Spuni Þórunnar Sveinbjarnardóttur

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrum alþingismaður og núverandi flokksstjórnarmeðlimur í Samfylkingunni, skrifaði pistil um stjórnarskrármálið á Eyjuna í gær.  Þar reynir hún að verja afstöðu formanns Samfylkingarinnar í málinu, en hann vildi sem kunnugt er „semja“ við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk um að málinu yrði haldið áfram á næsta þingi, fremur en að afgreiða það fyrir þinglok í vor.

Þórunn heldur fram sömu rökum, eða öllu heldur rökleysu, í málinu og Árni, nefnilega að þingsályktunartillaga á þessu þingi myndi binda hendur næsta þings.  Þetta er svo augljóslega rangt að það þarf ekki einu sinni að ræða það, því næsta þing getur gert það sem því sýnist í málinu, og til dæmis samþykkt nýja og gagnstæða þingsályktun.  Það er til vansa að manneskja sem þekkir þessa hluti jafnvel og Þórunn reyni með þessum hætti að slá ryki í augu almennings, að því er virðist í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum þeirra afturhaldsafla sem vilja allar teljandi breytingar á stjórnarskrá feigar.

Það er líka sláandi að þau sem talað hafa um málið á sömu nótum og Þórunn hafa ekki reynt að útskýra hvernig þau sjái fyrir sér það ferli á næsta þingi sem myndi leiða til þess að mikilvægustu breytingarnar sem felast í tillögu Stjórnlagaráðs næðu fram að ganga.  Enda er augljóst að næsta þing, ef það hirti yfirleitt um að fjalla um stjórnarskrána, gæti samþykkt hvaða breytingar sem er á henni, eða engar.
Annað sem er vægast sagt sérkennilegt í málflutningi Þórunnar er afstaða hennar til þess að beita því ákvæði þingskaparlaga sem gerir kleift að stöðva málþóf.  Hún segir:
Málþófið verður ekki stöðvað með 71.gr. bæði vegna þess að skilyrði greinarinnar eru ekki uppfyllt og vegna þess að það samræmist ekki gildum jafnaðarmanna.
 Þórunn útskýrir ekki hvaða skilyrði 71. greinar það eru sem ekki eru uppfyllt, enda er vandséð hvað það ætti að vera (sjá hér). Hitt er enn verra, að svo virðist sem Þórunn telji það „gildi jafnaðarmanna“ að leyfa minnihluta á þingi að koma í veg fyrir að sett sé ný stjórnarskrá, sem nýtur fylgis afgerandi meirihluta almennings.  Það er óskiljanlegt hvers konar jafnaðarmannagildi það eru sem setja hagsmuni þeirra valdaklíkna sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur vinna leynt og ljóst fyrir ofar hagsmunum almennings.   Þórunn útskýrir ekki heldur af hverju jafnaðarmannaflokkarnir á hinum Norðurlöndunum hafa ekki í heiðri þessi mikilvægu gildi jafnaðarmanna, en þar er málþóf af því tagi sem beitt hefur verið á Íslandi óþekkt, þótt fáir haldi fram að lýðræðið í þeim löndum standi langt að baki því íslenska.
Ég ætlaði að gera athugasemdir við málflutning Þórunnar á bloggi hennar í gærkvöldi.  Slíkar athugasemdir birtast þó ekki sjálfkrafa, heldur verður hún að samþykkja þær.  Skemmst er frá því að segja að enn hefur hún engar athugasemdir samþykkt.   Um flokkssystur Þórunnar, Valgerði Bjarnadóttur, sem unnið hefur einarðlega að því að fá nýja stjórnarskrá samþykkta á þessu þingi, gegnir öðru máli.  Hún skrifaði líka pistil í gær sem vert er að lesa, og þar sem hægt er að setja inn ummæli.