Auðvitað er Guð til

Ég hef verið að velta fyrir mér annars vegar þeirri skoðun yfirlýstra trúleysingja að Guð sé ekkert annað en hindurvitni og hins vegar þeim rökum sem trúað fólk færir fyrir tilvist guðdómsins.

Rökin með og á móti

Rök trúleysingja eru fyrst og fremst þau að þar sem engar sannanir eða sterkar vísbendingar hafi fundist um tilvist Guðs, sé ekki eðlilegt að reikna með því að hann sé raunverulegri en t.d. einhyrningur eða aðrar goðsagnaverur.

Rök trúaðra eru t.d. þau að þótt vísindin hafi ekki skýrt fyrirbæri á borð við kærleikann, hafi fjöldi manns reynslu af honum og því sé óeðlilegt að hafna kærleikanum á þeirri forsendu að ekki sé hægt að sanna tilvist hans vísindalega og það sama gildi um trúna.

Reyndar er óþarfi að kíta um þetta því auðvitað er Guð til. Við vitum það af því að fjölmargir lifa í daglegu sambandi við hann. Hann er þannig til í sama skilningi og skáldsagnapersónur. Umræðan ætti kannski frekar að snúast um það hvort slíkar persónur eigi að fá að hafa áhrif á samfélagið.

Barnatrú og flokkunarkerfi

Ég held að það sem ræður úrslitum um það hvort fólk trúir sé sú afstaða sem við lærum í frumbernsku. Sá sem einu sinni hefur öðlast trú á Guð þarf virkilega að rökræða við sjálfan sig til að sleppa tökum á henni aftur og fólk sem aldrei hefur trúað á tilvist Guðs tekur sjaldan trú á fullorðinsárum nema eftir mikil áföll eða einstæða reynslu sem fellur ekki að venjulegri rökhugsun.

Um tveggja ára aldur erum við rétt að byrja að átta okkur á því að sumt sem við sjáum og heyrum um er raunverulegt, tilheyrir veröldinni sem við lifum í en annað ekki. Við sjáum ýmislegt í sjónvarpinu og bókum sem við höfum enga reynslu af en er engu að síður til. Með tímanum áttar barnið sig á því að ljón eru raunverulega til. Þau búa í Afríku og þangað getum við farið. Barnið uppgötvar líka að einhyrningar eru ekki til, enda þótt þeir virðist síst óraunverulegri en ljón og séu jafnvel nauðalíkir hestum, skepnum sem barnið þekkir af eigin raun.

Á þessum aldri hefst ákveðið flokkunarferli. Barnið flokkar fyrirbæri veraldar í raunveruleg og ævintýraleg. Stundum verða minniháttar árekstar, ég man t.d. ennþá þegar ég reifst við vinkonu mína um það hvort dreki, sem hún kallaði reyndar risaeðlu, væri raunverulegt dýr eða ekki. Niðurstaðan var “raunverulegt en útdautt” og lengi á eftir leitaði ég staðfestinga á því hvort goðsagnadýr hefðu dáið út eða væru skáldskapur frá rótum.

Í hvorum flokknum lendir Guð?

Meðan á þessu flokkunarferli stendur (2ja-8 ára) hafnar Guð í öðrum flokknum. Hann getur kannski lent á milli flokka tímabundið, eins og risaeðlurnar en á endanum tilheyrir hann öðrum flokknum og aðeins öðrum flokknum. Ef hann lendir í raunverulega flokknum verður barnið trúað og ekkert getur fengið það ofan af þeirri skoðun að Guð sé til. Það kann að efast um sannleiksgildi trúarkenninga, það þarf ekki að hafa minnsta áhuga á trúarlífi og því þarf ekki endilega að líka vel við Guð en hann er engu að síður jafn raunverulegur í huga þess og ljónin úti í Afríku. Ef Guð lendir hins vegar í ævintýraflokknum, þá verður barnið ekki trúað nema það verði fyrir sálrænni reynslu sem breytir algerlega heimsmynd þess. Það kann að hafa mikinn áhuga á trúarbrögðum, vera yfir sig hrifið af Jesú eða Múhammeð og hafa ríka trúarþörf en það bara trúir ekki, ekki frekar en fólk verður ástfangið bara af því að það hefur þörf fyrir maka.

Við getum ekki hafnað reynslu fólks

Við getum heldur ekki hafnað tilvist ananuglunnar

Ég held að einmitt þetta ráði mestu um það að trúað fólk og trúleysingjar geta ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um tilvist guðdómsins. Þetta snýst ekki um rök, trú eða vísindi, heldur flokkunarkerfi sem er harðvírað allt frá leikskólaaldri.

Við getum ekki hafnað kærleikanum. Hins vegar er það ekkert annað en ævintýraleg tálsýn að ástin sé merki um að tvær mannverur hafi verið útvaldar til þess að gera hvor aðra hamingjusamar, lifa saman sem eitt í ævilangri sælu sem engar hörmungar nái nokkurntíma að yfirskyggja. Þótt okkur líði eins og þetta hljóti að vera raunin á meðan við erum ástfangin, lærum við fljótt að þetta er tálsýn. Við getum ekki hafnað ástinni en við getum hafnað mjög algengum hugmyndum um hana.

Við getum heldur ekki hafnað því að fólk hafi persónulega reynslu af Guði og öðrum yfirnáttúrulegum verum og þess vegna hljóta þær að vera til. Spurningin er hinsvegar hvort þær eru til í raunheimum eða aðeins í heimi trúar og tálsýnar. Við getum kannski ekki hafnað reynslu þess sem segist hafa séð álfa en við getum auðveldlega hafnað því að mikil ógæfa dynji yfir ef við setjum ekki grautarskál út á tröppur handa búálfinum á jólanótt. Við þekkjum einfaldlega of mörg dæmi um að fólk lifi fullkomlega eðlilegu og áfallalausu lífi þótt það fóðri búálfinn aldrei nokkurn tíma.

Guð er til á sama hátt og álfar og einhyrningar

Við getum ekki hafnað tilvist Guðs. Það eru einfaldlega of margir sem hafa reynslu af honum til að hægt sé að hafna tilvist hans. Hann er til, rétt eins og ástin og búálfurinn. Hvort hann er skapari heimsins er annað mál. Það getum við ekki sannað. Hvort hann er algóður og almáttugur er umdeilanlegt, sjálfri finnst mér sú hugmynd hreint ekki ganga upp.

Hvort hann hefur einhvern sérstakan vilja og hver sá vilji er, er einnig mál sem lengi má velta vöngum yfir. Á tímum Jesú var það t.d. vilji Guðs að hórur væru grýttar á götum úti. Á miðöldum var það vilji Guðs að galdrafólk væri brennt. Á tímum seinni heimstyrjaldarinnar var það vilji Guðs að Þjóðverjar dræpu Gyðinga. Í dag er það vilji Guðs að Palistínumenn séu hraktir frá heimkynnum sínum og drepnir ef þeir sýna mótspyrnu.

Mín niðurstaða er sú að Guð sé til, í hugum þeirra sem á hann trúa, rétt eins og önnur þau mannanna verk sem tilheyra ævintýraheiminum. Vilji hans er sá sem manninum hentar hverju sinni.

 

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago