Fyrir fáum vikum hneykslaðist innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, á því að andstæðingar trúboðs ríkiskirkjunnar í skólum vildu „forða börnunum okkar frá boðskap um … kærleika“. Hanna Birna er ekki svo illa gefin að hún viti ekki að þetta eru ósannindi sem hún fór með. Hún veit líka að það er ekki í anda kristilegs kærleika að segja ósatt með þessum hætti.
Hanna Birna veit líka örugglega margt fleira um þessa kristni sem hún þykist aðhyllast, að minnsta kosti á tyllidögum. Til dæmis kann hún örugglega söguna um miskunnsama Samverjann. Og ritningargreinina „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ Samt neitaði hún að bíða með brottvísun manns sem grunur leikur á að eigi fljótlega von á barni með konu sem býr á Íslandi. Þau heita að vísu ekki María og Jósef, en ótrúlegt verður að teljast að Hanna Birna sé ekki með í huga, á aðventunni, söguna um þau og barnið þeirra.
Hún veit líka örugglega af boðorðinu um að bera ekki ljúgvitni, en samt breiðir hún út dylgjur um að aðrir beri ábyrgð á leka minnisblaðs úr ráðuneytinu þótt allt bendi til að því hafi verið lekið úr ráðuneytinu í sóðalegum tilgangi, og hún neitar að svara augljósum spurningum þegar böndin hafa nú borist að henni sjálfri og nánustu undirmönnum.
Hanna Birna þekkir örugglega allt þetta úr kristninni sem hún þykist aðhyllast. En hún aðhyllist ekki kærleiksboðskap kristninnar. Hanna Birna er ekki kristin. Hún sveipar sig bara ljóma þess sem fallegast er í kristninni þegar það hentar henni. Þegar á reynir er hún hins vegar andkristnin holdi klædd.