Undanfarið hef ég velt fyrir mér skilningi múgans á orðinu „öfgamaður“. Ég hef hvergi rekist á neina almennilega skilgreiningu á fyrirbærinu, það virðist bara háð mati þess sem talar hverju sinni. E.t.v. mætti skilgreina öfgar á sama hátt og klám; „eitthvað sem á ekki rétt á sér af því að það ofbýður MÉR, núna, við þessar aðstæður“.

Það er gaman að fylgjast með netumræðu landans um öfgamenn þessa dagana en auk þess hef ég síðustu vikur spjallað við nokkuð marga um pólitík og það er ekki síður athyglisvert. Mér sýnist algengt að hugmyndir manna um hófsemi og öfgar séu á þessa leið:

Hófsamur stóriðjusinni: Sá sem telur allt í lagi að eyðileggja 57 ferkílómetra af grónu landi og raska þar með vistkerfinu, svipta fugla varpsvæði sínu, rugla hreindýr í rýminu og ganga þvert gegn fjölþjóðlegum ályktunum um verndun votlendis.

Öfgasinnaður umhverfissinni: Sá sem telur allt í lagi að hindra þetta ætlunarverk með því að þvælast fyrir vinnuvélum eða jafnvel skemma þær.

Hófsamur stóriðjusinni: Sá sem álítur arðvænlegt, gott og eðlilegt að álver rísi í hverju krummaskuði á landinu.

Öfgasinnaður umhverfissinni: Sá sem gerir sig sekan um að klæðast eins og trúður og hafa í frammi fíflagang til að vekja athygli almennings á langtímaafleiðingum stóriðju fyrir efnahag og náttúru.

Hófsamur stjórnmálaflokkur: Sá sem telur eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur haldi raforkuverði til stórfyrirtækja leyndu fyrir eigendum sínum.

Öfgasinnaður stjórnmálaflokkur: Sá sem hefur á að skipa fólki sem maldar ekki bara í móinn heldur setur upp snúð og gengur út af fundi „til að reyna að gera borgarbúa vitlausa“, eins og vinkona mín komst að orði.

Hófsamur neytandi: Sá sem ver umtalsverðum hluta tekna sinna til kaupa á vörum sem eru sjaldan eða aldrei notaðar, verslar til að bæta andlega líðan sína, setur sig í skuldir til að halda í lífstíl sem hann hefur ekki efni á og beinir viðskiptum sínum til stórfyrirtækja sem halda heilu þjóðunum í heljargreipum fátæktar.

Öfgasinnaður hnattvæðingarandstæðingur: Sá sem setur á svið gjörning í verslunarmiðstöð til að vekja athygli almennings á því sjónarmiði að við séum orðin þrælar neyslumenningarinnar og að með henni styðjum við fyrirtæki sem koma ósiðlega fram.

Mér finnst þetta voða skrýtin viðhorf. Mér finnst margt skrýtið sem öðrum finnst rökrétt. Samt veit ég að ég hugsa ekki alltaf mjög rökrétt. Um daginn sagði kona sem hringdi í útvarpið t.d. að þessir umhverfissinnar hegðuðu sér eins og hommar. Það er á slíkum augnablikum sem rökhugsun mín verður fyrir einhverskonar skammhlaupi. Mér fannst þetta fyndið.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago