Af hverju tekur Ingibjörg Sólrún ekki frí?

Fátt ef nokkuð hræðir mig meira en krabbamein. Það er andstyggilegur sjúkdómur og ég held að mér gæti aldrei orðið svo illa við nokkurn mann að ég fyndi ekki til með honum ef hann stæði frammi fyrir þeim ófögnuði.Þótt ég hafi fyrir löngu misst allt álit á Ingibjörgu Sólrúnu sem stjórnmálamanni, hef ég ekkert á móti henni sem manneskju. Hún og fjölskylda hennar eiga samúð mína alla og ég óska henni góðs bata. Það verður þó ekki fram hjá því litið að Ingibjörg Sólrún er í valdastöðu í samfélagi sem er gegnsýrt af spillingu. Það fer ekki hjá því að viðbrögð hennar í alvarlegum veikindum veki nokkrar áleitnar spurningar og fyrst ég sé engan annan varpa þeim fram, er best að ég taki af skarið og segi það sem aðrir láta sér nægja að hugsa.

-Hvaða almannahagsmunir knýja ráðherra til að standa beint upp úr heilaskurðaðgerð og taka til við að stjórna landinu?

Af hverju tekur manneskjan sér ekki frí? Krabbamein hlýtur að vera áfall, ég tala nú ekki um þegar það leggst á heilann. Allir sem hafa fylgst með fólki í krabbameinsmeðferð gera sér grein fyrir því að slík meðferð er mikið álag. Ingibjörg Sólrún gegnir embætti sem hefur í sjálfu sér mikið álag í för með sér og við þær samfélagsaðstæður sem eru uppi um þessar mundir, virðist venjulegu fólki það ganga brjálsemi næst að standa nánast beint upp úr heilaskurðaðgerð og taka til við að sinna einni af mestu ábyrgðarstöðum landsins. Nú er hún á leið í geislameðferð og enn er stefnan að liggja ekki fyrir lengur en meðalmaður með gubbupest. Eru læknarnir hennar sáttir við þessar áherslur? Mér finnst þetta ekki hljóma eins og Ingibjörg sé svona rosalega samviskusöm, heldur virðist hún vera að gæta hagsmuna sem hún setur ofar líkamlegri og andlegri heilsu sinni. Eru það hagsmunir almennings, hagsmunir flokksins eða hagsmunir fámennrar klíku? Ég geri mér grein fyrir að spurningin er ósmekkleg, það er aldrei neitt dannað við að setja fram óþægilegar spurningar og allra síst gagnvart fólki sem á um sárt að binda, en er það ósanngjarnt að spyrja um tilgang og forsendur þegar æðstu ráðamenn í þessu spillingarbæli okkar sýna hegðun sem samræmist engri skynsemi?

-Af hverju fer hún í meðferð til útlanda og hver borgar þá meðferð?

Er íslenska heilbrigðiskerfið svona aftarlega á merinni? Höfum við ekki lækna og aðstæður til að ráða við þennan sjúkdóm? Fara sjúklingar með þessa tegund krabba almennt til útlanda til að leita sér lækninga? Ég hef ekkert vit á krabbameini og er ekki viss um þetta en ef svarið er nei, ef Ingibjörg Sólrún fer til Svíþjóðar til að fá læknismeðferð sem er í boði hér, þá er sanngjarnt og eðlilegt að spyrja; hver borgar? Þessi spurning er líka ósmekkleg, vissulega. En í samfélagi þar sem þegnarnir eiga að sitja við sama boð hvað varðar heilsugæslu, þá er þessi ósmekklega spurning samt sem áður sanngjörn.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago