Leyfið börnunum að lifa í lyginni áfram

Þá er nú komið að því að blessaðir unglingarnir okkar ganga formlega í sértrúarsöfnuð sem kallast Þjóðkirkjan. Ekki til að taka virkan þátt í starfi hennar, heldur af því að flestir gera ráð fyrir því.

Sonur minn er á 17 ári og stendur utan trúfélaga. Ekki af því að hann hafi þörf fyrir trú. Ekki af því að hann hafi ekki áhuga á trúarbrögðum. Þvert á móti hefur hann mikinn áhuga á trúarbrögðum og reyndar hugmyndafræði almennt og þegar bekkjarsystkini hans fermdust sýndi hann miklu meiri áhuga á kristindómnum en nokkurt þeirra. Hann ræddi við a.m.k. þrjá presta í þeim tilgangi að fá svör við áleitnum spurningum; t.d. „hvaða hugmyndir hefur kirkjan um andaheiminn, upprisuna og lífið eftir dauðann?“ og „hversvegna mega samkynhneigðir ekki giftast í kirkju eins og annað fólk?“ Í flestum tilvikum varð blessuðum guðsmönnunum fátt um svör og einn þeirra sagði honum að það væri ekkert sniðugt hjá honum að vera að lesa Biblíuna, hann myndi skilja þetta allt saman seinna!

Það er svosem ósköp skiljanlegt að prestar séu ekkert hrifnir af því að athygli sé vakin á þeirri staðreynd að alþýðutrú Íslendinga og kenningakerfi kirkjunnar fara illa saman. Íslendingar eiga upp til hópa betri samleið með spíritistum en kirkjunni, þeir bara vita ekki að þeir eru skráðir í trúfélag sem lítur svo á að dauðir sofi í gröfum sínum. Sjálfsagt myndu margir skrá sig úr Þjóðkirkjunni ef þeir bara vissu að samkvæmt biblíunni eru þeir réttgrýtanlegir fyrir þá trú að langamma vaki yfir þeim, hafi jafnvel bein afskipti af lífi þeirra og sé reiðubúin að taka á móti þeim þegar þeir komi yfir móðuna miklu. Það er svosem ósköp skiljanlegt að prestar reyni að halda þessu leyndu fyrir fermingarbörnum, annars myndu börnin ekki fermast og þá gæti presturinn ekki borgað skuldirnar sínar og keypt í matinn. Það yrði líka lægra hlutfall af sköttum landsmanna sem rynni til kirkjunnar og því erfiðara að halda uppi blómlegu félagsstarfi nokkurra sérvitringa á kosnað almennings sem notar kirkjuna ekki til annars en að fermast, giftast, skíra börnin sín og hljóta greftrun.

Það er þó bót í máli að þeir sem skrá sig úr Þjóðkirkjunni þurfa samt ekki að leggja minna til trúarlífs þessa ákveðna sértrúarsöfnuðar en aðrir landsmenn. Ég borga að vísu ekki sóknargjöld en ég greiði það hlutfall sem aðrir greiða til þjóðkirkjunnar til Háskólans. Háskólinn þarf nefnilega að halda uppi guðfræðideild, svo við getum útskrifað fleiri presta til að ljúga að börnunum okkar. Og fyrst ég vil ekki borga starf kirkjunnar, þykir ekki annað en sjálfsagt að ég borgi þá í staðinn nám hinna geistlegu leiðtoga. Mér finnst þetta skrýtið, mjög skrýtið og þótt vegir Guðs kunni að vera órannsakanlegir, finnst mér nú tímabært að bera fram spurningar um hversu gott og siðlegt það sé hjá ríkinu að neyða mig til að borga fólki fyrir að ljúga að barninu mínu og hefta sjálfstæða leit þess að sannleikanum.

 

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago