Síðasta sumar lagði ég litla bílnum mínum á veginum að Hellisheiðarvirkjun. Tilgangurinn var sá að vekja athygli almennings og einkum starfsmanna Hellisheiðarvirkjunar á tengslum áliðnaðarins við hergagnaframleiðslu og tengslum Orkuveitu Reykjavíkur við áliðnaðiinn. Nú hefði sjálfsagt einhver haldið að það væri óþarft að vekja athygli á því sem allir vita en í ljós kom að öryggiseftirlitsmaður á staðnum taldi víst að Hellisheiðarvirkjun þjónaði eingöngu venjulegum heimilum, stofnunum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og hafði aldrei heyrt nefnt að hún tengdist Century á nokkurn hátt. Eða svo sagði hann mér. Þetta athæfi mitt, að leggja bílnum á þessum stað, sem var eina aðkoma mín að þessari aðgerð, taldist svo glæpsamlegt að ég var handtekin við áttunda mann og verð væntanlega dæmd fyrir skipulagða glæpastarfsemi, núna um miðjan apríl.

Í dag sat ég annan daginn í röð í bílalest vegna aðgerða vörubílstjóra og annarra trukkakalla. Ég tek því fagnandi að fá tækifæri til að hanga í bílnum í klukkutíma af slíku tilefni. Að vísu er margt sem mér sjálfri þætti meiri ástæða til að mótmæla en bensínverð en hver og einn ræður því að sjálfsögðu hvort og hverju hann mótmælir og það að sjá þessa samstöðu og eftirfylgni, fyllir mig nýrri trú á mannkynið. Ef stórir menn á stórum bílum eru tilbúnir til að mótmæla bensínverði, því skyldu þá ekki vera til stórir menn á stórum bílum sem eru reiðubúnir til að valda smávægilegu veseni til varnar þeim sem eiga á hættu fangelsun, pyndingar og jafnvel dauða, fyrir það eitt að segja það sem aðrir hugsa og spyrja óþægilegra spurninga? Svo eykur það enn tiltrú mína á gæsku mannanna þegar bílstjórarnir koma og biðjast afsökunar á óþægindunum og færa manni vöfflu með sultu og rjóma. Það er bara svo táknræn athöfn til að árétta að þetta sé ekkert persónulegt. Sætt af þeim.

Ég óska vörubílsstjórum alls góðs og vona að enginn þeirra verði fyrir neinu böggi út á þetta en eitt þykir mér samt stórmerkilegt í ljósi fyrri reyslu; þessir bílstjórar hafa lokað mikilvægum umferðaræðum og verið ásakaðir um að skapa hættu á því að sjúkrabílar og slökkvilið komist ekki til að sinna neyðarkalli en ég hef þó engar fréttir heyrt af því að neinn þeirra hafi verið handtekinn. Af því má ráða þetta: Lögreglan lítur það alvarlegri augum að hindra greiðustu ökuleið að Hellisheiðarvirkjun (vel var hægt að aka bílum að virkjuninni utanvegar og við tókum skýrt fram við eftirlitsmenn að aðgerðum yrði þegar í stað hætt ef þyrfti að koma sjúkrabíl á staðinn) en að tálma för sjúkrabíla um Kringlumýrarbraut og aðrar stórar götur.

Nema sú ósennilega skýring eigi við rök að styðjast að handtökur snúist ekki alltaf um meint lögbrot heldur eitthvað allt annað. Líklega þarf heldur meira hugrekki til að handtaka marga stóra karla á stórum bílum en eina litla konu á litlum bíl.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago