Í seinni heimsstyrjöldinni voru íslenskar stúlkur sem leyfðu sér að umgangast erlenda hermenn fangelsaðar fyrir vikið og beittar harðræði. Svo virðist sem fáir hafi þá leyft sér að gagnrýna þetta opinberlega og framáfólk í samfélaginu var fremst í flokki í þessum ofsóknum.
Árið 1951 stóðu dönsk yfirvöld fyrir því að 22 grænlensk börn voru tekin af heimilum sínum og flutt til Danmerkur, í óþökk foreldra þeirra. Þau áttu að læra að verða fyrirmynd annarra grænlenskra barna þegar þau sneru aftur til heimalandsins ári síðar, þar sem þeim var komið fyrir á sérstökum barnaheimili, en ekki hjá eigin fjölskyldum.
Samtökin Barnaheill (Red Barnet) og Rauði Krossinn í Danmörku sáu um framkvæmdina. Börnunum farnaðist mörgum illa í lífinu, og sum styttu sér aldur.
Á sjötta og sjöunda áratugnum voru ungir drengir teknir af heimilum sínum og sendir vestur í Breiðavík þar sem þeim var misþyrmt andlega og líkamlega. Allt var þetta á vegum yfirvalda, og aftur voru ýmsir „virtir“ góðborgarar með í ráðum og fáir sem hreyfðu andmælum opinberlega.
Langt fram á nítjándu öld voru börn undir tíu ára aldri látin vinna allt að sextán tíma á dag í Bretlandi, meðal annars í kolanámum.
Fyrir tvö hundruð árum var þrælahald útbreitt í Bandaríkjunum, og þurfti borgarastyrjöld löngu síðar til að útrýma því.
Í öllum þessum tilfellum, og ótalmörgum öðrum, voru framin grimmdarverk á varnarlausu fólki, með þegjandi samþykki samfélagsins, og jafnvel litið á þau sem sjálfsagðan hlut. Svo snerist almenningsálitið og í dag eru allir sammála um að fordæma það sem okkur finnst augljós grimmd.
En þeir sem voru uppi á þessum tímum gátu fæstir séð nokkuð athugvert við það sem síðar var fordæmt sem óbærilegt mannúðarleysi. Þannig var þrælahaldið almennt álitið sjálfsagt árið 1800 í Bandaríkjunum og barnaþrælkunin í Bretlandi fyrir rúmum hundrað árum. Á Íslandi var álitið eðlilegt upp úr 1940 að refsa ungum konum harðlega fyrir að umgangast hermenn. Tuttugu árum síðar var sjálfsagt mál að rífa unga drengi frá fjölskyldum sínum og vinum og koma þeim fyrir í vist þar sem níðst var á þeim varnarlausum. Og í dag, árið 2015 er álitið fullkomlega eðlilegt að …
Já, hvað gæti það verið í dag sem við kippum okkur ekki upp við en verðum fordæmd fyrir eftir hundrað ár? Því varla var fullkomnun mannsandans náð á sviði mannúðar í fyrra? Eða erum við einmitt endastöð hinnar mannlegu fullkomnunar?
Einnig birt hér