Við geðfargi þínu þungu …

Líklegt verður að teljast að þungt farg hvíli á geði innanríksráðherra þessa dagana. Þó gæti ráðherrann auðveldlega losað sig undan sálarstríðinu, létt af sér geðfargi sínu þungu, með því bara að segja af sér. Það væri reyndar skynsamlegt að gera áður en þing kemur saman á ný því fastlega má gera ráð fyrir að ábyrgð ráðherra á lekamálinu komi til umræðu á Alþingi og gætu þær umræður auðveldlega valdið miklu geðfári.

Ég velti því annars fyrir mér hvort þeir þingmenn sem hafa ekki hug á að lýsa vantrausti á innanríkisráðherra séu búnir að gleyma því að þeir hafa lögum samkvæmt eftirlitsskyldu með störfum ráðherra, eða hvort þeim sé bara sama um skyldur sínar. Ráðherra situr í skjóli Alþingis. Það er því ekki sakleysislegt umburðarlyndi að þola setu ráðherra í embætti heldur eru þingmenn með aðgerðarleysi sínu að samþykkja að láta tilteknum einstaklingi eftir mikil völd yfir heilum málaflokki. Það er ekki léttvæg ákvörðun.

Ég velti því líka fyrir mér hvort þeir málsmetandi menn sem telja að engin ástæða sé til þess að ráðherra segi af sér hafi aldrei heyrt um svonefnda ráðherraábyrgð. Rökin eru þau að það séu undirmenn ráðherra en ekki hún sjálf sem eru sakaðir um refsiverða háttsemi.  Í ráðherraábyrgð felst meðal annars það að ráðherra ber alla ábyrgð á öllu því sem gerist á vegum ráðuneytisins. Miklum völdum fylgir nefnilega mikil ábyrgð, að minnsta kosti samkvæmt lögum, þótt íslenskar valdaklíkur beri að því er virðist litla virðingu fyrir þeim lögum.

Áhugaverðasta alþýðuskáld 20. aldarinnar gekk ekki á fund ráðherra til þess að fá hjá honum neina fyrirgreiðslu, taldi enda víst að það yrði sneypuför, heldur til þess að gefa honum gott ráð við geðfargi sínu þungu. Með orðum skáldsins:

heldur gefa þér gott ráð herra ráðherra
við geðfargi geðfári geðstríði geðkrabba geðmeini þínu þungu:

Oft hafa þessi orð átt vel við en sjaldan betur en einmitt nú. Því hvet ég innanríkisráðherra til að taka til sín það heillaráð að segja nú af sér áður en þing kemur saman. Eða svo ég orði það með tæpitunguleysi þjóðskáldsins [Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra:]

skríddu ofaní öskutunnuna afturábak með lafandi tungu.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago