Viðbrögð við piparúða og táragasi

Þar sem hefur sýnt sig að lögreglan lætur ekki smábörn og gamalmenni hindra sig í að beita vopnum án viðvörunar, mæli ég þó með því að börn, sjúklingar og viðkvæmt fólk haldi sig frá Seðlabankanum þennan dag. Þeir sem vilja mæta ættu að taka með sér sundgleraugu og andlitsklúta og lesa þessa færslu.

Táragas og piparúði eru ólík efni en eiga það sameiginlegt að vera notuð til að sundra hópum mótmælenda. Yfirlýstur tilgangur er sá að stöðva hamslaust ofbeldi og skemmdarverk en þessi efni eru þó oft notuð án þess að nokkur ástæða sé til að ætla að fólk sé í hættu. Það er hægt að bregðast við þessum efnum og engin ástæða til að láta þau stöðva okkur í aðgerðum.

Viðbrögð við piparúða

  • Piparúði er miklu hættulegra efni en táragas og einmitt það efni sem líklegast er að íslenska lögreglan noti til að verja þá valdníðinga sem viðhafa slímsetur í stólum embættismanna og ráðherra um þessar mundir. Mace er allt annað efni en piparúði og mun skyldara táragasi. Ef þú færð gusu af vökva á þig, þá er það ekki mace heldur piparúði.
  • Ólíkt táragasi er auðvelt að beina piparúða að ákveðnum einstaklingum. Því er nauðsynlegt að þeir sem telja sig líkleg skotmörk þar sem búast má við lögregluofbeldi, hylji andlit sín, bæði til að draga úr líkunum á að þeir þekkist en ekki síður til að hindra efnið í að komast í snertingu við viðkvæmt hörund. Sundgleraugu koma einnig í góðar þarfir.
  • Áhrifin af piparúða eru hroðalegur sársauki. Þér finnst eins og sé kviknað í þér og þau áhrif vara miklu lengur en áhrifin af táragasi. Vatn gerir takmarkað gagn en er þó skárra en ekkert. Betra er að kæla svæðið með mjólk.
  • Reynið í lengstu lög að komast hjá því að snerta þau svæði sem hafa orðið fyrir úðanum. Þegar sársaukinn er óbærilegur er það varla í mannlegu valdi en snerting gerir bara illt verra. Hindrið aðra sem hafa fengið úðann á sig í því að nudda húðina eða augun.
  • Ef efnið fer í augu, dragið þá ekki að leita til læknis. Þú getur ekki skolað þetta burt með vatni í heimahúsi.
  • Ef þú færð efni upp í þig eða á varir, máttu alls ekki kyngja. Skyrptu eins og þú getur og skolaðu munninn. Ef þér verður á að kyngja efninu, leitaðu á slysadeild strax.
  • Haltu ró þinni. Efnið veldur ekki varanlegum skaða nema þú hafir ofnæmi fyrir því en sársaukinn er svo mikill að sá sem fyrir verður er líklegur til að halda að hann verði blindur og fái brunasár. Það er nauðsynlegt að segja þeim sem verða fyrir úðanum strax að hann sé skaðlaus. Jafnvel þótt fólk eigi að viti það getur það sannfærst um að það sé vitleysa og það er mjög mikilvægt að mæta þjáðu fólki með rósemd.
  • Efnið sest í hár, á allan fatnað og aðra hluti. Varist því að snerta augu, munn, andlit, kynfæri eða önnur viðkvæm svæði nema þvo hendur mjög vandlega og oft ef þið hafið verið í aðstæðum þar sem piparúða er beitt, jafnvel þótt þú teljir þig hafa sloppið alveg. Húðin á fingurgómum og lófum er ekki nærri eins næm og mýkra hörund eða slímhúð.

 

Viðbrögð við táragasi
Þegar táragasi er kastað eða því skotið inn í hóp fólks myndast hræðsla og ringulreið. Gasið ertir augu og húð, byrgir sýn og hefur kvíðavekjandi lykt. Það versta er þó áhrif þess á taugaboð til heilans. Þú sannfærist um að þú getir ekki andað, hreinlega gleymir hvernig maður ber sig að en mundu að þú getur það samt.

Nokkur mikilvæg atriði:

  • Vertu með vindáttina á hreinu. Gasið berst með vindinum svo það má forðast með því að standa undan vindi. Ef vindurinn er nógu sterkur getur maður gengið að hylkinu sem gasið vellur útum undan vindi og sparkað því aftur til föðurhúsanna. Gættu þess þó að hylkið er mjög heitt og því má alls ekki snerta það með berum höndum. Bentu öðrum á vindáttina ef vera skyldi að gasi verði beitt.
  • Haltu ró þinni. Ef þú æsist hugsar þú ekki rökrétt. Fólk hefur hlaupið inn í gasmökk í óðagoti. Reyndu að meta aðstæður og taka rökréttar ákvarðanir. Forðastu gasið en ekki láta það stökkva þér á flótta.
  • Mundu að þú getur andað. Ef þú verður fyrir gasinu skalltu hugsa “ég get andað”, hugarfarið gerir það auðveldara. Komdu þér frá gasinu og reyndu að anda rólega. Öndunin mun rifjast upp.
  • Hyldu andlitið. Gasgrímur eru besta vörnin. Klunnalegar her- eða slökkviliðsgrímur gera þig ónæma/n fyrir gasinu en handhægari eru grímur eins og málarar og iðnaðarmenn nota. Einnig má hnýta dulu fyrir vitin. Hún hjálpar svolítið ein og sér, en margfalt betra er að bleyta hana með sítrónusafa. Ef þú notar þessa aðferð skalltu annað hvort gegnbleyta duluna heima og hafa hana í lokuðum nestispoka þangað til gasinu er kastað, eða þá vera með safann á þér og sulla honum yfir hana þegar þú þarft að nota hana.
  • Þefaðu af einhverju lyktsterku. Ef þú verður fyrir gasi minnir lykt þig á að þú getur andað. Sítrónusafi, spritt eða ilmvatn eru kjörin. Þó er laukur besta lækningin af þeim öllum. Gott er að skera lauk í nokkra bita og útbíta honum til folks í kringum sig þegar gasið fer að vella.
  • Ekki snerta á þér andlitið. Það ertir húð og augu bara enn frekar. Gasið sest á allt, þ.m.t. hendur. Láttu tárin um að hreinsa augun og hinkraðu smá stund eftir að kláðinn í húðinni hætti. Þú þolir þetta alveg.
  • Hjálpaðu öðrum. Ef þú ferð eftir öllu hér að ofan verður allt í lagi með þig. Þá er næsta skref að hjálpa öðrum. Í stéttabaráttu verðum við að passa upp á hvort annað. Við höldum hópinn og komum þeim sem örvænta út úr mekkinum, róum þau niður, hjálpum þeim að anda aftur, gefum þeim vatn og komum þeim burtu ef þau treysta sér ekki til að vera lengur. Ábyrgðamenn barna verða að meta vindáttina frá upphafi mótmæla og vera tilbúnir að koma þeim undan STRAX og gasinu er kastað.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago