Greiningardeildir og aðrir spámenn

Árið 1997 fengu Robert C. Merton og Myron Scholes Nóbelsverðlaunin í hagfræði. (Það er reyndar ekki alveg rétt, því umrædd verðlaun veitir sænski seðlabankinn og kallar „verðlaun til minningar um Alfred Nobel“, og þeir eru til sem telja að þessi verðlaun séu álíka mikill virðingarvottur við Alfred og þegar friðarverðlaunin voru veitt Henry Kissinger, eða Barack Obama um það leyti sem hann var að herða á hernaðaraðgerðum í Afganistan, sem kostað hafa hundruð eða þúsund saklausra borgara lífið.)

Verðlaunin fengu þeir Robert og Myron fyrir kenningar sem snerust um að meta verðgildi fjármálagerninga sem kallaðir eru „options“ á ensku.  Þeir geta til dæmis falist í því að ég semji við þig um að eftir tíu ár sért þú skuldbundin til að selja mér tíu þúsund hlutabréf í tilteknu fyrirtæki, á hundrað krónur stykkið.  Sé markaðsverð bréfanna 200 krónur græði ég stórlega (og þú tapar), en sé gangverð þeirra lægra en 100 krónur læt ég vera að kaupa af þér, og hef þá aðeins tapað því sem ég borgaði þér upphaflega fyrir að tryggja mér kaupréttinn.

Robert og Myron voru lykilmenn í vogunarsjóði sem hét Long Term Capital Management, eða LTCM.  Þetta var gríðarlega stór sjóður, sem upphaflega gekk vel, og var rekinn í samræmi við kenningar þeirra félaga. Árið 1998, ári eftir að Robert og Myron fengu „Nóbelsverðlaunin“, urðu hins vegar ýmsir atburðir sem leiddu til þess að LTCM fór á hausinn með miklum hvelli, og með talsverðum eftirskjálftum á fjármálamörkuðum.

Einhverjum þætti líklega eðlilegt að svipta Robert og Merton verðlaunum sænska seðlabankans, en svoleiðis er víst aldrei gert (og reyndar eru Nóbelsverðlaunin á flestum sviðum ekki veitt fyrr en löngu er orðið ljóst að slík „hneyksli“ geti bara ekki átt sér stað, af því að viðkomandi fræðikenningar geti alls ekki verið tóm þvæla).

Þvert á móti voru kenningar þessara manna leiðarljós í starfi margra fjármálaverkfræðinga eftir hrun LTCM, og að minnsta kosti næstu tíu árin. Þá, árið 2008, varð allsherjarhrun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, eins og allir vita.

Samt er uppi rökstuddur grunur um að umræddar kenningar, sem og önnur „fræði“ sem stunduð hafa verið óbreytt gegnum endurtekin hrun stórra fjármálastofnana, séu ennþá grundvöllur fjármálastarfsemi sem enn gerir þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari, í skjóli ríkisvaldsins, sem tryggir viðkomandi fjármálastofnunum rekstrargrundvöll, og jafnvel reiðufé, á kostnað almennings.

Til að bæta gráu ofan á svart eru íslenskir fjölmiðlar svo daglega uppfullir af spám svokallaðra „greiningardeilda“ bankanna, og annara fjármálaspekinga. Fjölmiðlafólkið, að ekki sé nú minnst á hið virðulega viðskiptafréttafólk, virðist hafa gleymt því að hér, og víðar, varð svokallað hrun. Og að fólkið sem olli því, og „sérfræðingarnir“ sem sáu bara rósrauða framtíð þar til veröld þeirra hrundi (að mestu ofan á saklaust fólk), er sama liðið og þetta fjölmiðlafólk slefar nú yfir í taumlausri aðdáun.