Er Félagsvísindastofnun í ruglinu?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, ætlar að stjórna rannsókn sem fram fer á vegum Félagsvísindastofnunar skólans, þar sem á að meta „erlenda áhrifaþætti“ bankahrunsins 2008.   Hannes er náinn vinur og pólitískur samherji ýmissa þeirra sem léku stór hlutverk í hruninu, svo sem Davíðs Oddssonar sem þá var seðlabankastjóri og tók sem slíkur ýmsar mikilvægar og umdeildar ákvarðanir, sem sumar tengdust erlendum aðilum.

Augljóst er að hér er um að ræða meiriháttar hagsmunaárekstur, af því tagi sem háskólafólk með sjálfsvirðingu forðast í lengstu lög, og vonandi sér Hannes að sér.   En jafnvel það myndi ekki fría Félagsvísindastofnun, og forystu HÍ, af ábyrgð í málinu, því Félagsvísindastofnun hefur þegar samið við Fjármálaráðuneytið um að Hannes stjórni þessari rannsókn.   Það er glórulaust athæfi af hálfu rannsóknastofnunar við háskóla.

Það er nógu slæmt að háskólastofnun taki að sér að vinna rannsókn af þessu tagi fyrir aðila (ráðumeytið) sem stjórnað er af manni (núverandi ráðherra) sem hefur gríðarleg tengsl við ýmsa þá sem voru í stórum hlutverkum í hruninu, auk þess að hafa sjálfur átt í umdeildum viðskiptum með hluti í einum af bönkunum sem hrundu.  En það er brjálæði að stofnunin skuli semja um að slík rannsókn sé framkvæmd af manni með þann bakgrunn sem Hannes hefur varðandi það sem á að rannsaka.

Það er til einföld lausn á þessu:  Að Háskóli Íslands hætti alveg að taka að sér rannsóknir fyrir aðila sem ljóst er að eiga hagsmuna að gæta og sem vonast því til að niðurstöðurnar verði þeim hagstæðar.  Slíkir hagsmunaárekstrar gera að engu það traust sem þarf að vera hægt að bera til rannsókna í háskólum.  Með því að láta nota sig með þessum hætti er HÍ að selja það sem á að vera mikilvægasta eign skólans, traustið á akademískan heiðarleika hans.