Rangfærslur og útúrsnúningar Hönnu Birnu

Mikið hefur verið fjallað um sjónvarpsviðtölin við Hönnu Birnu á Stöð 2 og í Kastljósi í fyrrakvöld, sem og fyrri yfirlýsingar hennar um lekamálið.  Ekki er vanþörf á, því Hanna Birna hefur ekki skirrst við að ljúga að Alþingi, og það oftar en einu sinni, auk þess sem hún vék sér hjá því að svara öllum spurningum í umræddum viðtölum.  Í staðinn fór hún út í móa í miðri fyrstu setningu á eftir hverri slíkri spurningu.  Hanna Birna er útsmogin í þessari iðju, og hún er líka nógu laus við þær siðferðiskröfur sem nokkurn veginn heilbrigt fólk gerir til sjálfs sín, en það er líklega nauðsynlegt til að halda út svo lengi að fara með endalaus og augljós ósannindi um sama málið.

Tvennt hef ég þó ekki séð fjallað um enn í fjölmiðlum af útúrsnúningum Hönnu Birnu.
Í fyrsta lagi hefur Hanna Birna endurtekið talað um að það þyrfti sérstakar verklagsreglur (sem hún gefur í skyn að séu ekki til) þegar lögregla rannsakar sakamál sem beinast gegn starfsmönnum ráðuneytis.  Ég get ekki ímyndað mér annað en að lögregla hafi verklagsreglur um hvernig staðið skuli að rannsókn sakamála.  Og haldi Hanna Birna að þær eigi að vera með öðrum hætti þegar ráðuneytisstarfsmenn eiga í hlut hefur hún ekki áttað sig á að gagnvart lögunum eiga allir að vera jafnir.  En það er ekki í fyrsta, og ekki í annað eða þriðja, skiptið sem hún afhjúpar algera vanþekkingu á því réttarkerfi sem hún hefur verið æðsta vald yfir.
Eigi Hanna Birna við að það þurfi sérstakar verklagsreglur þegar lögregla rannsakar yfirmann sinn, þá eru þær „reglur“ til í öllum nágrannalöndunum.  Þær eru hluti af því sem kallað er „siðferði“ og í málum af þessu tagi víkur ráðherra einfaldlega strax þegar svona stendur á.  Ekki 16% heldur hundrað prósent.
Í öðru lagi hefur Hanna Birna hamrað á því að hún hafi nauðsynlega þurft að tala við lögreglustjórann sem stýrði rannsókninni af því að í ráðuneytinu sé svo mikið af trúnaðargögnum sem megi ekki fara á flakk.  Þetta er ómögulegt að skilja öðru vísi en svo að Hanna Birna telji að lögreglan brjóti reglulega trúnað þegar hún fæst við viðkvæm gögn sem oft koma fyrir í rannsóknum hennar.  Því miður hefur ekkert fréttafólk enn spurt Hönnu Birnu hvort hún telji að slík lögbrot séu algeng innan lögreglunnar, og af hverju hún hafi ekkert gert í því fyrr, verandi æðsti yfirmaður hennar.
Við þetta má svo bæta annarri sérkennilegri staðhæfingu, frá forsætisráðherra, sem RÚV hefur útvarpaðán þess að gera athugasemdir.  Hann sagði
„Ég held að það séu mannréttindi allra, þar með talið ráðherra að menn fái andmælarétt þegar þeir eru sakaðir um hluti,“
(Þetta var reyndar í annað skipti sem þetta birtist í fréttum RÚV, en ég finn ekki fyrri fréttina, enda er vefur RÚV með því lélegasta sem þekkist á netinu.)
Í fyrsta lagi hefur Umboðsmaður Alþingis ekki sakað Hönnu Birnu um eitt né neitt.  Og í öðru lagi á andmælaréttur alls ekki við það sem forsætisráðherrann er að tala um hér, eins og sjá má í stjórnsýsluögum:
13. gr. Andmælaréttur.
 Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Umboðsmaður er ekki stjórnvald, og hann hefur ekki tekið neina ákvörðun í máli Hönnu Birnu, heldur einungis farið fram á svör hennar við spurningum.  Það hefur hann reyndar gert tvívegis áður, svo Hanna Birna hefur fengið, og hefur enn, næg tækifæri til „andmæla“.

En, það kemur kannski ekki á óvart að við málum réttarkerfisins sé að taka maður  (forsætisráðherra) sem hefur jafn lítinn skilning á því og fyrirrennarinn …

Einnig birt hér