Jón Sigurðsson hefur líklega frétt af því að til stæði að fara með særingar gegn stóriðjustefnunni, því þegar ég mætti á Austurvöll í gærkvöld, var hann búinn að ná sér í þessa líka fínu níðstöng. Ég er ekkert hissa því það ógnar auðvitað sjálfstæði þjóðarinnar ef örfá risafyrirtæki yfirtaka allt atvinnulíf. Ég ók þarna fram hjá rétt áðan og hann heldur ennþá á stönginni og beinir henni að þinghúsinu.

Athöfnin heppnaðist ágæta vel. Ég fór með stuttan veðurgaldur í hádeginu í gær og veðrið varð frábært þótt liti svosem ekki út fyrir það um tvöleytið. Ekki svo að skilja að ég hefði neitt látið rigningu og rok stöðva mig, ef maður hefur ekki viljastyrk til að standa smástund úti í rigningu er ekki við því að búast að galdrar skili árangri en það er vissulega skemmtilegra að fá gott veður. Hljóðkerfið var líka svona stórfínt, mér er sagt að textinn hafi komist til skila um allan Austurvöll og ómurinn borist miklu lengra.

Allt mitt lið stóð sig vel. Amma alþýðunnar, klædd í frystihúsagalla, rassskellti þingmannsódámana sem gáfu samþykki sitt fyrir Kárahnjúkavirkjun af svo miklum myndarbrag að brúðan rifnaði. Ekki vildi ég hafa þá konu á móti mér.

 

Dansararnir og trommararnir voru búnir að búa sér til verulega flotta búninga og stóðu sig líka með prýði. Óeinkennisklæddu löggurnar stóðu sig að vísu ekki betur en svo að það var alveg greinilegt að þeir voru ekki í fríi. Þeir voru samt ekkert fyrir okkur, gerðu enga tilraun til að handtaka neinn og þar með að sjálfsögðu jafn velkomnir og allir aðrir. Það er ekki eins og ég hafi gert eitthvað ólöglegt svo nærvera löggunnar fer ekkert í taugnarnar á mér. Mér fannst hinsvegar hallærislegt að senda þá óeinkennisklædda, einkum af því að embætti þeirra fór ekki fram hjá neinum.

Þetta var heilmikil stemning og þegar ég var búin að gala seiðinn, gekk ég upp að stjórnarráði, með nornavönd og mannabein og lagði rúnaristu á tröppurnar. Bölrúnir gegn hverri þeirri ríkisstjórn sem lætur gróðabrall og spillingu stjórna ákvörðunum sínum í umhverfis- og orkumálum. Fyrrum borgarstjórn Reykjavíkur er búin að fá smjörþefinn af því sem getur hent þá sem misnota vald sitt og meira verður fall þeirrar ríkisstjórnar sem hundsar umhverfisjónarmið. Það liðu ekki nema 6 vikur frá því að við mögnuðum Halldóri Ásgrímssyni sauðshöfuð til brottvikningar af þingi og þar til hann sjálfur tilkynnti að hann ætlaði að hætta. Ef við sjáum jafn skjótan árangur af þessum særingum verð ég hæst ánægð.

Markmiðið var að vekja náttúruvættirnar til meðvitundar um stóriðjustefnuna og eggja þær til að skerast í leikinn, gefa ríkisstjórninni og stjórnendum orku- og álfyrirtækja eitthvað persónulegra að hugsa um svo þeir hætti að beina orku sinni að áformum um að eyðileggja Ísland og hrista rækilega bæði ríkisstjórnina, auðvaldið og jörðina undir Kárahnjúkavirkjun. Það eina sem getur orðið til þess að stóriðjusinnar breyti viðhorfum sínum eru stór áföll. Kárahnjúkavirkjun þarf að vekja mikinn ugg og verða skelfilegur fjárhagsbaggi til þess að fallið verði frá hugmyndum um að virkja hverja einustu lækjarsprænu á landinu.

Það er hræðilegt að þurfa að óska þjóð sinni áfalla en því miður hefur allt annað brugðist, öll skynsamleg rök, allar bænir um að landinu verði þyrmt hafa verið hundsaðar.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago