Eru Samtökin 78 á rangri leið?

Það er varla ofmælt að virðingin fyrir réttindum samkynhneigðra á Íslandi hafi gerbreyst á skömmum tíma.  Það eru örfáir áratugir síðan mörgu samkynhneigðu fólki fannst sér varla vera líft á Íslandi vegna fordóma og útskúfunar.  Í dag, eins og síðustu árin, tók nær helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins þátt í Gleðigöngunni, og þær örfáu manneskjur sem leyfa sér að tala niðrandi um samkynhneigða á opinberum vettvangi eru úthrópaðar svo að þær eiga sér varla viðreisnar von á eftir.

Hafi mér ekki yfirsést mikið í baráttunni fyrir jafnrétti til handa samkynhneigðum hefur hún nánast eingöngu verið háð með jákvæðum formerkjum.  Í stað þess að leggja áherslu á að úthúða þeim sem hafa haft neikvæða afstöðu, og sýna samkynhneigða sem fórnarlömb ofsókna (sem þeir hafa vissulega stundum verið), hefur áherslan verið á að sýna samstöðu með réttindum þeirra, og reyndar einnig á að kynna ýmiss konar kynhneigð aðra en gagnkynhneigð og samkynhneigð sem sjálfsagða og eðlilega.
Í Gleðigöngunni í gær báru Samtökin 78 nokkur spjöld með niðrandi og hatursfullum ummælum um samkynhneigða, ummælum sem tekin höfðu verið af Facebook.  Markmiðið virðist vera að sýna að enn sé til fólk með ógeðfelldar hugmyndir um samkynhneigð, fólk sem er tilbúið að ausa úr sér óþverranum á samfélagsmiðlum.
Það ætti engum að koma á óvart að fordómar gegn samkynhneigð séu ekki algerlega horfnir úr samfélaginu.  Slíkar hugmyndir deyja varla fullkomlega út á örskömmum tíma.  Það eru því engin tíðindi að hægt sé að finna ummæli af þessu tagi, auk þess sem við vitum ekkert um hugarástand, eða almennt sálarástand, þeirra sem létu þau falla.
Þegar svo gríðarlegur árangur hefur náðst sem raun ber vitni, á svo skömmum tíma, og ekkert bendir til að hægt sé að eyðileggja þann árangur, er þá skynsamlegt af samtökunum sem eiga heiðurinn af þessum glæsilegu sigrum að pakka í hatramma „vörn“ gegn einstaka eftirlegukindum sem spúa hatri sínu úr stöku skúmaskoti?  Er ástæða til að ætla að einhver hætta stafi af þessu fólki?  Er kannski hugsanlegt að andúð þeirra fáu sem eftir eru í fordómunum espist við það að þeim sé veitt þessi athygli?
Nú má vera að ég hafi ekki fylgst nógu vel með Samtökunum 78, en ég tók í fyrsta skipti eftir þessum neikvæða málflutningi af hálfu samtakanna fyrir ári eða svo.  Núverandi formann hef ég líka heyrt halda því fram, án þess að benda á neitt annað en „tilfinningu“ ótilgreinds fólks, að ástandið sé að versna; að  samkynhneigt fólk finni fyrir meiri fordómum.
Það er segin saga að þeir sem vilja sjá slæmt ástand sjá það; heimsósómaraus hefur fylgt mannkyninu frá því sögur hófust.  Það er til dæmis afar algengt að fólk haldi að ofbeldi, og harkan í því, hafi aukist á svæðum þar sem gögn segja allt annað.  Ég efast um að það sé gagnlegt fyrir samkynhneigða, og okkur öll sem viljum að allri mismunun gegn þeim sé útrýmt, að hefja nú „fórnarlambsvæðingu“ samkynhneigðra.
Ég hef meiri trú á því að áframhaldandi jákvæð umfjöllun um alls konar kynhneigð, sem ekkert lát er á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, sé vænlegasta leiðin til að hrekja þá sem enn eru forpokaðir út í dagsbirtuna, þar sem þeim verður ljóst hvað hún er miklu betri en myrkur fordómanna.

Deildu færslunni