Í opinberri umræðu um flókin mál er oft gott að fá sérfræðinga sem skýrt geta hluti sem ekki liggja í augum uppi fyrir leikmönnum. Sé vel að slíku staðið er þá oft hægt að lyfta umræðunni á hærra plan, þegar við leikmennirnir höfum áttað okkur á grundvallaratriðum sem ekki voru á hreinu og flæktu því umræðuna að nauðsynjalausu. Í þessu standa íslenskir fjölmiðlar sig oft illa og sama er því miður hægt að segja um margt íslenskt háskólafólk, sem ætti þó að geta lagt mikið af mörkum til að gera umræðuna markvissari.
Fjölmiðlar á Íslandi eru sífellt að birta viðtöl við meinta sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, þar sem viðmælandi talar óhindrað um eigin skoðanir og fær í mesta lagi nokkrar lotningarfullar jánkandi athugasemdir fréttamannsins. Þetta er ömurleg fréttamennska þegar fjallað er um hluti sem ekki er til óyggjandi fræðileg þekking um, eins og gildir til dæmis um nánast alla fjölmiðlaframkomu stjórnmálafræðinga á Íslandi. Þeir geta haft áhugaverða hluti að segja, en það er fráleitt að kynna þá sem fræðimenn þegar þeir tjá sig um stjórnmálaklæki líðandi stundar sem þeir vita ekkert meira um en hver annar. Háskólafólk sem kemur fram í fjölmiðlum til að úttala sig um eigin skoðanir en ekki sérfræðiþekkingu á sviði sínu ætti að kynna sem sjálffræðinga en ekki sérfræðinga.
Þetta er ljóður á ráði íslenskra fjölmiðla, en auðvitað líka á ábyrgð viðkomandi háskólafólks, og stundum til vansa fyrir háskólann sem hýsir það. Ég benti, í framhjáhlaupi, á eitt slíkt dæmi í þessum pistli, þar sem kynjafræðiprófessor við HÍ úttalaði sig í löngu máli um launamun kynjanna vegna könnunar sem hún hafði augljóslega ekkert kynnt sér og vissi því ekkert um hvort nokkuð var að marka meintar niðurstöður hennar. Nýlega var viðtal í Speglinum við annan prófessor við HÍ, Aðalheiði Jóhannsdóttur, prófessor í lögfræði og sérfræðing i umhverfisrétti.
(Það má skjóta þvi að hér að Aðalheiður er ein af örfáum lagaprófessorum í HÍ sem hafa lokið doktorsprófi, sem er í flestum fræðigreinum litið á sem upphaf rannsóknaferils sem leiðir, ef vel gengur, til prófessorsnafnbótar mörgum árum síðar. Á Íslandi virðist það hins vegar nánast vera regla að doktorspróf tryggi prófessorsstöðu í lögfræði, sem er svipað og að veita doktorsnafnbót þeim sem nær að útskrifast úr menntaskóla, og þeir eru reyndar miklu fleiri lagaprófessorarninr sem aldrei hafa stundað fræðastarf sem nær máli, en verða samt prófessorar).
Aðalheiður fjallaði í þessu Spegilsviðtali um auðlindaákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Mér fundust athugasemdir hennar áhugaverðar, en sýndust sumar þeirra samt vera persónulegar skoðanir sem ekki byggðu á sérfræðiþekkingu. Ég skrifaði þess vegna Aðalheiði og spurði hana út í þetta, því ég vildi gjarnan vita hvað af þessu væru hennar eigin skoðanir og hvað hún liti á sem trausta fræðilega þekkingu.
Póstskipti mín við Aðalheiði eru birt hér að neðan. Skemmst er frá því að segja að hún neitaði með öllu (á „kurteislegan“ hátt) að svara spurningum mínum.
Ég tel að það sé siðferðileg skylda háskólafólks, sem hefur sig í frammi á opinberum vettvangi í krafti stöðu sinnar, að svara spurningum af þessu tagi. Það væri gott ef íslenskir fjölmiðlar leituðu oftar til raunverulegra sérfræðinga um mál sem fjallað er um. Hins vegar þurfum við miklu minna af þeim sjálffræðingum sem vaða þar uppi.
——————————————————————————–
——————————————————————————–
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/19
Subject: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: adalheid@hi.is
Sæl Aðalheiður
Ég var að hlusta á gagnrýni þína á tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ég skildi ekki vel hvað þú áttir við með sumu af því sem þú sagðir. Hefurðu birt eitthvað um þetta sem er aðgengilegt á netinu eða sem þú átt á rafrænu formi og getur sent mér?
Ég hjó líka eftir því að þú sagðir eitthvað á þá leið að það skipti mestu máli hvernig við förum með auðlindir, ekki hver á þær. Ef ég hef skilið þetta rétt, líturðu á þetta sem afstöðu byggða á sérfræðiþekkingu þinni sem lögfræðings, eða er þetta einfaldlega pólitísk afstaða þín?
Enn fremur tók ég eftir að þú talaðir um vatnsréttindi á Spáni í tengslum við auðlindaákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs. Telurðu að þar sé um að ræða sambærilega hluti og einhverjar auðlindir sem fjallað er um í tillögu Stjórnlagaráðs? Ef svo er, hvaða auðlindir telurðu að myndu falla undir það? Jarðvarmi?
Síðast en ekki síst, telurðu að stætt sé á því að líta á það sem eignaupptöku ef ríkið slær eign sinni á jarðvarma undir jörðum sem eru í einkaeign?
Bestu kveðjur,
Einar
—————————————-
From: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>
Date: 2012/1/20
Subject: Re: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Kæri Einar!
Ég þakka þér fyrir áhugann, kveðja, AJ
—————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/20
Subject: Re: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>
Sæl aftur Aðalheiður
Það voru nokkrar spurningar í póstinum sem ég sendi þér. Myndirðu nenna að svara þeim?
Bestu kveðjur,
Einar
—————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/23
Subject: Fwd: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>
Sæl aftur Aðalheiður,
Af því að ég fékk engin svör við spurningunum sem ég sendi þér endursendi ég þær hér. Ég yrði þakklátur ef þú vildir svara þeim. (Ef þú vilt ekki svara þeim myndi ég gjarnan vilja vita það líka.)
Bestu kveðjur,
Einar
—————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/28
Subject: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>
Sæl aftur Aðalheiður,
Af því að ég fékk engin svör við spurningunum sem ég sendi þér endursendi ég þær hér. Ég yrði þakklátur ef þú vildir svara þeim. (Ef þú vilt ekki svara þeim myndi ég gjarnan vilja vita það líka.)
Bestu kveðjur,
Einar