Sumt fólk telur að Tony Omos eigi ekki að fá landvistarleyfi á Íslandi, af því að sé hann ekki örugglega sekur, þá sé að minnsta kosti líklegt að hann sé sekur um glæpi (og það fólk virðist engu máli skipta að engar áreiðanlegar vísbendingar séu um það). Þetta fólk telur að mannréttindin sem flóttafólk á almennt að njóta eigi ekki að gilda um Tony, af því að hann sé sennilega ekki nógu góð manneskja til þess.
Margir telja að bænafólkið sem vill mótmæla fóstureyðingum (friðsamlega) við Landspítalann eigi ekki að fá að njóta þess tjáningarfrelsis að mótmæla á almannafæri, af því að skoðanir þess geti sært annað fólk.
Í báðum tilfellum er talað fyrir því að gera undantekningar frá þeirri meginreglu að mannréttindi eigi að gilda fyrir alla, og að það megi ekki takmarka þau nema ríkir almannahagsmunir séu í veði. Í báðum tilfellum er verið að krefjast þess að mannréttindi gildi ekki fyrir tiltekið fólk sem vill njóta þeirra.
Ég sé engan afgerandi mun á þessum tveim málum frá sjónarhorni mannréttinda, bara hliðstæðu. Og vísasta leiðin til að mola úr mannréttindum er að verja þau ekki skilyrðislaust.