Ólafur Ragnar er sumsé ákveðinn í að halda áfram. Og alveg búinn að gleyma því að hann bauðst til þess af göfuglyndi sínu að sitja tvö ár í viðbót. (Einar Karl kjarnhreinsaði framboð Ólafs hér, jafnvel Lára Hanna hefði ekki skafið jafn snyrtilega utan af honum.)

Ég hef greinilega ofmetið skynsemi ÓRG. Ég hélt í alvöru að hann myndi draga framboð sitt til baka með þeim orðum að eins og hefði komið fram í áramótaávarpinu væri hann farinn að huga á önnur mið og fyrst væru komnir fram frambærilegir kandídatar, treysti hann því að þjóðin myndi sýna sér skilning.

Þetta hefði verið flott pólitískt múv. Kannski ekki beinlínis hressandi en allavega svona frekar virðulegt. Margir hefðu túlkað það þannig að hann væri „stíga til hliðar“ fyrir óléttri Samfylkingarkonu á meðan hann mældist ennþá með nógu mikið fylgi til þess að eiga möguleika á að vinna, og þar með væri hann orðinn sérstakt göfugmenni. Aðrir hefðu sagt að hann væri svo skynsamur að sjá að nú væri þetta orðið gott. Hann hefði með því að draga sig í hlé núna, gefið þá mynd af sér að hann sé sjálfum sér samkvæmur, jarðbundinn maður sem þekkir sinn vitjunartíma. Það kæmi á allan hátt betur út en að tapa kosningum og enda þótt hann vinni núna, þá er ótrúlegt að hann geti aukið vinsældir sínar með því að sitja eitt kjörtímabil í viðbót.

ÓRG er hressasti forseti Íslendinga hingað til. Hann sýndi ákveðna dirfsku og hristi svona aðeins upp í hugmyndum okkar um það hvernig forsetaembættið eigi að vera. Hann hefur haft pólitísk áhrif og notið töluverðra vinsælda. Hann setti niður með útrásardýrkun sinni en náði endurreisn með því að synja Icesave lögunum staðfestingar. Með því að sækjast eftir embættinu enn eitt kjörtímabilið er Ólafur sennilega búinn að klúðra möguleikanum á því að sagan minnist hans fyrst og fremst sem mannsins sem virkjaði „málskotsréttinn“ en það hefði verið glæsilegur endir á forsetaferli hans. Það er hinsvegar ekki glæsilegur endir að tapa kosningum fyrir manneskju sem hefur ekkert það til að bera sem gerir hana að verðugum andstæðingi.

Ólafur Ragnar var hressi gaurinn í 16 ár. Nú er líklegt að hann tapi fyrir frambjóðanda sem hefur ekkert fram yfir hann og reyndar þann stærsta og kannski eina kost að vera ekki Ólafur Ragnar. Og það er ekki töff ósigur.  Að grenja svo yfir því hvað RÚV hafi farið illa með hann og þræta í þokkabót fyrir að hafa sagt það sem hann sagði, það er ekki svalt heldur. Eiginlega bara mjög vansvalt.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago