Ég hef heyrt þá skoðun að áfengi sé undirrót alls ills.

Venjulega er það fólk sem hefur misst stjórn á lífi sínu vegna ofdrykkju sem lýsir þessu viðhorfi, eða fólk sem bregst við áfengisáhrifum með hegðun sem það er verulega ósátt við eftir á og hefur komist að þeirri niðurstöðu að best sé að sleppa því bara að drekka. Einnig fólk sem hefur orðið fyrir barðinu á því tillitsleysi sem einkennir virka alkóhólista eða jafnvel misst ástvini sína í geðveikina eða dauðann.

Áfengi er vandmeðfarið í höndum óvita og þeirra sem eiga erfitt með að stjórna neyslu sinni. Ef út í það er farið eru flest voðaverk í okkar samfélagi framin undir áhrifum áfengis og það er nú ein ástæða þess að við teljum það ekki á færi barna að taka ákvörðun um að neyta þess og bjóðum ekki upp á það með tíukaffinu á vinnustöðum.

Hitt er svo annað mál að voðaverk eru einnig framin án þess að það komi áfengi nokkuð við. Hermenn eru ekki fullir í vinnunni. Breivik var ekki fullur. Hryðjuverkastarfsemi er ekki óþekkt í löndum múslima, þar sem áfengisneysla er illa séð og aðgengi að áfengi slæmt. Það er ekki að sjá að kerfisbundin mannréttindabrot og umburðarlyndi gagnvart glæpum standi í neinu sambandi við áfengisneyslu.

Svo hér stöndum við frammi fyrir þversögn.

-Við vitum að drykkjuskapur leiðir til geðveiki, ofbeldis og dauða.

-Samt er reynsla okkar sú að þar sem aðgengi að áfengi er best er mannhelgin mest.

En auðvitað er þetta ekki raunveruleg þversögn. Flest okkar vita nefnilega alveg að þótt áfengi hafi þau áhrif á örfáar manneskjur að þær grípa til ofbeldis sem þær myndu ekki fremja algáðar, er fráleitt að halda því fram að áfengi valdi beinlínis ofbeldisverkum. Flestir þeirra sem neyta áfengis eru ekkert geðveikir og lemja engan og fólk drekkur sjaldnast áfengi til að koma sér í ofbeldisham. Markaður fyrir áfengi þrífst vegna þess að mörgum þykja áfengisáhrif eftirsóknarverð og eru tilbúnir til að borga fyrir þau. Fólk sem ekki er haldið þeim mun alvarlegri áfengisfíkn, þróar með sér smekk og vill frekar drekka vatn en verulega vont vín. Áfengi er í sumum tilvikum hluti af menningu okkar án þess að snúast fyrst og fremst um áhrifin, það þykir viðeigandi að skála við ákveðin tækifæri og fólk þarf ekki að vera á leiðinni á fyllirí til þess að taka þátt í því.

Til eru menn sem enn í dag vilja láta banna áfengi á þeirri forsendu að það leiði til voðaverka. Ég get skilið þá afstöðu fólks sem á um sárt að binda vegna ofdrykkju sinnar eða annarra en forsendan er nú samt sem áður röng.

Sjálfsagt eru þeir líka til sem eru nógu djúpt sokknir í rétttrúnað til að halda því fram að sjálft markmiðið með framleiðslu, markaðssetningu og neyslu áfengis, sé það að grafa undan grunnstoðum samfélagsins, stuðla að ofbeldi og mannfyrirlitningu og kúga fólk til hlýðni. Þar brestur skilning minn og mig langar að vita hvort er til fræðiorð yfir þá tegund af heimsku.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago