Samfylkingin var upphaflega stofnuð til að sameina fólk sem taldi sig til vinstri í samfélagsmálum, þ.e.a.s. félagshyggjufólk. Það tókst að vísu ekki fullkomlega þar sem sumt „vinstrafólk“ vildi frekar verða beinir arftakar Alþýðubandalagsins en að taka þátt í sameiningu allra á vinstri vængnum. Reyndar virðast Vinstri Græn hvorki vera sérstaklega vinstrisinnuð né græn miðað við framgöngu sína á kjörtímabilinu, og það er táknrænt að þau ætli að ljúka því með því að samþykkja milljarða styrki til þeirra stórkapítalista sem vilja byggja stóriðju á Bakka, með tilheyrandi náttúruspjöllum vegna nauðsynlegra virkjana. En það er annað mál …
Samfylkingin fékk mikinn meðbyr fljótlega á ferli sínum, enda þóttust margir sjá að þar væri kominn flokkur sem myndi standa vörð um hagsmuni almennings, og sérstaklega þeirra sem minna mega sín, samtímis því að verja frelsi í viðskiptum og svigrúm einkaframtaks, sem mörgum hugnast vel, þótt minni ánægja sé oft með raunverulegar gerðir á þeim sviðum, enda atvinnulíf landsins undirlagt af klíkuveldi sem hirðir um það eitt að maka eigin krók. Á því sviði, að brjóta upp það gegnrotna spillingarkerfi sem drottnað hefur yfir atvinnulífi og stjórnmálum landsins, hefur Samfylkingin lítið eða ekkert gert, en það er líka annað mál …
Efasemdaraddirnar þögnuðu samt aldrei hjá þeim sem töldu að hægrisinnaðir kratar, sem á Íslandi voru alltaf langt hægra megin við félaga sína á hinum Norðurlöndum, hefðu slík ítök í flokknum að hann yrði aldrei jafnaðarmannaflokkur af norrænni gerð, og allra síst ef hann skæri ekki í alvöru upp herör gegn því gegndarlausa ráni lítillar valdaklíku á auðlindum landsins sem einn Samfylkingarmaðurinn nefndi svo snilldarlega „Rányrkjubúið Ísland„. Til hægrikratanna töldu margir Árna Pál Árnason, nýkjörinn formann, sem gekk þó vel að kynna sig sem eitthvað allt annað í baráttu sinni um formannstignina, og í nokkrar vikur eftir það.
Árna þraut þó snemma örendið. Í krafti formennsku sinnar komst hann fljótlega í þá aðstöðu að hafa veruleg áhrif á eitthvað sem skipti máli, þ.e.a.s. stjórnarskrármálið. Miðað við það sem síðar kom á daginn, og sem Árni hefði verið fljótur að finna út sjálfur hefði hann kært sig um, var meirihluti þingmanna tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við að stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni yrði samþykkt á þessu þingi. Til þess þarf að stöðva væntanlegt málþóf þingmanna Sjálfsstæðisflokksins og einhverra úr Framsókn, svo valið stóð augljóslega á milli tveggja kosta:
- Að beygja sig fyrir kúgunarvaldi Sjálfstæðisflokksins, sem skírskotar til samtryggingarinnar sem felst í þeirri „hefð“ að stöðva ekki málþóf, hversu brjálæðislegt sem það er, og hversu hrikalega sem það fer í bága við augljósan og stöðugan vilja almennings (og sem er óþekkt fyrirbæri í nágrannalöndunum, enda fáránlega ólýðræðislegt).
- Eða að gerast sá leiðtogi sem sýndi að hann bæri hagsmuni almennings fyrir brjósti, og léti afturhaldsöflin ekki stöðva sig. Hefði Árni valið þann kostinn er nokkuð ljóst að nánast enginn Samfylkingarþingmaður hefði treyst sér til að standa einn á víðavangi með það á samviskunni að vilja drepa stjórnarskrárfrumvarpið, og Árna hefði ekki orðið skotaskuld úr að tryggja það áður en í odda skærist. Við þær aðstæður er líka útilokað að stjórnarliðar meðal VG hefðu þorað að láta það verða sitt síðasta verk fyrir kosningar að bana nýrri stjórnarskrá.
En Árna virðist aldrei hafa dottið í hug að hann gæti tekið sér slíkt leiðtogahlutverk. Í staðinn hóf hann afskipti sín af málinu með því að ganga á fund formanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og segja þeim nánast að þeir mættu alveg ráða því hvernig þeir færu að því að murka lífið úr stjórnarskrármálinu; hann ætlaði bara að vera hlutlaus áhorfandi að morðinu.
Með þessu tiltæki reitti Árni til reiði mikinn fjölda þess fólks sem kosið hefur Samfylkinguna síðustu árin, en vandséð er að hann hafi í staðinn laðað til sín nokkra nýja kjósendur, enda finnst þeim fæstum ástæða til annars en að kjósa ómengaða útgáfu þess afturhalds sem Árna er svo í mun að ná „sáttum“ við.
Sé það markmið Samfylkingarinnar að vera stór flokkur með afgerandi áhrif í íslenskum stjórnmálum er ljóst að hún gerði hrikaleg mistök með því að kjósa Árna yfir sig sem formann (þótt eini valkosturinn í formannskjörinu hafi ekki heldur verið gæfulegur). Sé það markmið Samfylkingarinnar að vera krataflokkur að norrænni fyrirmynd (sem er ekki endilega djarfasta pólitíska hugmynd sem skotið hefur upp kollinum á Íslandi), þá er Árni á góðri leið með að breyta þeim draumi í martröð, því hans eina markmið virðist vera að verða hækja Sjálfstæðisflokksins, svo mjög sem hann hamrar á nauðsyn samninga við Sjálfstæðisforystuna, án þess að hafa nokkurn tíma minnst á hagsmuni þess almennings sem Samfylkingin hefur gert út á að vera málsvari fyrir. Það kom enda glöggt í ljós í löngu viðtali Ingva Hrafns við Árna Pál á ÍNN nýlega að Árni virðist hugsa um stjórnmál eingöngu sem samninga milli valdaklíkna í fjórflokknum, sem komi þessum almenningi lítið við.
Það er ýmislegt sem ég er ósáttur við í tillögu Stjórnlagaráðs. Ég er hins vegar mjög ánægður með vinnubrögð þess, og það er hægt að sætta sig við að vera í minnihluta þegar vinnubrögðin eru lýðræðisleg. Sama gildir um Samfylkinguna. Þótt ég myndi varla kjósa hana í bráð þá tæki ég því fagnandi ef á Íslandi yrði til það sem kalla mætti heiðarlegan krataflokk (með sterkri áherslu á „heiðarlegan“), enda myndi ég helst lýsa stjórnmálaskoðunum mínum sem svo að ég sé frjálslyndur félagshyggjumaður (með áherslu á frjálslyndi ef ég er að tala við „vinstrafólk“ og félagshyggju þegar ég tala við „hægrafólk“).
Núverandi formaður flokksins er hins vegar að leiða hann yfir í undirlægjuhlutverk gagnvart þeim sótsvörtu afturhaldsklíkum sem hafa drottnað yfir atvinnulífi og pólitík í landinu í áratugi. Verði formanninum ekki fljótlega fundinn annar staður í tilverunni má allt eins búast við að flokkurinn verði sundurtætt rekald í þeirri ólgu sem nú kraumar á Íslandi, og sem ekkert útlit er fyrir að lægi í bráð.