Reykurinn út af heimilinu og félagslífið með

Ég er nýflutt til Reykjavíkur eftir áralanga félagslega einangrun úti á landi hef ég síðustu vikurnar varið talsvert miklum tíma til að hitta gamla vini og kunningja. Ég verð vör við ákveðinn mun á því hvernig félagslegum samskiptum fólks er varið á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi en mér finnst einnig margt hafa breyst í þessum efnum á 10 árum. Það virðist t.d. vera orðið óviðeigandi höfuðborgarsvæðinu að banka upp á án þess að gera boð á undan sér og þegar ég hringi í vinkonur mínar og sting upp á því að þær komi við hjá mér og drekki með mér kaffibolla (án nokkurrra formlegheita) vill viðkomandi oftar en ekki hitta mig á kaffihúsi.

Félagslífið virðist þannig vera að færast út af heimilum fólks, allavega í Reykjavík og nágrenni. Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna, því maður hefði haldið að heimilið væri notalegri staður til að spjalla saman auk þess sem kaffið heima er bæði betra og ódýrara. Varla er fólk að hugsa um að fá frið fyrir börnunum sínum því iðulega ná þau (og reyndar fullt af öðru fólki) að eyðileggja slíka kaffihúsafundi með því að vera í miklu og stöðugu símasambandi en fáir virðast átta sig á því að hægt er að slökkva á gsm-símanum. Reyndar finnst mér börn yfirleitt vera til minni truflunar ef þau vita af mömmu í eldhúsinu en ef hún bregður sér af bæ auk þess sem auðvelt er að hrekja börnin úr eldhúsinu með því bara að reykja nógu helvíti mikið.

Mér þykja kaffihús ekki nærri eins notalegir staðir og eldhúsið mitt og ég var satt að segja hálf-fúl yfir þessu fyrirkomulagi þar til það rann upp fyrir mér að skýringin er í raun mjög skynsamleg. Fólk vill hittast á kaffihúsum af því að þar má reykja. Ég leyfi ekki reykingar heima hjá mér, þessvegna kemur enginn í heimsókn. Fólk vill heldur ekki að allur stórvinahópurinn spúi reyk yfir heimili þess jafnvel þótt það reyki sjálft heima og það er ánægjulegra að fjarstýra börnunum í gegnum síma en að þurfa stöðugt að reka þau út úr eldhúsinu til að forða þeim frá níkótíneitrun. Heimilin eru smámsaman að verða reyklaus og því sækir fólk á kaffi hús til að sjúga í sig hvern eiturstöngulinn á fætur öðrum, fremur en að sóðast við það heima hjá sér. Þetta er í rauninni jákvætt, fyrir alla aðra en þá sem ekki þola tóbaksreyk en nú er svo komið að með því að reykja ekki á maður á hættu að dæma sjálfan sig til félagslegrar einangunar; enginn kemur í heimsókn og allur reykurinn sem áður dreifðist á heimili og vinnustaði er kominn inn á kaffihúsin svo maður þolir ekki við þar nema stutta stund.

Nú er ég svo heppin að hafa sveigjanlegan vinnutíma og þar sem ég þoli tóbaksreyk illa og er auk þess kvöldsvæf, finnst mér illskárra sækja kaffihús að deginum. Það er þó fjáranum erifðara að fá vini og kunningja til að mæta á kaffihús fyrir kvöldfréttir því það eru jú allir að vinna og sinna heimili. Og á kvöldin er reykurinn á kaffihúsunum ennþá þykkari, væntanlega af því að þá er fólk hætt að vinna (þar sem það má ekki reykja) og flykkist á kaffihúsin til að forðast hreinsunaraðgerðir bifháranna með tilheyrandi óþægindum. Því spyr ég, hvernig stendur á því að Kringlan er alltaf troðfull af fólki, allan daginn, alla daga vikunnar? Þarf þetta fólk ekkert að vinna? Varla er svona margir í vaktavinnu eða með frjálsan vinnutíma? Eru það bara vinir mínir sem eru svona uppteknir eða er það goðsögn að Íslendingar vinni svo ógurlega mikið? Eða fær fólk að skreppa aðeins úr vinnunni til þess að fá sér smók og álpast aðeins á útsölur í leiðinni?

Eva Hauksdóttir

Share
Published by
Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago