. En svo má brýna hvern hníf að bíti, reiðin ólgar í grasrótinni og ég býst við að ef lögreglan endilega vill óeirðir, þá geti hún fengið þær.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago